Fara í efni

Byggðarráð Skagafjarðar

32. fundur 25. janúar 2023 kl. 14:00 - 14:58 að Sæmundargötu 7a
Nefndarmenn
  • Einar Eðvald Einarsson formaður
  • Sólborg Sigurrós Borgarsdóttir varaform.
  • Álfhildur Leifsdóttir aðalm.
  • Jóhanna Ey Harðardóttir áheyrnarftr.
Starfsmenn
  • Friðrik Margeir Friðriksson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
  • Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri
Fundargerð ritaði: Margeir Friðriksson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
Dagskrá

1.Snjómokstursmál

Málsnúmer 2301200Vakta málsnúmer

Umræða um snjómokstur og verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga.

2.Samningur við Björgunarsveitina Skagfirðingasveit

Málsnúmer 2206288Vakta málsnúmer

Lögð fram drög að þjónustusamningi milli Skagfirðingasveitar, björgunarsveitar og Skagafjarðar fyrir árin 2023 og 2024.
Byggðarráð samþykkir að fela sveitarstjóra að ræða við forsvarsmenn Skagfirðingasveitar um breytingar á samningsdrögunum í samræmi við umræður á fundinum.
Jóhanna Ey Harðardóttir vék af fundi við afgreiðslu þessa dagskrárliðar.

3.Gjaldskrá Dagdvalar aldraðra 2023

Málsnúmer 2301143Vakta málsnúmer

Lögð fram gjaldskrá dagdvalar aldraðra sem vísað var frá 8. fundi félagsmála- og tómstundanefndar þann 19. janúar 2023.
Byggðarráð samþykkir gjaldskrána og vísar henni til afgreiðslu sveitarstjórnar.

4.Samráð; Áform um lagasetningu - Breyting á lögum um stjórn fiskveiða og um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands (veiðistjórn grásleppu)

Málsnúmer 2301077Vakta málsnúmer

Lagður fram tölvupóstur dagsettur 6. janúar 2023 þar sem matvælaráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 3/2023, "Áform um lagasetningu - Breyting á lögum um stjórn fiskveiða og um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands (veiðistjórn grásleppu)". Umsagnarfrestur er til og með 02.02.2023.
Lögð fram umsögn Drangeyjar smábátafélags sem samþykkt var á félagsfundi 22. janúar 2023.
Meirihluti byggðarráðs tekur undir umsögn Drangeyjar þar sem segir í niðurlagi afstöðu félagsins: "Vitað er að meirhluti þeirra sjómanna sem stundað hafa grásleppuveiðar á
Skagafirði um alllangt skeið eru nú hlynntir kvótasetningu enda liggi ljóst fyrir á hvaða
forsendum það verði gert og hvernig hún verði útfærð. Slíku er að áliti þeirra ekki til að dreifa
í fyrirliggjandi drögum að frumvarpi."

Álfhildur Leifsdóttir óskar bókað:
Fulltrúi VG og óháðra tekur undir mikilvægi þess að svæðaskipta veiðum á grásleppu. Þær rannsóknir og sú þekking sem aflað hefur verið undanfarin ár hafa undirstrikað mikilvægi þess að taka upp svæðaskipta veiðistjórn á hrognkelsum til að tryggja sjálfbæra nýtingu stofna, en einnig tryggja hagsmuni viðkomandi byggðarlaga og fjölskyldna sem byggja lífsviðurværi sitt á grásleppuveiðum. Með því að beita svæðaskiptingu og sóknarstýringu eftir stöðu veiðistofna hrognkelsa innan svæða og hagnýta betur þá nýju þekkingu sem aflað hefur verið, verður best stuðlað að farsælli nýtingu og verndun þeirra.
Fulltrúi VG og óháðra lýsir yfir áhyggjum sínum yfir hugmyndum um kvótasetningu grásleppu vegna hættu á samþjöppun veiðiheimilda og neikvæðra byggðaáhrifa. Margvíslegar áskoranir fylgja mögulegri kvótasetningu hrognkelsaveiða sem ekki verður séð á þessari stundu hvernig verða leystar með fullnægjandi hætti.

5.Samráð; Bráðabirgðaniðurstöður starfshópa - Auðlindin okkar - stefna um sjávarútveg

Málsnúmer 2301171Vakta málsnúmer

Lagður fram tölvupóstur dagsettur 17. janúar 2023 þar sem matvælaráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 7/2023, "Bráðabirgðaniðurstöður starfshópa - Auðlindin okkar - stefna um sjávarútveg". Umsagnarfrestur er til og með 28.02.2023.

6.Samráð; Drög að frumvarpi til laga um Land og skóg

Málsnúmer 2301180Vakta málsnúmer

Lagður fram tölvupóstur dagsettur 18. janúar 2023 þar sem matvælaráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 8/2023, "Drög að frumvarpi til laga um Land og skóg". Umsagnarfrestur er til og með 01.02.2023.
Byggðarráð tekur jákvætt í fyrirhugaða sameiningu og samþykkir eftirfarandi umsögn:
Við sameiningu Landgræðslu og Skógræktar í eina stofnun má benda á tækifæri sem felast í uppbyggingu rannsókna og ráðgjafar í Skagafirði á sviðum nýrrar stofnunar. Fellur það vel að stefnu ríkisstjórnarinnar um að aukin skógrækt og landgræðsla eigi að leika veigamikið hlutverk í aðgerðum til að auka kolefnisbindingu hér á landi á næstu árum og áratugum. Báðar stofnanir hafa nú í dag starfstöðvar í Skagafirði.
Flest stöðugildi á vegum ríkisins eru staðsett á höfuðborgarsvæðinu, enda er meirihluti landsmanna búsettur þar. Hins vegar er hlutfall stöðugilda á höfuðborgarsvæðinu (72%) hærra en hlutfall landsmanna sem þar býr (64%). Þetta á ekki við um neinn annan landshluta. Íbúaþróun hefur verið óhagfelldust yfir landið undanfarin ár á Norðurlandi vestra og Vestfjörðum. Í ljósi framangreinds má sjá að bæði fagleg og byggðarleg sjónarmið mæla mjög með því að við sameiningu Landgræðslu og Skógræktar í eina stofnun verði horft til tækifæra sem þá gætu skapast við eflingu starfsemi stofnunarinnar í Skagafirði.

Fundi slitið - kl. 14:58.