Fara í efni

Byggðarráð Skagafjarðar

54. fundur 28. júní 2023 kl. 14:00 - 15:30 að Sæmundargötu 7a
Nefndarmenn
  • Einar Eðvald Einarsson formaður
  • Sólborg Sigurrós Borgarsdóttir varaform.
  • Álfhildur Leifsdóttir aðalm.
  • Jóhanna Ey Harðardóttir áheyrnarftr.
Starfsmenn
  • Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri
Fundargerð ritaði: Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri
Dagskrá

1.Svæðisáætlun sveitarfélaga

Málsnúmer 2111190Vakta málsnúmer

Lagt fram ódagsett bréf frá Ólöfu Lovísu Jóhannsdóttur atvinnuráðgjafa hjá SSNV, þar sem óskað er eftir að endanleg tillaga að svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs á Norðurlandi 2023-2036, verði lögð fyrir sveitarstjórn til samþykktar. Áætlunin öðlast gildi þegar allar hlutaðeigandi sveitarstjórnir hafa samþykkt hana.
Málið hefur áður verið tekið fyrir á 991. fundi byggðarráðs Sveitarfélagsins Skagafjarðar, 186. fundi umhverfis- og samgöngunefndar Sveitarfélagsins Skagafjarðar og 419. og 420. fundum sveitarstjórnar Sveitarfélagsins Skagafjarðar, svo og 27. og 40. fundum byggðarráðs Skagafjarðar og 7. og 12. fundum sveitarstjórnar Skagafjarðar.
Byggðarráð samþykkir svæðisáætlunina með fyrirvara um hlut sveitarfélaganna í fjármögnun aðgerða þar sem ekki liggur fyrir kostnaðargreining þeirra. Byggðarráð vísar áætluninni, með framangreindum fyrirvörum, til afgreiðslu sveitarstjórnar.

2.Aðalgata 22

Málsnúmer 2306175Vakta málsnúmer

Fyrir liggur boð erfingja Bjarna Haraldssonar, kaupmanns á Sauðárkróki, til Skagafjarðar um að kaupa fasteignina Aðalgötu 22 á Sauðárkróki, með útgangspunkti söluverðs 120 m.kr. Í kjölfar samtals við erfingja var ákveðið að leita eftir formlegu verðmati fasteignarinnar og liggur það nú fyrir, dags. 13. júní 2023, unnið af Júlíusi Jóhannssyni löggiltum fasteignasala hjá Landmark fasteignamiðlun. Samkvæmt verðmatinu er áætlað söluverð 93. m.kr.
Byggðarráð samþykkir að hafna tilboðinu enda ekki augljóst hvaða hlutverki fasteignin gæti þjónað í eigu sveitarfélagsins en viðbúið að opinbert hlutverk myndi kalla á verulega kostnaðarsamar breytingar og lagfæringar á aðgengi. Þá er húsið sem byggt er árið 1930 metið með miðlungs varðveislugildi í samantekt um verndarsvæði í byggð, sem unnið var fyrir Sveitarfélagið Skagafjörð árið 2018, og byggir á heimildakönnun, fornleifaskráningu og húsakönnun fyrir gamla bæinn á Sauðárkróki. Jafnframt liggur fyrir að húsið, verslun og íbúð, eru ekki friðuð og á það við um bæði ytra byrði og innréttingar, svo sem staðfest hefur verið af Minjastofnun Íslands.

3.Leiguhólf nr. 2, 4 og Naustaland

Málsnúmer 2305149Vakta málsnúmer

Málið áður tekið fyrir á 51. fundi byggðarráðs Skagafjarðar en þar var samþykkt að úthluta Steindóru Ólöfu Haraldsdóttur til leigu 2 ha af Naustalandi við Hofsós á móti Elísabetu Jansen sem fékk 3 ha úthlutaða til leigu. Leigutíminn verður til 5 ára og var umhverfis- og landbúnaðarfulltrúa falið að ganga frá leigusamningi um landið. Með tölvupósti dags. 6. júní 2023 dró Steindóra Ólöf umsókn sína um beitarhólfið hins vegar til baka.
Byggðarráð samþykkir að úthluta Elísabetu Jansen sem sótti um allt svæðið í upphafi, verði úthlutað þeim hluta hólfsins sem Steindóra afþakkaði.

4.Drusluganga 2023

Málsnúmer 2306183Vakta málsnúmer

Tekið fyrir erindi, dags. 19. júní 2023, frá Tönju M. Ísfjörð Magnúsdóttur, þar sem óskað er eftir samþykki fyrir því að halda Druslugöngu á Sauðárkróki, laugardaginn 22. júlí 2023. Gangan yrði gengin sama dag á Sauðárkróki og í Reykjavík. Fram kemur í erindinu að umsækjandi muni einnig óska eftir leyfi til göngunnar frá lögreglustjóranum á Norðurlandi vestra.
Byggðarráð fagnar framtakinu og samþykkir að veita leyfi til göngunnar fyrir sitt leyti, að öðrum leyfisveitingum uppfylltum.

5.Skjaldbreið - Umsagnarbeiðni vegna rekstrarleyfis

Málsnúmer 2306204Vakta málsnúmer

Lagður fram tölvupóstur dagsettur 20. júní 2023 frá embætti sýslumannsins á Norðurlandi vestra, þar sem óskað er umsagnar um umsókn Þóru Bjarkar Þórhallsdóttir, kt. 130878-4589, fyrir hönd Sindrandi Investment ehf., kt. 671119-0960, um leyfi til að reka gististað í flokki II að Skjaldbreið, 565 Hofsósi.
Byggðarráð samþykkir fyrir sitt leyti að rekstrarleyfið verði veitt og taki til tíu gesta að hámarki í einu.

6.Geitagerði 5 - Umsagnarbeiðni vegna rekstrarleyfis

Málsnúmer 2306213Vakta málsnúmer

Lagður fram tölvupóstur dagsettur 21. júní 2023 frá embætti sýslumannsins á Norðurlandi vestra, þar sem óskað er umsagnar um umsókn Gústafs Gústafssonar, kt. 070173-5739, fyrir hönd Hjaltadalur ferðaþjónusta ehf., kt. 480520-0250, um leyfi til að reka gististað í flokki II að Geitagerði 5, 551 Sauðárkróki.
Byggðarráð samþykkir fyrir sitt leyti að rekstrarleyfið verði veitt og taki til fjögurra gesta að hámarki í einu.

7.Þingtillögur frá 103. ársþingi UMSS

Málsnúmer 2306230Vakta málsnúmer

Tekinn fyrir tölvupóstur, dags. 22. júní 2023, þar sem UMSS óskar eftir því að tvær tillögur sem samþykktar voru á 103. ársþingi þess verði lagðar fyrir byggðarráð. Tillögurnar eru eftirfarandi:
Þingtillaga 1
103. ársþing UMSS haldið í Húsi frítímans þann 21. mars 2022, þakkar Sveitafélaginu Skagafirði veittan stuðning á liðnum árum.
Þingtillaga 7
103. ársþing UMSS haldið í Ljósheimum, Skagafirði þann 21. mars 2023, hvetur sveitarfélagið Skagafjörð til þess að hraða vinnu við framtíðarstefnumörkun íþróttamála í Skagafirði og um leið hraða uppbyggingu íþróttamannvirkja í sveitarfélaginu. Mikilvægt er að í þeirri vinnu verði leitað til allra hagsmunaaðila, núverandi staða metin og framtíðaráform þarfagreind þannig ráðast megi í framlagðar tillögur innan ákveðins tímaramma. Ársþing UMSS fagnar því að til standi að ráðast í þessa vinnu og bindur vonir við að hún styrki enn frekar það öfluga íþróttastarf sem fram fer innan héraðs.
Byggðarráð Skagafjarðar þakkar UMSS fyrir góðar kveðjur og gott samstarf á liðnum árum. Byggðarráð tekur jafnframt undir að sameiginlegri vinnu beggja aðila við framtíðarstefnumörkun íþróttamála í Skagafirði verði hraðað en búið er að skipa í starfshóp vegna upplýsingaöflunar um stöðumat þau Kolbrúnu Marviu Passaro, Thelmu Knútsdóttur og Þuríði Erlu Þórarinsdóttur frá UMSS og Þorvald Gröndal og Ragnar Helgason frá sveitarfélaginu Skagafirði.

8.Áskorun frá aðalstjórn og körfuknattleiksdeild Umf. Tindastóls

Málsnúmer 2306236Vakta málsnúmer

Teknar fyrir ályktanir sem samþykktar voru á aðalfundi aðalstjórnar Tindastóls, 21. júní 2023, og aðalfundi körfuknattleiksdeildar Tindastóls (ódags.) þar sem skorað er á sveitarfélagið Skagafjörð að bæta aðstöðu fyrir íþróttaiðkun og félagsstarf á Sauðárkróki. Núverandi aðstaða á Sauðárkróki er sprungin og mikilvægt er að farið sé í stækkun svo að allar deildir Tindastóls fái aðstöðu í takt við þarfir deildanna. Jafnframt álykta fundirnir að mikilvægt sé að útbúa félagsaðstöðu fyrir Tindastól þar sem félagsmenn og iðkendur geti komið saman og sinnt sínu félagsstarfi. Skora fundirnir á Skagafjörð að hefja vinnuna tafarlaust.
Byggðarráð Skagafjarðar ítrekar að sveitarfélagið er í vinnu með UMSS um framtíðarstefnumörkun íþróttamála í Skagafirði þar sem m.a. verður fjallað um uppbyggingu íþróttamannvirkja í sveitarfélaginu. Áhersla byggðarráðs er á að uppbygging íþróttamannvirkja til íþróttaiðkunar og kennslu grunnskólabarna verði markviss og í forgangi umfram uppbyggingu félagsaðstöðu einstakra félaga eða deilda þeirra. Sveitarfélagið veitir UMSS nú þegar rekstrarstyrk vegna kostnaðar við framkvæmdastjóra og rekstur skrifstofu en UMSS er samband íþróttafélaga í Skagafirði öllum og eru aðildarfélögin í dag 10 talsins. Skagafjörður leggur þannig áherslu á að stuðningur sveitarfélagsins jafnist yfir félög í Skagafirði.

9.Faxi 2020, lagfæring á undirstöðu

Málsnúmer 2007180Vakta málsnúmer

Málið áður tekið fyrir í umhverfis- og samgöngunefnd 27. apríl 2023 og 15. júní 2023, atvinnu-, menningar- og kynningarnefnd 23. júní 2023 og sveitarstjórn 10. maí 2023. Málinu var vísað til byggðarráðs frá atvinnu-, menningar- og kynningarnefnd með eftirfarandi bókunum:
"Meirihluti atvinnu-, menningar- og kynningarnefndar, Ragnar Helgason Sjálfstæðisflokki og Sigurður Bjarni Rafnsson Framsóknarflokki leggja fram eftirfarandi bókun.
Árið 1971 voru 100 ár frá því fyrsta íveruhús var reist á Sauðárkróki af þeim Árna klénsmið Árnasyni og Sigríði Eggertsdóttir, ásamt börnum þeirra tveimur Margréti og Hjálmari Friðriki. Í tilefni tímamótanna ákvað bæjarstjórn Sauðárkróks að reist yrði höggmynd af hesti og skyldi hún standa á Faxatorgi. Ákvað bæjarstjórnin að semja við listamanninn Ragnar Kjartansson um gerð höggmyndarinnar. Dagana 2.-4. júlí á afmælisárinu var svo haldin mikil og glæsileg hátíð á Sauðárkróki þar sem meðal annars styttan af Faxa var afhjúpuð, en það gerði Alfreðsína Friðriksdóttir sonardóttir Árna við hátíðlega athöfn. Faxi var þá jafnframt fyrsta útihöggmyndin sem sett var upp í kaupstaðnum og höfðu Sauðkrækingar á orði að Ragnari hefði tekist einkar vel til við gerð listaverksins og haft var eftir hestamönnum í bænum að það væri „líf í honum“.
Síðan þá hefur höggmyndin af Faxa verið áberandi listaverk á Sauðárkróki og sett sterkan svip á bæinn. Varðveitir hún minningu 100 ára afmælis bæjarins ásamt því að vera hestur, en hestar og hestamennska hafa um langa tíð verið tákn og einkenni Skagfirðinga, auk þess sem Sauðárkróksræktunin er landsfræg og áhrifa hennar gætir víða.
Okkur sem skipum meirihluta nefndarinnar finnst því mjög mikilvægt að höggmyndin af Faxa sem þarf mjög á viðhaldi að halda fái það. Afkomendur Ragnars Kjartanssonar hafa boðist til að sjá um og kosta lagfæringu verksins svo það verði hæft til steypu í brons og þar með varðveitt án viðhalds til langs tíma en Faxi er með mikilvægari verkum á markverðum ferli Ragnars Kjartanssonar myndhöggvara. Í ár eru 100 ár frá fæðingu Ragnars. Þá verður stöpullinn sem Faxi stendur á endurnýjaður. Samkvæmt fyrirliggjandi tilboðum og áætlun er gert ráð fyrir heildarkostnaði upp á u.þ.b. 9 milljónir króna. Meirihluti atvinnu-, menningar- og kynningarnefndar samþykkir fyrir sitt leyti að farið verði í verkið samkvæmt fyrirliggjandi gögnum og vísar því til byggðarráðs. Auk þess felur atvinnu-, menningar- og kynningarnefnd starfsmönnum nefndarinnar að undirbúa umsókn í menningarsjóð Kaupfélags Skagfirðinga og fleiri sjóði til stuðnings fjármögnun viðgerðarinnar.
Auður Björk Birgisdóttir, fulltrúi Vinstri grænna og óháðra leggur fram eftirfarandi bókun:
VG og óháð óska bókað að þrátt fyrir þá staðreynd að listaverkið Faxi sé talið ónýtt þá getum við ekki samþykkt þennan verulega kostnað sem ekki er á fjárhagsáætlun 2023 og teljum því ekki ráðlagt að ráðast í þessar framkvæmdir að svo stöddu."
Jóhanna Ey Harðardóttir fulltrúi Byggðalistans leggur fram eftirfarandi tillögu:
"Byggðaráð samþykkir að fresta afgreiðslu á Faxi 2020, lagfæring á undirstöðum til næsta árs. Ekki var gert ráð fyrir lagfæringu á undirstöðum í fjárhagsáætlun fyrir árið 2023 og teljum við því réttast að bíða með afgreiðslu málsins þar til í byrjun árs 2024 og að gert verði ráð fyrir kostnaði við lagfæringu á Faxa og undirstöðum við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2024."
Meirihluti byggðarráðs, Einar E. Einarsson B-lista og Sólborg S. Borgarsdóttir D-lista, hafna tillögunni með 2 atkvæðum en Álfhildur Leifsdóttir VG og óháðum styður hana.
VG og óháð óska bókað:
"Við getum ekki samþykkt þennan verulega kostnað sem hlýst af því að flytja Faxa til Þýskalands þar sem gerð verður brons afsteypa af honum og hinu upprunalega listaverki verður fargað. Kostnaður við þetta verkefni er ekki á fjárhagsáætlun 2023, þarf því að taka viðauka og væntanlega lán fyrir framkvæmdinni. Ekki voru kannaðar aðrar leiðir til að lagfæra Faxa, t.d. að gera við hann hér á landi og setja aftur hinn upprunalega Faxa lagfærðan á sinn stall."
Fulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, Einar E. Einarsson og Sólborg S. Borgarsdóttir óska bókað:
"Fulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks telja mikilvægt að fara í það verkefni að endurgera höggmyndina af Faxa og hafna því tillögu Byggðalista að fresta verkefninu. Árið 1971 voru 100 ár frá því fyrsta íveruhús var reist á Sauðárkróki af þeim Árna klénsmið Árnasyni og Sigríði Eggertsdóttir, ásamt börnum þeirra tveimur Margréti og Hjálmari Friðriki. Í tilefni tímamótanna ákvað bæjarstjórn Sauðárkróks að reist yrði höggmynd af hesti og skyldi hún standa á Faxatorgi. Ákvað bæjarstjórnin að semja við listamanninn Ragnar Kjartansson um gerð höggmyndarinnar. Dagana 2.-4. júlí á afmælisárinu var svo haldin mikil og glæsileg hátíð á Sauðárkróki þar sem meðal annars styttan af Faxa var afhjúpuð, en það gerði Alfreðsína Friðriksdóttir sonardóttir Árna við hátíðlega athöfn. Faxi var þá jafnframt fyrsta útihöggmyndin sem sett var upp í kaupstaðnum og höfðu Sauðkrækingar á orði að Ragnari hefði tekist einkar vel til við gerð listaverksins og haft var eftir hestamönnum í bænum að það væri „líf í honum“.
Síðan þá hefur höggmyndin af Faxa verið áberandi listaverk á Sauðárkróki og sett sterkan svip á bæinn. Varðveitir hún minningu 100 ára afmælis bæjarins ásamt því að vera hestur, en hestar og hestamennska hafa um langa tíð verið tákn og einkenni Skagfirðinga, auk þess sem Sauðárkróksræktunin er landsfræg og áhrifa hennar gætir víða.
Okkur finnst því mjög mikilvægt að höggmyndin af Faxa sem þarf mjög á viðhaldi að halda fái það. Afkomendur Ragnars Kjartanssonar hafa boðist til að sjá um og kosta lagfæringu verksins svo það verði hæft til steypu í brons og þar með varðveitt án viðhalds til langs tíma en Faxi er með mikilvægari verkum á markverðum ferli Ragnars Kjartanssonar myndhöggvara. Í ár eru 100 ár frá fæðingu Ragnars. Þá verður stöpullinn sem Faxi stendur á endurnýjaður. Samkvæmt fyrirliggjandi tilboðum og áætlun er gert ráð fyrir heildarkostnaði upp á u.þ.b. 9 milljónir króna."
Meirihluti byggðarráðs, Einar E. Einarsson Framsóknarflokki og Sólborg S. Borgarsdóttir Sjálfstæðisflokki samþykkja með 2 atkvæðum að fara í verkefnið og vísar málinu til gerðar viðauka. Álfhildur Leifsdóttir Vg og óháðum situr hjá við afgreiðslu málsins.

10.Gjaldskrá 2024 - Byggðasafn Skagfirðinga

Málsnúmer 2306188Vakta málsnúmer

Málinu áður tekið fyrir á 12. fundi atvinnu-, menningar- og kynningarnefndar 23. júní 2023 þar sem nefndin samþykkti fyrirlagða gjaldskrá Byggðasafns Skagfirðinga fyrir árið 2024 og vísaði til byggðarráðs.
Byggðarráð samþykkir gjaldskrána fyrir sitt leyti og vísar henni til sveitarstjórnar.

11.Laun kjörinna fulltrúa og sveitarstjóra

Málsnúmer 2306227Vakta málsnúmer

Laun kjörinna fulltrúa og nefndarmanna Skagafjarðar miðast við ákveðið hlutfall af þingfararkaupi. Nýverið var lögum breytt þannig að laun þjóðkjörinna fulltrúa og æðstu embættismanna ríkisins hækki um 2,5% í stað 6% þann 1. júlí nk. til að tryggja að laun þeirra skapi ekki aukinn verðbólguþrýsting. Laun kjörinna fulltrúa og nefndarmanna Skagafjarðar hækka því um 2,5% þann 1. júlí nk.
Jafnframt hefur sveitarstjóri Skagafjarðar óskað eftir því að laun hans taki einnig mið af 2,5% hækkuninni í stað hærri prósentuhækkunar vegna tengingar í ráðningarsamningi við kjarasamningsbundnar hækkanir á opinberum vinnumarkaði.

12.Fundur með Icelandair - Tækifæri í flugi milli Akureyrar og Keflavíkur

Málsnúmer 2306238Vakta málsnúmer

Lagður fram til kynningar tölvupóstur frá Markaðsstofu Norðurlands, dags. 23. júní 2023, þar sem vakin er athygli á fundi sem Markaðsstofan og Icelandair halda um alþjóðatengingu Icelandair frá Akureyrarflugvelli. Fundurinn fer fram á Hótel Kea á Akureyri föstudaginn 30. júní kl. 9:30. Fulltrúum samstarfsfyrirtækja, sveitarstjórnarfulltrúum og fólki sem tengist ferðaþjónustu er boðið á fundinn og markmiðið er að ræða þau tækifæri sem felast í flugi milli Akureyrar og Keflavíkur. Fulltrúar Icelandair munu halda stutta kynningu og að henni lokinni verður opnað á umræður.

Fundi slitið - kl. 15:30.