Fara í efni

Ný deild opnuð við leikskólann Birkilund í Varmahlíð

23.03.2016
Sveitastjórnarfulltrúar Sveitarfélagsins Skagafjarðar og Akrahrepps ásamt leikskólastjóra Birkilundar.

Tekin hefur verið í notkun ný deild við leikskólann Birkilund. Deildin hefur hlotið nafnið Reyniland og er staðsett þar sem áður var pósthús í Varmahlíð. Deildin var opnuð þann 17. mars og komu af því tilefni fulltrúar úr stjórn foreldrafélags Birkilundar og færðu leikskólanum gjafir. Á Könglaland gáfu þeir Playmo leikföng, lego duplo kubba á Kvistaland og bækur, myndavél og geislaspilara á Reyniland. Við þökkum foreldrafélaginu kærlega fyrir þessar veglegu gjafir.

Síðastliðinn þriðjudag var svo opið hús á Reynilandi þar sem fólki bauðst að koma og skoða nýju deildina. Þar mættu foreldarar, starfsfólk, íbúar svæðisins, sviðsstjórar fjölskyldusviðs og veitu- og framkvæmdasviðs og sveitastjórnarfulltrúar frá Sveitarfélaginu Skagafirði og Akrahreppi. Verktakinn við framkvæmdirnar var Trésmiðjan Borg og liggur endanlegur kostnaður ekki fyrir. Skiptist hann milli sveitarfélaganna á svæðinu. Framkvæmdum við lóð lýkur í vor með frágangi og uppsetningu á leiktækjum sem er verið að leita tilboða í.

Í dag eru 8 börn á Reynilandi ásamt starfsfólki. 

Sveitarfélagið Skagafjörður ásamt Akrahreppi ákváðu í október s.l. að bregðast við brýnum vanda foreldra ungra barna í Varmahlíð vegna dagvistunarmála. Þá varð ljóst að dagforeldri sem starfað hafði á svæðinu myndi láta af störfum. Sendi Sveitarfélagið frá sér fréttatilkynningu um málið þann 07. október 2015. Frá ákvörðun um framkvæmdir og til opnunar nýrrar deildar hafa því aðeins liðið rúmir fimm mánuðir.