Nemendur Varmahlíðarskóla í þriðja sæti í NKG

Indriði Ægir Þórarinsson og Óskar Aron Stefánsson ásamt forseta Íslands
Mynd NKG
Indriði Ægir Þórarinsson og Óskar Aron Stefánsson ásamt forseta Íslands Mynd NKG

Lokahóf Nýsköpunarkeppni grunnskólanna var haldið í Háskólanum í Reykjavík síðastliðinn sunnudaginn 22. maí. Það voru 39 hugmyndaríkir krakkar úr 5. – 7. bekk sem komust áfram í vinnustofur og í úrslit keppninnar með samtals 27 hugmyndir. Vinnustofurnar stóðu yfir í þrjá daga sem hófust á fimmtudegi. Börnin unnu í tvo daga í HR að hugmyndum sínum, útbjuggu frumgerðir og kynningarspjöld sem voru til sýnis á lokahófinu. Þriðja daginn unnu börnin í vinnusmiðju í Arion banka að fjármálalæsi og öðru því tengdu.

Tveir nemendur í 6. bekk Varmahlíðarskóla þeir Óskar Aron Stefánsson og Indriði Ægir Þórarinsson hlutu þriðju verðlaun fyrir hugmynd sína, Markaskráarappið, ásamt tveimur öðrum hugmyndum.   

 Nemendurnir komu frá 38 skólum alls staðar að af landinu, en samtals bárust keppninni 1750 hugmyndir frá flestum grunnskólum landsins. Það má því með sanni segja að framtíðin sé björt í nýsköpun landsins. 

Nánari upplýsingar um keppnina, hugmyndirnar og keppendurna ásamt myndum má finna á Facebook síðu keppninnar. https://www.facebook.com/NKGIceland