Sæluvika Skagfirðinga er hafin

Forsíða dagskrárrits Sæluviku Skagfirðinga 2016
Forsíða dagskrárrits Sæluviku Skagfirðinga 2016

Sæluvika Skagfirðinga var sett í Safnahúsinu á Sauðárkróki fyrr í dag. Var þar m.a. opnuð glæsileg myndlistarsýning Hallrúnar Ásgrímsdóttur, tilkynnt úrslit í Vísnakeppni Safnahúss Skagfirðinga og opinberað hver hlyti fyrstu Samfélagsverðlaun Sveitarfélagsins Skagafjarðar. Nemendur úr Tónlistarskóla Skagafjarðar léku nokkur lög á milli ávarpa.

Það var Sigríður Svavarsdóttir, forseti sveitarstjórnar Sveitarfélagsins Skagafjarðar, sem setti Sæluvikuna með formlegum hætti. Ásta Björg Pálmadóttir sveitarstjóri tilkynnti um fyrsta verðlaunahafa Samfélagsverðlaunanna en þau hlýtur að þessu sinni Stefán Pedersen ljósmyndari á Sauðárkróki. Stefán hefur í leik og starfi auðgað mannlíf og menningu Skagafjarðar með ljósmyndum sínum, sýningum, þátttöku í íþróttum og félagsmálum íþróttahreyfingarinnar, ábyrgðarstörfum fyrir samfélag sitt, virkri þátttöku í tónlistarlífi og síðast ekki síst náungakærleik sem birtist á svo margvíslegan hátt, m.a. gagnvart eldri borgurum.

Páll Friðriksson tilkynnti úrslit í Vísnakepppni Safnahússins en verðlaunahafar voru þeir Gunnar Rögnvaldsson fyrir bestu vísuna og Rúnar Kristjánsson fyrir besta botninn. Hvoru tveggja verður birt hér á næstu dögum.

Fjöldi fólks lagði leið sína í Safnahúsið í dag og Sæluvikan því hafin með krafti. Framundan eru fjölmargir skemmtilegir og fróðlegir viðburðir sem sjá má hér.