Sveitarfélagið vinnur mál gegn Lánasjóði sveitarfélaga ohf.

Málið sem var dómtekið 14. október 2013, var höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, 22. ágúst 2012, af Sveitarfélaginu Skagafirði, á hendur Lánasjóði sveitarfélaga ohf.
Dómsorð héraðsdóms var eftirfarandi: "Viðurkennt er að eftirstöðvar lánssamnings aðila nr. 20/2007 hafi hinn 16. mars 2012 verið 103.833.739 krónur. Stefndi greiði stefnanda 1.100.000 krónur í málskostnað."

Með dómi héraðsdóms, sem Hæstiréttur staðfesti með vísan til forsendna hans, var talið að lán sem S tók hjá forvera L ohf. hefði verið í íslenskum krónum, bundið með ólögmætum hætti við gengi erlendra gjaldmiðla og sú staðreynd að lánveitingin til handa S hefði verið fjármögnuð af forvera L ohf. með erlendu lánsfé fékk þeirri niðurstöðu ekki hnekkt. Þá var við úrlausn ágreinings um uppgjör milli aðilanna vegna endurreiknings hins ólögmæta gengistryggða láns lagt til grundvallar að L ohf. gæti ekki krafið S um viðbótargreiðslur vegna þegar greiddra vaxta aftur í tímann með skírskotun til þess að greiðsluseðlar L ohf. og forvera hans og fyrirvaralaus móttaka þeirra á greiðslum frá S, eða S ehf. fyrir hans hönd, jafngiltu fullnaðarkvittun vegna hlutaðeigandi greiðslna, svo og að virtum dómum Hæstaréttar 15. febrúar 2012 í máli nr. 600/2011 og 18. október sama ár í máli nr. 464/2012.

Dómur Hæstaréttar:
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 10. febrúar 2014. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Lánasjóður sveitarfélaga ohf., greiði stefnda, Sveitarfélaginu Skagafirði, 800.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Hér er að finna dóm Hæstaréttar í heild sinni.