Útskrift úr leikskólanum Ársölum

Útskriftarhópur á leikskólanum Ársölum
Útskriftarhópur á leikskólanum Ársölum

Stór hópur barna útskrifaðist frá leikskólanum Ársölum miðvikudaginn 30. maí, 42 börn, 20 stúlkur og 22 drengir. Hátíðin hófst á því að útskriftarhópurinn flutti nokkur lög undir stjórn Önnu Jónu leikskólastjóra af mikilli innlifun.

Börnin fengu afhent kveðjuskjöl og einnig viðurkenningarskjöl fyrir að vera aðstoðarmenn slökkviliðsins í vetur en í því starfi felst að fræðast um eldvarnir, faraí  eftirlitsferðir og láta leikskólastjóra vita ef einhverju er ábótavant í brunavörnum.

Leikskólastjóri sagði í ávarpi sínu frá helstu viðfangsefnum og áherslum vetrarins. Mikil áhersla er lögð á vinnu með bókstafi, orð og tölustafi í þeim tilgangi að undirbúa og auðvelda börnunum lestrarnámið í grunnskólanum. Í Ársölum er lögð áhersla á fjölbreytt lestrarhvetjandi umhverfi sem er forsenda þess. Gott samstarf er á milli skólastiga til að skapa samfellu á milli skólastiganna svo börnin fái notið skólagöngu sinnar sem best. Hún sagði samstarf við Árskóla hafa verið mjög gott og í stöðugri þróun og þakkaði hún kennurum og starfsfólki Árskóla.

Mikið er um gagnkvæmar heimsóknir barna og kennara á milli Ársala og Árskóla og fara kennaraskipti fram tvisvar á vetri. Þá koma kennarar 1. bekkjar í leikskólann og leikskólakennarar elstu barna fara í 1. bekk. Við útskriftina voru væntanlegir kennarar í fyrsta bekk og deildarstjóri yngsta stigs Árskóla og á fyrsta skóladegi væntanlegra 1.bekkinga haustið 2018 verða leikskólakennarar elstu barna Ársala þeim til halds og trausts.

Í ávarpi leikskólastjóra til barnanna talaði hún um mikilvægi vináttunnar, að bera virðingu fyrir öðrum og vera vingjarnleg. Börnin fengu afhentar vináttuplöntur, birkihríslur, og verður héðan í frá plantað vináttuplöntu á hverju vori á lóð eldra stigs leikskólans til minningar um þau börn sem eru að útskrifast. Að lokum var boðið upp á veitingar.