Fara í efni

Vinnslutillögur fyrir breytingar á Aðalskipulagi Skagafjarðar 2020-2035

27.06.2024

Sveitarstjórn Skagafjarðar samþykkti á 28. fundi sínum þann 19. júní 2024 að auglýsa eftirtaldar vinnslutillögur fyrir breytingar á Aðalskipulagi Sveitarfélagsins Skagafjarðar 2020- 2035 í samræmi við 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Vinnslutillögurnar eru settar fram í greinargerðum dags. júní 2024 unnar af VSÓ ráðgjöf.

Hofsstaðir (málsnúmer 811/2024 í Skipulagsgátt)

Landeigendur á Hofsstöðum óska eftir breytingu á aðalskipulagi í samræmi við uppbyggingaráform á ferðaþjónustu á Hofsstöðum.
Á Hofsstöðum hefur verið rekin veitinga- og gistiþjónusta á tveimur lóðum innan jarðarinnar, Hofsstaðir lóð 1 og Hofsstaðir lóð 2 frá árinu 2010. Staðarval uppbyggingar var valið með tilliti til landslags, ásýndar og útsýnis. Einnig var horft til þess að velja svæði sem ekki nýttist í landbúnað. Aðalskipulagsbreytingin tekur mið af deiliskipulagi sem er í vinnslu.
Framtíðar uppbygging gerir ráð fyrir stækkun beggja lóða, fjölgun gistirýma og stækkun veitingasölu. Mannvirki skulu falla vel að núverandi byggingum og umhverfi. Aðkomuvegur er frá Siglufjarðarvegi nr. 76. Ekki er þörf á nýjum aðkomuvegi.

Brautarholt-Mýri og Efra-Haganes I (málsnúmer 812/2024 í Skipulagsgátt)

Breytingin felur í sér skilgreiningu á nýjum verslunar og þjónustusvæðum við Efra-Haganes I (lóð 3) L219260 og Brautarholts-Mýri L146801 í Haganesvík þar sem áform eru um ferðaþjónustu. Lóðarhafar lóðanna við Efra-Haganes I (lóð 3) og Brautarholts-Mýri í Haganesvík óska eftir breytingu á Aðalskipulagi sveitarfélags Skagafjarðar 2020-2035.
Efra-Haganes I (lóð 3) stendur við sjóinn á Haganesi, gamla verslunarhúsið í Haganesvík í Fljótum. Húsnæðinu hefur verið breytt í hljóðupptökuver.
Brautarholt-Mýri er sumarhúsalóð í landi Brautarholts í Haganesvík í Fljótum. Á lóðinni stendur gamall sumarbústaður en til stendur að byggja nýtt hús, 8 herbergja gistihús á tveimur hæðum. Hús í næsta nágrenni eru í 60-120 m fjarlægð frá fyrirhuguðum byggingarreit. Nýbygging mun ekki skerða útsýni nágrannahúsa. Áætlað er að reka gistiþjónustu og hljóðupptökuver á þessum stöðum.

Gýgjarhóll, Gýgjarhóll 1 og Gýgjarhóll 2 (málsnúmer 813/2024 í Skipulagsgátt)

Breytingin felur í sér að skilgreina þrjú ný verslunar- og þjónustusvæði og nýtt skógræktarsvæði. Landnotkun sem breytingin nær til er skilgreind sem landbúnaðarland í núverandi aðalskipulagi.
Jörðinni Gýgjarhóll hefur verið skipt upp í nokkrar landspildur. Áform núverandi landeigenda Gýgjarhóls (L145974), Gýgjarhóls 1 (L233888) og Gýgjarhóls 2 (L233889) er að byggja upp ferðaþjónustu á löndum sínu og stunda skógræktar fyrir ofan 90 m hæð yfir sjávarmáli.
Breytingin felur í sér breytta landnotkun landbúnaðarsvæðis.

Veitur á Sauðárkróki (málsnúmer 814/2024 í Skipulagsgátt)
Í tengslum við nýja staðsetningu á fiskeldi og fiskalíffræðideild Háskólans á Hólum á Sauðárkróki er gert ráð fyrir að nýta sjóveitu til vatnsöflunar fyrir fiskeldi háskólans.
Staðsetning sjóveitu er áætluð við ströndina skammt vestan við vegamót Sauðárkróksbrautar og Strandvegar. Ekki liggur fyrir endanleg hönnun á umfangi sjóveitu og lengd sjóveitulagnar.
Breytingin felur í sér breytingu á landnotkunarfláka AT-403 og nýjum landnotkunarfláka VH-401 og breytingu á lögun fyrir efnistöku- og efnislosunarsvæði E-401. Stærð aðliggjandi svæða breytist til samræmis.
Breyting tekur til uppdráttar og töflu 4.4 í kafla 4.6 og viðbótar við kafla 4.17 þar sem bætt verður við nýrri töflu 4.16 í kafla 4.17.3 Veitur og helgunarsvæði (VH).

Íbúðarbyggð ÍB-404 (málsnúmer 815/2024 í Skipulagsgátt)
Í gildandi aðalskipulagi er gert ráð fyrir að þróun íbúðarbyggðar ÍB-404 stuðli að samfelldri byggð og hagkvæmri nýtingu innviða með því að byggja upp nærri núverandi götum, veitukerfum og þjónustustofnunum. Breytingin felur í sér að fjöldi nýrra íbúða innan ÍB-404 fjölgar um 10 og verður eftir breytingu 20 íbúðir. Heildarfjöldi íbúða verður 280 eftir breytingu.
Deiliskipulag er í vinnslu fyrir hluta af ÍB-404, Víðigrund og hluta Smáragrundar. Með breytingunni hækkar þéttleiki á svæði ÍB-404 um 0,5 íb/ha og þéttleiki á íbúðarsvæði á Sauðárkróki (tafla 4.1) hækkar um 0,1 íb/ha. Ekki er gerð breyting á uppdrætti aðalskipulagsins.

Hafnarsvæði, Sauðárkrókshöfn (málsnúmer 816/2024 í Skipulagsgátt)

Breytingin felur í sér aukið byggingarmagn innan hafnarsvæðis Sauðárkrókshafnar í samræmi við gildandi deiliskipulag dags. 20.4.2022.

Aðalskipulagi Sveitarfélagsins Skagafjarðar 2020-2035, kafla 4.9, er sett fram stefna um höfnina á Sauðárkróki. Þar kemur meðal annars fram í markmiðum fyrir hafnarsvæðið að "Fyrirtæki á hafnarsvæðinu í fiskvinnslu, flutninga- og ferðaþjónustu hafi möguleika til að vaxa og dafna, að höfnin sé ákjósanlegur möguleiki fyrir flutningaskip og tengingu við gamla bæinn sé góð."
Með auknu byggingarmagni innan hafnarsvæðisins er veitt það svigrúm sem þarf til stækkunar og eflingu á hafnarsvæðinu.

Efnistöku- og efnislosunarsvæði E-401 á Sauðárkróki (málsnúmer 817/2024 í Skipulagsgátt)

Breytingin felur í sér breytta lögun fyrir efnistöku- og efnislosunarsvæði E-401. Stærð aðliggjandi svæða breytist til samræmis. Breyting tekur til uppdráttar og töflu 4.13 í kafla 4.14. - Breyting á þéttbýlisuppdrætti Sauðárkróks er sett fram aftast í greinargerð.
Ekki er gerð breyting á stefnu aðalskipulags að öðru leyti.
Efnistöku- og efnislosunarsvæðið E-401 verður skipt upp í þrjú svæði. Hluti svæðisins sem í dag er ekki lengur nýtt sem efnistöku- og efnislosunarsvæðið verðu skilgreint sem opið svæði OP-405. Svæðið verður frágengið og grætt upp. Þar myndast tenging opinna svæða milli Nafa, íþróttasvæði mótorcross-íþrótta og Gönguskarðsár. Vestasti hluti efnistöku- og efnislosunarsvæðisins fær nýtt landnotkunarnúmer E-404, það svæði verður eingöngu notað sem efnismóttaka og efnisgeymsla. Það svæði sem eftir er (E-401) breytist lítilega í lögun og verður áfram notað sem efnistökusvæði.

Athafnarsvæði Stóru-Brekku (málsnúmer 818/2024 í Skipulagsgátt)

Breytingin felur í sér að bæta við athafnasvæði á jörðinni Stóru-Brekku í Fljótum.
Á Stóru-Brekku er stuðningsþjónusta við ferðaþjónustustarfsemi í Fljótum. Þar verða geymslur, verkstæði og þjónusta við tæki og bifreiðar. Einnig breytist tafla 14.5 í kafla 14.5. Ekki er gerð breyting á stefnu aðalskipulags að öðru leyti.
Á jörðinni er verkstæði og véla- og verkfærageymsla, aðrar byggingar skráðar íbúðarhús.

 

Vinnslutillögurnar eru auglýstar frá 26. júní til og með 14. ágúst 2024. Hægt er að skoða vinnslutillögurnar í Skipulagsgátt Skipulagsstofnunar á www.skipulagsgatt.is undir viðeigandi málsnúmerum. Vinnslutillögurnar munu jafnframt liggja frammi til kynningar í Ráðhúsinu, Skagfirðingabraut 17-21, Sauðárkróki á skrifstofutíma frá kl. 10-12 og kl. 12:30-15. Einnig er hægt að nálgast gögnin hér á heimasíðu Skagafjarðar.

Þau sem telja sig eiga hagsmuna að gæta er gefinn kostur á að koma á framfæri ábendingum varðandi vinnslutillögurnar. Umsagnir skulu vera skriflegar og berast í gegnum Skipulagsgáttina www.skipulagsgatt.is í síðasta lagi 14. ágúst 2024. Einnig er hægt að skila inn umsögnum til skipulagsfulltrúa í afgreiðslu Ráðhússins, Skagfirðingabraut 17-21, 550 Sauðárkróki eða á netfangið skipulagsfulltrui@skagafjordur.is.

Umsagnir um skipulagsmál sveitarfélagsins teljast til opinberra gagna. Vakin er athygli á því að nöfn og umsagnir koma fram í fundargerðum Skipulagsnefndar og eru aðgengileg opinberlega á Skipulagsgáttinni. Persónuupplýsingar eru aðeins nýttar í þeim tilgangi að vinna úr athugasemdum og auðkenna sendanda.

Skipulagsfulltrúi Skagafjarðar