Vinabæjamót í Skagafirði

Vinabæjarmót í Húsi frítímans
Vinabæjarmót í Húsi frítímans

Í dag hófst vinabæjamót í Skagafirði en um 30 manns frá hinum Norðurlöndunum komu í fjörðinn í gærkvöldi. Vinabæirnir eru Espoo í Finnlandi,  Køge í Danmörku, Kristianstad í Svíþjóð og Kongsberg í Noregi. Mótið stendur til 2. júní.

Mótið hófst í morgun í Húsi frítímans þar sem Sigríður Svavarsdóttir forseti sveitarstjórnar bauð gesti velkomna. Síðan voru flutt erindi um nýsköpun í menntun og ungmennaráð og umræður á eftir milli þeirra þjóða sem eru virkir þátttakendur í samstarfinu. Eftir hádegisverð á Kaffi Krók verður farið til Hóla þar sem gestirnir verða fram eftir degi. Kvöldverður verður í  Drangey restaurant í heimavist FNV.

Miðvikudaginn 1. júní funda bæjarstjórarnir í Árskóla kl 9 og í kjölfarið verður blaðamannafundur. Þaðan verður haldið í Verið þar sem flutt verða m.a. erindi um móttöku flóttamanna/innflytjenda og mun sérfræðingur í málefnum innflytjenda hjá Velferðarráðuneytinu mæta. Eftir hádegið verður haldið að Reykjum á Reykjaströnd þar sem gestum býðst að sigla í Drangey og fara í Grettislaug. Um kvöldið verður hátíðarkvöldverður í Frímúrarasalnum.

Nokkrir makar eru með í för og er ýmislegt í boði fyrir þá meðan bæjar- og sveitarstjórnarmenn funda. Í morgun skoðuðu þeir gamla bæinn í Glaumbæ og fóru á skotsvæði Ósmanns. Á morgun fara þeir til Hofsóss og skoða sig um þar og fara í sund.

Gestirnir fljúga aftur heim á fimmtudagsmorguninn.