Fara í efni

Byggðarráð Skagafjarðar

8. fundur 10. ágúst 2022 kl. 14:00 - 14:53 að Sæmundargötu 7a
Nefndarmenn
 • Einar Eðvald Einarsson formaður
 • Gísli Sigurðsson varaform.
 • Álfhildur Leifsdóttir aðalm.
 • Jóhanna Ey Harðardóttir áheyrnarftr.
Starfsmenn
 • Friðrik Margeir Friðriksson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
 • Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri
Fundargerð ritaði: Margeir Friðriksson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
Dagskrá
Á 2. fundi sveitarstjórnar Skagafjarðar þann 27. júní 2022, var samþykkt að veita byggðarráði heimild til fullnaðarafgreiðslu mála í sumarleyfi sveitarstjórnar samkvæmt III. kafla 8. gr. samþykktar sveitarfélagsins.
Sumarleyfið hefst 28. júní 2022 og lýkur 16. ágúst 2022.

1.Umhverfis- og samgöngunefnd - 3

Málsnúmer 2207015FVakta málsnúmer

Fundargerð 3. fundar umhverfis- og samgöngunefndar frá 5. ágúst 2022 lögð fram til afgreiðslu á 8. fundi byggðarráðs eins og einstök erindi bera með sér.
 • Umhverfis- og samgöngunefnd - 3 Málið var áður á dagskrá nefndarinnar 20.7.2022. Lokaútgáfa verklýsingar er lögð fyrir nefndina til afgreiðslu.

  Nefndin fór yfir verk- og útboðslýsingu og samþykkir að setja verkið í útboð.
  Auglýst verður í helgarblöðum Morgunblaðsins og Fréttablaðsins, evrópska efnahagssvæðinu, heimasíðu sveitarfélagsins og á vefnum utbodsvefur.is. Gert er ráð fyrir að tilboð í verkið verði opnuð 30.09.2022 og samningur um verkið taki gildi 01.04.2023.

  Hrefna Jóhannesdóttir sat fundinn í fjarfundarbúnaði.
  Gunnar Svavarsson umhverfis- og byggingarverkfæðingur hjá Eflu sat þennan lið.
  Bókun fundar Málinu vísað til dagskrárliðar nr. 9, Sorphreinsun í Skagafirði - útboð 2021 - Efla - 2011092.
  Samþykkt samhljóða.

2.HÓL - leikskóli Tröllaborg, endurgerð lóðar 2022

Málsnúmer 2202035Vakta málsnúmer

Lögð fram fundargerð frá 28. júlí 2022 vegna opnunar tilboða í tilboðsverkið "Leikskólinn Tröllaborg Hólar í Hjaltadal, útboð - frágangur lóðar". Engar athugasemdir bárust fyrir opnun tilboða. Fornverk ehf. lagði fram eitt tilboð í verkið að fjárhæð 40.779.030, 108,4% af áætluðu kostnaðarverði og annað frávikstilboð að fjárhæð 35.071.930 kr., 93,3% af áætluðu kostnaðarverði. Önnur tilboð bárust ekki en 11 aðilum var gefinn kostur á að bjóða í verkið. Engar athugasemdir komu eftir opnun tilboða. Steinn Leó Sveinsson sviðsstjóri veitu- og framkvæmdasviðs sat fundinn undir þessum dagskrárlið.
Byggðarráð samþykkir að frávikstilboði Fornverks ehf. verði tekið.

3.Alexandersflugvöllur - varaflugvöllur

Málsnúmer 2208042Vakta málsnúmer

Vegna umræðu undanfarinna daga um þörf fyrir nýjan varaflugvöll, sem sprottið hefur upp vegna mögulegs jarðhræringatímabils sem hafið er á Reykjanesskaga og varað getur í langan tíma, bendir byggðarráð Skagafjarðar á augljósan kost í þeim efnum.
Alexandersflugvöllur við Sauðárkrók er vel staðsettur og aðflug þar gott, enda fjörðurinn víður og lítið um hindranir. Flugvöllurinn vísar í norður/suður sem eru einnig ríkjandi vindáttir á svæðinu. Þá er staðsetning vallarins hagstæð með tilliti til snjóa. Skagafjörður er jafnframt utan virks eldsumbrotabeltis og stafar ekki ógn að vellinum af þeim sökum.
Í gögnum frá Vegagerðinni frá árinu 2019 kemur fram að þjóðvegurinn frá Sauðárkróki til Reykjavíkur hafi aðeins verið lokaður í 0,7 daga á ári frá árinu 2011 en á sama tíma hafi þjóðvegurinn frá Egilsstöðum til Reykjavíkur lokast í 2,5 daga á ári á syðri leiðinni en 9,7 daga ef norðurleið var farin. Einnig er vakin athygli á því að frá Sauðárkróki til Reykjavíkur og til Akureyrar sem og til Egilsstaða eru fleiri en ein leið og því er möguleiki á varaleið ef þjóðvegur 1 lokast.
Vegalengdir milli þessara valla eru nokkrar. Milli Akureyrar og Reykjavíkur eru um 390 km, milli Reykjavíkur og Egilsstaða um 650 km og milli Akureyrar og Egilsstaða um 265 km. Milli Sauðárkróks og Akureyrar er vegalengdin aðeins um 120 km. Milli Sauðárkróks og Reykjavíkur eru í kringum 295 km. Því er ljóst að staðsetning vallarins er góð sé litið til færðar og samgangna á landi, enda helmingi styttra úr Skagafirðinum til Reykjavíkur en frá Egilsstöðum.
Verulegur ávinningur er fólginn í því að byggja Alexandersflugvöll upp sem varaflugvöll fyrir Reykjavík og Keflavík. Þá er augljóst að slíkur flugvöllur mun þjóna Akureyri og Egilsstöðum vel sem varaflugvöllur og tryggja og treysta þá mikilvægu starfsemi sem þar er rekin í sambandi við ferðaþjónustu og flug almennt. Í því sambandi má benda á að í samgönguáætlun Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra kemur eftirfarandi m.a. fram um forgangsröðum í málefnum flugvalla: „Að hugað verði að því að Alexandersflugvöllur verði varaflugvöllur fyrir millilandaflug á Akureyrarflugvöll.“ Styður tillagan þannig við þá brýnu hagsmuni Norðurlands að öruggt millilandaflug til og frá landshlutanum getið orðið árið um kring, enda þjóni Alexandersflugvöllur þá Akureyrarflugvelli geti þotur ekki lent á þeim velli.
Byggðarráð Skagafjarðar skorar á Alþingi og innviðaráðherra að ráðast í nauðsynlega undirbúningsvinnu og rannsóknir til að hægt sé að vinna að áframhaldandi framgangi málsins.

4.Verkefnaráð Blöndulínu 3

Málsnúmer 2208041Vakta málsnúmer

Lagður fram tölvupóstur dagsettur 11. júlí 2022 frá Landsneti varðandi skipan nýrra fulltrúa í verkefnaráð Blöndulínu 3 eftir nýliðnar sveitarstjórnarkosningar.
Byggðarráð samþykkir að fulltrúar sveitarfélagsins í verkefnaráðinu verði Sigríður Magnúsdóttir formaður skipulagsnefndar og Eyþór Fannar Sveinsson nefndarmaður í skipulagsnefnd. Til vara verði Jón Daníel Jónsson og Álfhildur Leifsdóttir nefndarmenn í skipulagsnefnd.

5.Gilsbakkavegur

Málsnúmer 2208039Vakta málsnúmer

Lagður fram tölvupóstur dagsettur 4. ágúst 2022 frá Agnari H. Gunnarssyni varðandi svokallaðan Gilsbakkaveg og liggur frá Stekkjarflötum fram að Gilsbakka, en vegurinn þarfnast lagfæringar. Akrahreppur fékk á árum áður greidda eingreiðslu frá Vegagerðinni til viðhalds þessum vegarspotta. Steinn Leó Sveinsson sviðsstjóri veitu- og framkvæmdasviðs sat fundinn undir þessum dagsskrárlið.
Byggðarráð samþykkir að fela sviðsstjóra veitu- og framkvæmdasviðs að láta gera nauðsynlegar lagfæringar á veginum sem greiddar verða úr "Gilsbakkasjóði". Jafnframt er umhverfis- og samgöngunefnd falið að leggja fram áætlun um viðhald og endurbætur á vegslóðanum fram að Merkigili um Merkigil.

6.Lóð 52 á Nöfum - Lóðarmál

Málsnúmer 2204182Vakta málsnúmer

Lagt fram samkomulag á milli sveitarfélagsins og Ragnheiðar Erlendsdóttur um innlausn ræktunarlands, sem er 16.925 fermetra lóð, nr. 52 (landnúmer 143937) á Nöfum. Í samkomulaginu kemur m.a. þetta fram: Lóðarleigunni hefur ekki verið sagt upp. Aðilarnir eru engu að síður sammála um að ákvæði samningsins sem fjalla um skyldu sveitarfélagsins til þess að kaupa upp ræktun og mannvirki, komi til uppsagnar, skuli höfð til hliðsjónar eftir því sem aðstæður eru til; Fengnir voru úttektarmenn til þess að meta ræktun og mannvirki (fjárhús, girðingar og rétt) á lóðinni að teknu tilliti til ætlaðra fyrninga. Matsskýrsla dags. 19.05. 2022 liggur fyrir. Vegna hins skamma fyrirvara sem er á innlausninni og þeirra brýnu þarfa sem sveitarfélaginu telur sér nauðsyn á að mæta fyrir fyllingarefni í húsgrunna og til gatnagerðar í sveitarfélaginu er það tilbúið að greiða hærri bætur en ella hefði verið. Hafa aðilarnir sæst á að lóðarhafa verði greiddar 2,4 mkr. í bætur fyrir að víkja af lóðinni fyrirvaralaust og fyrir framangreindar eignir.
Steinn Leó Sveinsson sviðsstjóri veitu- og framkvæmdasviðs sat fundinn undir þessum dagskrárlið.
Byggðarráð samþykkir samkomulagið.

7.Samráð; Vegvísir að vistvænni mannvirkjagerð 2030

Málsnúmer 2207020Vakta málsnúmer

Lagður fram tölvupóstur dagsettur 4. júlí 2022 þar sem innviðaráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 112/2022, "Vegvísir að vistvænni mannvirkjagerð 2030". Umsagnarfrestur er til og með 31. ágúst 2022.
Byggðarráð Skagafjarðar telur að mikilvægt sé að stuðla að vistvænni mannvirkjagerð með það í huga að draga úr kolefnislosun frá íslenskum byggingariðnaði. Þó ber að hafa í huga að þær aðgerðir sem gripið verði til í þeim tilgangi rýri ekki gæði mannvirkja, stytti líftíma þeirra eða valdi auknum og ófyrirsjáanlegum kostnaði sem mögulega hlýst af slíkum aðgerðum með tilheyrandi hækkun á byggingarkostnaði. Það er allra hagur að líftími bygginga sé sem lengstur og mannvirki þannig úr garði gerð að viðhaldskostnaður verði sem minnstur með það að markmiði að draga úr kolefnislosun frá íslenskum byggingariðnaði.

8.Aðalfundur Landssamtaka landeigenda á Íslandi

Málsnúmer 2207182Vakta málsnúmer

Lagður fram til kynningar tölvupóstur dagsettur 28. júlí 2022 frá Landssamtökum landeigenda á Íslandi þar sem tíunduð eru ýmis fumvörp og þingályktunartillögur á Alþingi, sem samtökin hafa gefið umsagnir um, nokkur undangengin misseri.

9.Sorphreinsun í Skagafirði - útboð 2022 - Efla

Málsnúmer 2011092Vakta málsnúmer

Málið áður tekið fyrir á 3. fundi umhverfis- og samgöngunefndar dags 5. ágúst 2022 þannig bókað:
"Málið var áður á dagskrá nefndarinnar 20.7.2022. Lokaútgáfa verklýsingar er lögð fyrir nefndina til afgreiðslu.
Nefndin fór yfir verk- og útboðslýsingu og samþykkir að setja verkið í útboð.
Auglýst verður í helgarblöðum Morgunblaðsins og Fréttablaðsins, evrópska efnahagssvæðinu, heimasíðu sveitarfélagsins og á vefnum utbodsvefur.is. Gert er ráð fyrir að tilboð í verkið verði opnuð 30.09.2022 og samningur um verkið taki gildi 01.04.2023."
Steinn Leó Sveinsson sviðsstjóri veitu- og framkvæmdasviðs sat fundinn undir þessum dagskrárlið.
Erindið borið upp til afgreiðslu og samþykkt með þremur atkvæðum.

Fundi slitið - kl. 14:53.