Fara í efni

Kröfur ríkisins í eyjar og sker á Skagafirði

01.03.2024
Drangey

Fjármála- og efnahagsráðherra hefur fyrir hönd íslenska ríkisins afhent óbyggðanefnd kröfur um þjóðlendur á svæði 12 sem nefnist „eyjar og sker“ og tekur til landsvæða innan landhelginnar en utan meginlandsins. Um er að ræða sautjánda og síðasta svæðið sem óbyggðanefnd tekur til meðferðar.

Málsmeðferð á hverju svæði hefst á því að óbyggðanefnd tilkynnir fjármála- og efnahagsráðherra að nefndin hafi ákveðið að taka svæðið til meðferðar og veitir honum frest til að lýsa fyrir hönd íslenska ríkisins kröfum um þjóðlendur þar. Þegar kröfur ríkisins liggja fyrir kynnir óbyggðanefnd þær og skorar á þá sem telja til eignarréttinda eða annarra réttinda á svæði sem ríkið gerir kröfu til að lýsa kröfum sínum innan tiltekins frests. Að liðnum þeim fresti eru heildarkröfur kynntar. Óbyggðanefnd rannsakar síðan málin, sem felur m.a. í sér umfangsmikla og kerfisbundna gagnaöflun í samvinnu við sérfræðinga á Þjóðskjalasafni Íslands. Leiði rannsókn nefndarinnar í ljós að einhver kunni að telja til eignarréttinda án þess að hafa lýst kröfu er viðkomandi gefinn kostur á að gerast aðili máls, sbr. 3. mgr. 13. gr. þjóðlendulaga. Þegar framkomin gögn hafa verið rannsökuð til hlítar úrskurðar óbyggðanefnd um kröfur málsaðila. Ef svæði sem ríkið hefur gert þjóðlendukröfur til reynast samkvæmt rannsókn óbyggðanefndar vera eignarlönd er kröfum ríkisins þar hafnað. Svæði sem reynast utan eignarlanda eru hins vegar úrskurðuð þjóðlendur.

Á Norðurlandi vestra gerir ríkið nú kröfu um eignarhald á öllum eyjum og skerjum, auk Þórðarhöfða, en fyrir utan Málmey sem ríkið á. Sjá nánar með því að smella hér.

Skagafjörður hvetur eigendur þeirra eyja, skerja og höfða sem ríkið gerir nú kröfur um að eignast til að huga að undirbúningi sinna hagsmuna og leita aðstoðar lögmanns. Sjá nánar um undirbúning með því að smella hér. Kröfum eigenda skal lýst skriflega í síðasta lagi 15. maí 2024 fyrir óbyggðanefnd, Borgartúni 29, 105 Reykjavík, postur@obyggdanefnd.is. Að lokinni gagnaöflun og rannsókn á eignarréttarlegri stöðu svæðanna úrskurðar óbyggðanefnd um framkomnar kröfur.

Skagafjörður vekur einnig athygli á að íslenska ríkið ber kostnað einstaklinga og lögaðila vegna hagsmunagæslu fyrir óbyggðanefnd, að teknu tilliti til tilgreindra skilyrða. Þau skilyrði má finna hér.