Fara í efni

Byggðarráð Skagafjarðar

67. fundur 25. október 2023 kl. 13:30 - 16:04 að Sæmundargötu 7a
Nefndarmenn
  • Einar Eðvald Einarsson formaður
  • Sólborg Sigurrós Borgarsdóttir varaform.
  • Álfhildur Leifsdóttir aðalm.
  • Jóhanna Ey Harðardóttir áheyrnarftr.
Starfsmenn
  • Friðrik Margeir Friðriksson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
  • Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri
Fundargerð ritaði: Margeir Friðriksson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
Dagskrá

1.Beint flug um Norðurland

Málsnúmer 2310171Vakta málsnúmer

Lagður fram tölvupóstur dagsettur 13.10. 2023 frá Markaðsstofu Norðurlands varðandi beint flug um Norðurland. Óskað er eftir fundi til að ræða stöðuna varðandi beint flug, fjármögnun og stefnu. Arnheiður Jóhannsdóttir framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands kom á fundinn til viðræðu.

2.Staða íslensks landbúnaðar

Málsnúmer 2310232Vakta málsnúmer

Formaður Búnaðarsambands Skagfirðinga, Guðrún Lárusdóttir tók þátt í fundinum undir þessum dagskrárlið í gegnum fjarfundabúnað til að ræða stöðuna í íslenskum landbúnaði. Samþykkt var að senda eftirfarandi áskorun til nýskipaðs starfshóps þriggja ráðuneyta:
Byggðarráð Skagafjarðar og stjórn Búnaðarsambands Skagfirðinga (BSS), fagna nýskipuðum starfshópi þriggja ráðuneyta; matvælaráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis og innviðaráðuneytis, sem ætlað er að leggja mat á og koma með tillögur til úrbóta vegna sífellt erfiðari rekstrarskilyrða í landbúnaði. Þar vegur þyngst verulega aukinn fjármagnskostnaður og miklar verðhækkanir á aðföngum.
Byggðarráð og stjórn BSS skora á starfshópinn að koma fram með öflugar tillögur um hagkvæma endurfjármögnun lána fyrir þá bændur sem þess óska. Jafnframt verður að tryggja að afurðaverð og stuðningur frá búvörusamningum standi undir þeim kröfum sem gerðar eru til aðbúnaðar og aðstöðu bæði manna og dýra. Í alþjóðlegum samanburði eru vinnulaun og annar framleiðslukostnaður landbúnaðarvara á Íslandi hár, en á móti eru gæði þess sem framleitt er með því besta í heiminum. Samkeppni við innfluttar landbúnaðarafurðir getur því verið erfið þegar fluttar eru inn afurðir frá löndum þar sem framleiðslukostnaður er mun lægri en hér, m.a. vegna lægri vinnulauna, verulega meiri stærðarhagkvæmni og í mörgum tilfellum minni áherslu á velferð og aðbúnað dýra. Tollvernd á innfluttar landbúnaðarvörur á því fullan rétt á sér enda er þá markmiðið að verja og tryggja innlenda framleiðslu en þar gegna einnig skýrar upprunamerkingar matvæla lykilhlutverki.
Framleiðsluferlar í hefðbundnum landbúnaði eru almennt langir með krefjandi tímabilum sem stjórnast meðal annars af tíðafari og afkastagetu. Samhliða því hafa verið tíðar breytingar á reglugerðum sem ýtt hafa bændum í kostnaðarsamar endurbætur og aukna vélvæðingu til að ná fram nauðsynlegri hagræðingu í rekstri. Möguleikar bænda á að setja hækkanir eins og nú hafa dunið yfir á bæði aðföngum og í fjármagnskostnaði beint út í verðlagið eru afar takmarkaðir. Ástæður þess eru meðal annars samkeppni við innfluttar vörur sem oft á tíðum virðast ekki einu sinni rétt skilgreindar í tollaflokkum og koma því inn í landið á röngum forsendum, sem svo dregur úr möguleikum afurðastöðva að greiða ásættanlegt verð til bænda.
Stjórnvöld verða að tryggja að í landinu sé öflug framleiðsla matvæla ásamt því að þeir sem hana stunda hafi af framleiðslunni viðunandi afkomu en það er forsenda þess að ungt fólk fáist til starfa og framþróun verði í greininni, ásamt því að fæðuöryggi þjóðarinnar, byggt á innlendri framleiðslu, sé tryggt.

3.Ósk um fund

Málsnúmer 2211242Vakta málsnúmer

Svohljóðandi bókun var gerð á 66. fundi byggðarráðs: "Málið áður á dagskrá 62. og 63. fundar byggðarráðs. Lagt fram bréf dagsett 17. september 2023 frá skíðadeild UMF Tindastóls varðandi skíðasvæðið í Tindastóli. Með bréfi þessu er óskað eftir samtali og samstarfi við sveitarfélögin á Norðurlandi vestra um aðkomu að rekstrarstuðningi við svæðið. Lögð fram viðhaldsáætlun tækja á skíðasvæðinu veturinn 2023-2024.
Byggðarráð samþykkir að fela sveitarstjóra að óska eftir því að forsvarsmenn deildarinnar komi á fund byggðarráðs til viðræðu."
Undir þessum dagskrárlið komu fulltrúar skíðadeildar Tindastóls, Sigurður Bjarni Rafnsson og Sigurður Hauksson til fundar.
Byggðarráð samþykkir að hækka rekstrarframlag sveitarfélagsins til skíðasvæðisins um 2,5 mkr. vegna úrbóta öryggismála tækja á árinu 2023. Viðhaldsáætlun að öðru leiti vísað til gerðar fjárhagsáætlunar fyrir árið 2024.

4.Þjónustustefna í byggðum og byggðarlögum sveitarfélaga

Málsnúmer 2310005Vakta málsnúmer

Með lögum nr. 96/2021 sem tóku gildi í júní 2021 samþykkti Alþingi nýtt ákvæði við sveitarstjórnarlög sem fjallar um þjónustustefnu í byggðum og byggðarlögum sveitarfélags. Samkvæmt 130. gr. a sveitarstjórnarlaga, skal sveitarstjórn móta stefnu fyrir komandi ár og næstu þrjú árin eftir það, um það þjónustustig sem sveitarfélagið hyggst halda uppi í byggðum og byggðarlögum fjarri stærstu byggðakjörnum viðkomandi sveitarfélags. Mótun stefnunnar skal unnin samhliða fjárhagsáætlun og skal málsmeðferðin vera sú sama, þ.e. byggðarráð eða framkvæmdastjóri, eftir því sem kveðið er á um í samþykkt um stjórn sveitarfélags, leggur tillögu um þjónustustefnu í byggðum eða byggðarlögum sveitarfélags fyrir sveitarstjórn eigi síðar en 1. nóvember ár hvert.
Lögð fram þjónustustefna Skagafjarðar fyrir árin 2024-2027.
Byggðarráð samþykkir framlagða þjónustustefnu fyrir árin 2024-2027 og vísar henni til fyrri umræðu í sveitarstjórn.

5.Útkomuspá 2023

Málsnúmer 2310215Vakta málsnúmer

Lögð fram útkomuspá fjárhags og rekstrar sveitarfélagsins fyrir árið 2023.
Byggðarráð samþykkir að vísa útkomuspá ársins 2023 til afgreiðslu sveitarstjórnar.

6.Tillaga

Málsnúmer 2310233Vakta málsnúmer

Lögð fram svohljóðandi tillaga:
VG og óháð óska eftir því að allar ábendingar sem sendar eru inn í gegnum ábendingarhnapp heimasíðu Skagafjarðar fari mánaðarlega fyrir fund byggðarráðs og á þeim fundi tilgreint í hvaða ferli ábendingarnar munu fara og þannig skráð í fundargerð.
Með þessu tryggjum við að allir kjörnir fulltrúar hafi yfirsýn yfir ábendingar íbúa Skagafjarðar og stuðlum einnig enn frekar að gagnsæjum verkferlum stjórnsýslunnar gagnvart íbúum.
Byggðarráð samþykkir tillöguna.

7.Þátttaka og framlög sveitarfélaga til stafræns samstarfs 2024

Málsnúmer 2310218Vakta málsnúmer

Lagt fram bréf dagsett 19. október 2023 frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga varðandi þátttöku og framlag til stafræns samstarfs 2024.
Byggðarráð samþykkir framlagðan útreikning á framlögum sveitarfélagsins á árinu 2024 og þátttöku.

8.Ósk um kaup á landi

Málsnúmer 2307135Vakta málsnúmer

Lögð fram svohljóðandi bókun frá 12. fundi landbúnaðarnefndar þann 17. október 2023: "Lagður fram tölvupóstur dagsettur 14. september 2023 frá Rúnari Páli Hreinssyni, þar sem hann óska eftir að fá til kaups land það sem hann hefur haft á leigu frá sveitarfélaginu. Um er að ræða Ártúnahólf ofan við veg og upp með Deildardalsafleggjara.
Landbúnaðarnefnd samþykkir að leggja til við byggðarráð að viðkomandi landi verði skipt út og auglýst til sölu og vísar erindinu til afgreiðslu byggðarráðs."
Byggðarráð samþykkir að hólf númer 23 á hólfakorti yfir ræktunarlönd og beitarlönd á Hofsósi, í verki 416302 hjá Stoð verkfræðiþjónustu, uppfært 3. júlí 2023, verði mælt upp. Í framhaldinu verði farið yfir eignarhald á Árhólslandi og afstaða tekin til hugsanlegrar sölu.

9.Rjúpnaveiðar á jörðum og landi sveitarfélagsins

Málsnúmer 2211268Vakta málsnúmer

Lögð fram svohljóðandi bókun frá 12. fundi landbúnaðarnefndar þann 17. október 2023: "Landbúnaðarnefnd leggur til við byggðarráð að sveitarfélagið marki sér stefnu um rjúpnaveiðar á landi í eigu þess."
Byggðarráð felur landbúnaðarnefnd að koma með tillögu að stefnu um rjúpnaveiðar á landi í eigu sveitarfélagsins.

10.Gjaldskrá hitaveitu 2024

Málsnúmer 2310010Vakta málsnúmer

Lögð fram svohljóðandi bókun frá 9. fundi veitunefndar þann 13. október 2023: "Hækkun neysluvísitölu síðustu tólf mánuði er 7,7% en út frá rekstrarstöðu hitaveitu er lögð fram tillaga um 4,9 % hækkun á gjaldskrá hitaveitu fyrir árið 2024. Hækkunin er til komin vegna fyrirsjáanlegra verðlagsbreytinga og viðhaldsframkvæmda. Við ákvörðun gjaldskrár er einnig tekið mið af langtímaáætlun um fjárfestingar í hitaveitu.
Veitunefnd samþykkir framlagða gjaldskrá og vísar til byggðarráðs."
Byggðarráð samþykkir framlagða gjaldskrá og vísar henni til afgreiðslu sveitarstjórnar. Byggðarráð beinir því til veitunefndar að yfirfara gjaldskrána í heild sinni í upphafi árs 2024.

11.Gjaldskrá vatnsveitu 2024

Málsnúmer 2310011Vakta málsnúmer

Lögð fram svohljóðandi bókun frá 9. fundi veitunefndar þann 13. október 2023: "Farið yfir forsendur gjaldskrár vatnsveitu 2024. Við ákvörðun gjaldskrár er tekið mið af samþykktri rekstraráætlun og langtímaáætlun vatnsveitunnar. Vatnsgjald er reiknað af öllum fasteignum, sem eru gjaldskyldar, skal greiða vatnsgjald sem nemur 0,16% af álagningarstofni. Lágmarksgjald skal vera pr. rúmmetra kr. 44,94 og hámarksgjald pr. rúmmetra kr. 53,67. Aðrir liðir taka mið af vísitöluhækkun.
Veitunefnd samþykkir framlagða gjaldskrá og vísar henni til afgreiðslu byggðarráðs."
Byggðarráð samþykkir framlagða gjaldskrá og vísar henni til afgreiðslu sveitarstjórnar.

12.Umsagnarbeiðni; Þingsályktunartillaga um samgönguáætlun 2024-2038 og aðgerðaráætlun 2024-2028

Málsnúmer 2310176Vakta málsnúmer

Lagður fram tölvupóstur dagsettur 12. október 2023 frá nefnda- og greiningarsviði Alþingis þar sem umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis sendir til umsagnar tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir árin 2024-2038 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2024-2028, 315. mál. Þess er óskað að undirrituð umsögn berist eigi síðar en 26. október nk.
Byggðarráð ítrekar bókun sína frá 57. fundi þann 31. júlí 2023:
"Byggðarráð Skagafjarðar fagnar sérstaklega áherslum samgönguáætlunar þegar kemur að umferðaröryggi og ekki síst í þeim efnum forgangsröðun í jarðgangakafla áætlunarinnar hvað varðar áform um jarðgöng á milli Fljóta og Siglufjarðar. Byggðarráð tekur einnig undir áherslur um fækkun einbreiðra brúa í þjóðvegakerfi landsins.
Þá fagnar byggðarráð að framkvæmdir við nýja ytri höfn á Sauðárkróki séu framundan en leggur ríka áherslu á að þeim framkvæmdum verði hraðað enn frekar og þeim lokið eigi síðar en snemma árs 2026. Fyrir því liggja brýnar ástæður sem eru annars vegar að þær eru forsenda uppbyggingar nýrrar hátæknifiskvinnslu FISK Seafood á Sauðárkróki og hins vegar að þær eru jafnframt forsenda þess að orkuskipti geti átt sér stað í skipaflota fyrirtækisins og að Sauðárkrókshöfn verði til framtíðar viðkomustaður strandflutninga. Orkuskipti kalla á hafnaraðstöðu sem tekur á móti skipum sem rista dýpra en núverandi höfn á Sauðárkróki ræður við.
Byggðarráð bendir einnig á að víða í Skagafirði má finna vegi sem beinlínis eru hættulegir yfirferðar vegna skorts á viðhaldi. Í greiningu Vífils Karlssonar um umferð og ástand vega á Vesturlandi, sem unnin var fyrir Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi árið 2016, kom fram að árið 2014 var hlutfallslega mest af malarvegum á Norðurlandi vestra og ljóst að miðað við litlar úrbætur í landshlutanum síðan þá, þá hefur Norðurland vestra dregist enn frekar aftur úr öðrum landsvæðum. Þess má geta að á hverjum skóladegi í Skagafirði aka skólabílar börnum 314 km vegalengd, þar af tæpum þriðjungi eða 91,5 km á malarvegum og yfir 12 einbreiðar brýr. Það er því afar brýnt að sjónir samgönguyfirvalda beinist að Norðurlandi vestra og auknum nýframkvæmdum við vegi þar. Má þar t.d. benda á afar bágborna vegi í Skagafirði í Hegranesi, Sæmundarhlíð, Ólafsfjarðarvegi suður frá Ketilási, Skagafjarðarveg, Skagaveg og Ásaveg. Mjög áríðandi er að ráðast í löngu tímabærar lagfæringar á Hólavegi en þar er umferðarþungi mikill og slysatíðni há. Þess má geta að fjölmennt landsmót hestamanna verður haldið á Hólum í Hjaltadal sumarið 2026.
Byggðarráð telur brýnt að stórauka fjárframlög til girðinga meðfram þjóðvegum landsins og einnig til uppbyggingar og viðhalds reiðvega umfram það sem gert er ráð fyrir í drögum að samgönguáætlun.
Byggðarráð leggur áherslu á að reglugerð sem gildir um vetraþjónustu Vegagerðarinnar verði tekin til endurskoðunar en eins og hún er í raun framsett þá gildir helmingamokstur Vegagerðarinnar aðeins að þriðja síðasta bæ við enda vegar. Sú aðferðafræði er vægast sagt umdeild og algjörlega á skjön við áherslur á jafnræði borgaranna og byggðaþróun. Enn má geta um ósanngjarnar reglur Vegagerðarinnar sem miða aðra mokstursþjónustu eingöngu við umferð á þjóðvegum og tengivegum en horfa ekkert til þess hvar á landinu þessir vegir eru. Það gefur t.d. auga leið að það þarf almennt séð miklu meiri vetrarþjónustu á t.a.m. veginn fram í Stíflu í Fljótum heldur en veg með sambærilegum umferðarþunga á Suðurlandi eða Suðvesturhorninu.
Byggðarráð Skagafjarðar tekur undir umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga við drög að samgönguáætlun og ekki síst hvað varðar að auknu fjármagni verði varið til vetrarþjónustu vega utan þéttbýlis með það að markmiði að aðlaga þjónustuna að þörfum samfélagsins og atvinnulífs. Trygg og góð vetrarþjónusta er ein af grunnforsendum þess að markmið áætlana ráðuneytisins um að innviðir mæti þörfum samfélagsins og sjálfbærar byggðir og sveitarfélög um allt land verði náð. Einnig að viðmiðunarreglur Vegagerðarinnar um kostnaðarþátttöku sveitarfélaga vegna snjómoksturs verði teknar til endurskoðunar í samvinnu við sveitarfélögin.
Byggðarráð vill að lokum benda á að svo litlir fjármunir eru veittir til viðhalds á Alexandersflugvelli við Sauðárkrók að til skammar er. Flugvöllurinn gegnir mikilvægu hlutverki fyrir sjúkraflutninga í landshlutanum og nauðsynlegt að vellinum og allri aðstöðu sé viðhaldið á sómasamlegan hátt og þannig að lífi fólks sé ekki ógnað af þessum sökum. Þess má jafnframt geta að slitlag á flugbrautinni er farið að láta verulega á sjá, ráðast þarf í endurbætur á lendingarljósum, auk fleiri brýnna aðgerða til að tryggja að völlurinn geti að lágmarki haldið áfram að sinna hlutverki sínu við að tryggja sjúkraflug til og frá Skagafirði."

13.Sauðárkrókshöfn - fyrirhugaðar framkvæmdir við stálþil 2023

Málsnúmer 2304111Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar niðurstaða útboðs Vegagerðarinnar, "Sauðárkrókur - Endurbygging Efri Garðs" frá 27. júní 2023. Gengið var til samninga við lægstbjóðanda Árna Helgason ehf. Einnig lögð fram fundargerð frá fundi fulltrua Vegagerðarinnar og verktaka þann 10. október 2023.

14.Reglugerð um íbúakosningar sveitarfélaga

Málsnúmer 2310205Vakta málsnúmer

Lagður fram til kynningar tölvupóstur dagsettur 18. október 2023 þar sem innviðaráðuneyti vekur athygli á því að ný reglugerð um íbúakosningar sveitarfélaga nr. 922/2023 hefur verið staðfest og birt í Stjórnartíðindum.
Íbúakosningar sveitarfélaga eru af þrennum toga sem falla allar undir gildissvið reglugerðarinnar. Um er að ræða:
Kosningar í nefnd sem fer með málefni fyrir hluta sveitarfélags, sbr. 38. gr. sveitarstjórnarlaga, sameiningakosningar sveitarfélaga, sbr. 119. gr. sveitarstjórnarlaga, íbúakosningar um einstök málefni, sbr. 107. og 108. gr. sveitarstjórnarlaga
Ráðuneytið hefur jafnframt birt leiðbeiningar um framkvæmd íbúakosninga á vef sínum.
Sérstök athygli er vakin á þeim breytingum sem hafa verið gerðar á framkvæmd íbúakosninga sem fram fara að frumkvæði sveitarstjórnar og ekki eru bindandi.
Sveitarstjórn getur nú ákveðið að halda íbúakosningu fyrir tiltekinn aldur íbúa, t.d. 16-20 ára eða 60 ára og eldri, fyrir erlenda ríkisborgara sem lögheimili eiga í sveitarfélaginu eða fyrir íbúa sem hafa lögheimili í tilteknum hluta sveitarfélagsins. Auk þess er gert ráð fyrir að framkvæmd og fyrirkomulag slíkra kosninga sé mun umfangsminna en um aðrar bindandi íbúakosningar sveitarfélaga. Með þessu er sveitarfélögum gefið tækifæri til að efla lýðræðivitund og þekkingu ungs fólks og auka lýðræðisþáttöku erlendra ríkisborgara. Eru sveitarfélög sérstaklega hvött til að kynna sér nýtt fyrirkomulag slíkra kosninga.

Fundi slitið - kl. 16:04.