Fara í efni

Skólasókn í öðru skólahverfi innan Skagafjarðar og skólaakstur

14.09.2023
Yfirlit skólahverfa í Skagafirði

Sveitarfélög landsins bera ábyrgð á skipulagi skólaaksturs samkvæmt gildandi lögum um grunnskóla. Í Skagafirði eins og í öðrum sveitarfélögum er skipulag skólaaksturs í samræmi við skólahverfi og sækja börn alla jafna skóla innan sinna skólahverfa, sbr. skilgreiningu skólahverfa á meðfylgjandi mynd.

Heimilt er að veita undanþágu frá skólasókn innan skólahverfis ef rík málefnaleg sjónarmið, fagleg eða félagsleg, liggja fyrir, sjá reglur hér á heimasíðu Skagafjarðar. Beiðni foreldra um flutning skal vera skrifleg og rökstudd og hafa borist fræðslustjóra sveitarfélagsins eigi síðar en 10. júní. Fræðslunefnd afgreiðir umsóknir að fengnu áliti sérfræðinga, skóla- og / eða félagsþjónustu sem og skólastjóra beggja skóla. Umsókn er einungis samþykkt ef:

  1. talin eru fullnægjandi fagleg eða félagsleg rök fyrir beiðninni
  2. kostnaður vegna breytinganna er óverulegur (skólaakstur, launakostnaður o.s.frv.)
  3. breyting veldur ekki umtalsverðri röskun á starfsemi hlutaðeigandi skóla

Á skólaárinu 2023 – 2024 eru 22 börn, sem sækja skóla utan síns skólahverfis og hefur formlega verið sótt um undanþágu fyrir meirihluta þeirra barna og það fengist samþykkt í fræðslunefnd. Akstur er ekki samþykktur samhliða námsvist enda taka akstursleiðir mið af skólahverfum og er foreldrum og forráðamönnum gert það fyrirkomulag ljóst þegar undanþága er veitt fyrir skólasókn í öðru skólahverfi. Dæmi eru um að foreldrar hafi samið við bílstjóra, sem ekur viðkomandi leið, en slíkt samkomulag er undir hverjum og einum bílstjóra komið. Sveitarfélagið hefur ekki milligöngu um og ber ekki ábyrgð á slíkum samningaviðræðum.

Í útboði á skólaakstri í sumar var tekið mið af skólahverfum eins og reglur sveitarfélagsins segja til um. Breyting frá fyrra útboði hafði það í för með sér að leiðir sem áður voru eknar duttu út og aðrar komu inn í staðinn. Breytingarnar hafa það jafnframt í för með sér að sum þeirra barna, sem sækja skóla utan skólahverfis og gátu nýtt skólaakstur á síðasta útboðstímabili, hafa ekki kost á því lengur. Vert er að benda á að ekki öll börn, sem sækja námsvist utan skólahverfis, gátu nýtt þann akstur sem fyrir var á síðasta útboðstímabili og hafa foreldrar alfarið séð um að aka þeim börnum í skólann á sinn kostnað. Sveitarfélögum landsins ber að gæta jafnræðis gagnvart íbúum sínum og því ekki hægt að veita sumum börnum akstur á milli skólahverfa en öðrum ekki. Almennt hafa sveitarfélög landsins ekki boðið upp á fljótandi skólahverfi enda myndi slíkt kalla á mikla skipulagningu, mjög breytilegan akstur og akstursleiðir á milli skólahverfa og mjög verulega aukinn kostnað við þá þjónustu. Þess má geta að skólaakstur í dreifbýli í Skagafjarðar kostaði á síðasta ári 137 m.kr. og mótframlög úr Jöfnunarsjóði við þann akstur nam 92 m.kr.

Yfirlit skólahverfa í Skagafirði (stærri mynd)