Fara í efni

Sundlaugin á Hofsósi valin ein af sex fallegustu nýbygginum landsins

24.03.2014

Sundlaugin á Hofsósi var á dögunum valin efst á lista yfir sex fallegustu nýbyggingar landsins. Fréttablaðið lét taka listann saman og fékk þau Elísabeth V. Ingvarsdóttur hönnunarfræðing og kennara, Pétur H. Ármannsson arkítekt, Frey Einarsson sjónvarpsstjóra 365 miðla og Sigrúnu Birgisdóttur deildarforseta hönnunar- og arkítektúrdeildar Listaháskóla Íslands til að setja saman listann.

 

Sundlaugin á Hofsósi, sem tekin var í notkun árið 2010, er hönnuð af Basalt/ VA arkitektum og eru hönnuðir hennar þau Jóhann Harðarson, Marcos Zotes Lopes, Rósa Dögg Þorsteinsdóttir, Stefanía Sigfúsdóttir og Sigríður Sigþórsdóttir.

 

Í umsögnun álitsgjafanna segir meðal annars:

„Arkitektúr sem í sjálfu sér er upplifun. Falleg lausn þar sem virðing er borin fyrir umhverfi og náttúru. Unnið er vel með samspil þess náttúrulega og manngerða og góð tilfinning fyrir hlutföllum, efnum, notkun og tilgangi. Byggingin er hógvær í landslaginu en myndar um leið sterkt samspil við umhverfið, haf og land“ (Elísabet V. Ingvarsdóttir).

 

„Laugin og þjónustuhúsið eru hugvitssamlega felld inn í landið. Í einfaldleik sínum nær mannvirkið að magna áhrif umhverfisins þar sem vatnsflötur laugarinnar kallast á við hafflöt Skagafjarðar og eyjarnar við sjónarrönd“ (Pétur H. Ármannsson).

 

Af sex byggingum á listanum eru fjórar á Norðurlandi, en auk sundlaugarinnar á Hofsósi komust Háskólinn á Akureyri, Safnasafnið á Svalbarðsströnd og Kaffihúsið í Lystigarði Akureyrar á listann.