Fara í efni

Úttekt Menntamálastofnunar á skólastarfi í Grunnskólanum austan Vatna

01.07.2019

Í september síðastliðnum fór fram ytra mats úttekt á starfsemi Grunnskólans austan Vatna á vegum Menntamálastofnunar. Ný og endurskoðuð matsviðmið hafa verið tekin í notkun við ytra mat á grunnskólum á vegum Menntamálastofnunar og er Grunnskólinn austan Vatna í hópi fyrstu grunnskólanna sem fóru í úttekt með nýju matsaðferðinni. Endurskoðuð matsaðferð hefur m.a. skerpt á kröfum og nær matið nú betur til faglegs leiðtogahlutverks skólastjóra, aukið vægi lærdómssamfélagsins og skerpt á árangurskröfum. Lagt var mat á þrjá þætti skólastarfs þ.e. stjórnun og faglega forystu, nám og kennslu og innra mat. Þessum lykilþáttum var svo skipt niður í 16 undirkafla. Niðurstöður gáfu til kynna að í fimm þáttum fær skólinn eftirfarandi umsögn: Mjög gott verklag sem samræmist fyllilega lýsingu um gæðastarf. Flestir eða allir þættir sterkir. Í ellefu þáttum fær skólinn umsögnina: Gott verklag, margir þættir í samræmi við lýsingu á gæðastarfi en möguleikar á umbótum. Meiri styrkleikar en veikleikar.

Í kjölfar úttektarinnar var óskað eftir umbótaáætlun frá skóla og sveitarfélagi um ákveðna þætti skólastarfsins. Í kjölfarið vann starfsfólk skólans ásamt fulltrúum fræðsluþjónustu að umbótaáætlun sem send var Menntamálastofnun. Menntamálastofnun hefur yfirfarið umbótaáætlunina og telur að hún uppfylli með fullnægjandi hætti viðbrögð við þeim þáttum sem matsaðilar bentu á sem tækifæri til umbóta í skólastarfi Grunnskólans austan Vatna. Niðurstöður matsins og áætlun um umbætur verða gerðar opinberar á vef Menntamálastofnunar innan tíðar en hafa verið birtar á vef Grunnskólans austan Vatna sjá hér.