Við lok annarrar vinnuviku í samkomubanni

Sigfús Ingi Sigfússon sveitastjóri
Sigfús Ingi Sigfússon sveitastjóri

Þrátt fyrir miklar raskanir á daglegu lífi flestra íbúa Skagafjarðar í kjölfar samkomubanns, sem nú hefur staðið yfir í 12 daga, þá gengur starfsemi flestra stofnana og fyrirtækja nokkuð vel fyrir sig hér á svæðinu.

Frá upphafi þjónustuskerðingarinnar sem hlaust af samkomubanni hefur verið leitast við að gera unga fólkinu okkar eins auðvelt og kostur er að stunda nám og eiga í sem eðlilegustum samskiptum við kennara, aðra starfsmenn og vini, með þeim skorðum sem settar eru af hálfu sóttvarnaryfirvalda. Allir leggja sig fram um að vinna eins vel og unnt er úr þessum aðstæðum og það er til mikillar fyrirmyndar hversu vel það hefur gengið.

Hið sama má segja um aðrar raskanir sem orðið hafa, m.a. hvað varðar lokanir íþróttamannvirkja, breytingar á þjónustu við aldraða, hjá skjólstæðingum félagsþjónustunnar o.fl. Fólk sýnir breyttum aðstæðum mikinn skilning og tekur ástandinu af æðruleysi og það er þakkarvert.

Innan sveitarfélagsins hafa viðbragðsáætlanir verið uppfærðar og gerðar áætlanir um órofinn rekstur. Það hefur í för með sér að starfsemi margra eininga hefur verið brotin upp þannig að starfsmenn vinna ýmist alveg aðskildir eða í litlum teymum. Komum viðskiptavina á starfsstöðvar hafa einnig verið settar miklar skorður. Þetta er gert til að draga úr smithættu en einnig til að tryggja að starfsemi sveitarfélagsins haldist sem mest óröskuð þrátt fyrir að smit komi upp.

Viðbragðsteymi sveitarfélagsins, sem í sitja sveitarstjóri, sviðsstjórar og aðrir helstu stjórnendur miðlægrar stjórnsýslu, hefur fundað nær daglega sl. þrjár vikur og brugðist hratt og vel við þeim aðstæðum sem upp hafa komið hverju sinni í samvinnu við stjórnendur stofnana. Jafnframt hefur verið gripið til ýmissa fyrirbyggjandi aðgerða sem fyrr segir.

Byggðarráð og sveitarstjórn fylgjast einnig náið með stöðu mála og hafa tekið upp reglubundna upplýsingafundi. Þá hélt sveitarstjórn fyrsta fjarfund í sögu Sveitarfélagsins Skagafjarðar í gær þar sem heimilaðir voru fjarfundir sveitarstjórnar og nefnda sveitarfélagsins til 18. júlí nk., nema sveitarstjórn ákveði að afnema þá heimild fyrr. Á fundinum voru jafnframt teknar ákvarðanir um að vegna þeirra raskana sem orðið hafa á þjónustu stofnana sveitarfélagsins vegna COVID-19 veirunnar, muni greiðsluhlutdeild einungis ná til þeirrar þjónustu sem raunverulega er nýtt í þjónustu stofnana sveitarfélagsins, þ.e. hjá leikskóla, grunnskóla, tónlistarskóla, frístund og dagdvöl aldraðra. Verður innheimta þjónustunnar endurskoðuð í því ljósi. Jafnframt var samþykkt að eindögum í samþykktri gjaldskrá fasteignagjalda árið 2020 verði seinkað um tvo mánuði. Sveitarstjórn mun í framhaldinu skoða fleiri leiðir til að bregðast við ástandinu, fylgjast með aðgerðum ríkisstjórnarinnar og viðbrögðum annarra sveitarfélög og vera í sambandi við Samband íslenskra sveitarfélaga um nánari útfærslur.

Aðgerðastjórn almannavarna á Norðurlandi vestra hefur verið virk í nær þrjár vikur og unnið mikið og gott starf í undirbúningi, skipulagningu og umsjón fjölbreyttra verkefna á svæðinu og mikið mætt á því góða fólki sem hana skipar. Vettvangsstjórnir á Hvammstanga, Blönduósi og Sauðárkróki hafa einnig verið virkjaðar. Góð samvinna er á milli allra viðbragðsaðila á svæðinu.

Þegar þetta er ritað hafa enn ekki borist fregnir af staðfestu smiti í sveitarfélaginu. Það er afar gleðilegt en við þurfum samt sem áður vera eins vel undir það búin og unnt er og bregðast við í samræmi við allar viðbragðsáætlanir og annan undirbúning. Rétt er að árétta hversu mikilvægt það er að við leggjumst öll á eitt, vinnum þetta verkefni saman og gefum aldrei afslátt af þeim fyrirmælum sem sóttvarnarlæknir og yfirvöld hafa gefið út. Samstaða, sameiginleg ábyrgð og samhentar aðgerðir eru okkar beittasta vopn í baráttunni. Við leggjum m.a. okkar af mörkum með góðum handþvotti, spritti og ábyrgð í umgengni og fjarlægðartakmörkunum við annað fólk.

Eðlilegar varúðarráðstafanir mega ekki verða til þess að við töpum gleðinni. Það er t.a.m. ánægjulegt að sjá hversu margir eru duglegir við að fara út að ganga, skokka og stunda aðra heilsusamlega útivist þessa dagana, auðvitað í hæfilegri fjarlægð við aðra. Það var líka lofsvert framtak þegar hópurinn Skín við sólu var stofnaður um síðustu helgi á Facebook. Markmið hans er að létta fólki lundina, birta skemmtilegar myndir, segja sögur, hrósa og gleðja - allt á jákvæðum nótum. Virkilega skemmtilegt og gott frumkvæði þar á ferð. Við skulum einnig vera dugleg við að rækta samband við vini og ættingja í gegnum síma eða Netið og reyna að tryggja það saman að enginn einangrist í aðstæðum sem þessum.

Að lokum vil ég hvetja til þess að við reynum að styðja við okkar góðu fyrirtæki hér í Skagafirði, þótt takmörk séu víða sett við núverandi aðstæður. Með því styrkjum við starfsemi sem gæti átt erfiða tíma fram undan og gerum okkar til að tryggja áfram góða þjónustu og öflugt atvinnulíf þegar þessu tímabundna ástandi linnir. Í Skagafirði er t.d. í boði fjölbreytt og skemmtileg afþreying og gott að skipuleggja ferðalög sumarsins innan héraðs og víðar innanlands.

 

Með góðri kveðju til ykkar allra og óskir um ánægjulega helgi.

Sigfús Ingi Sigfússon, sveitarstjóri.