Fjárhagsáætlun 2018-2022 samþykkt

Fallegur vetrardagur í Skagafirði
Fallegur vetrardagur í Skagafirði

Fjárhagsáætlun Sveitarfélagsins Skagafjarðar fyrir árin 2017-2020 var samþykkt með átta atkvæðum við síðari umræðu á fundi sveitarstjórnar 13. desember s.l.  Bjarni Jónsson (Vg og óháðir) bókaði að hann sæti hjá við atkvæðagreiðsluna. Lagði hann fram bókun við áætlunina sem og Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir (K-lista) og fulltrúar meirihluta sveitarstjórnar.  Fundargerð sveitarstjórnar má sjá hér.   Helstu fjárfestingar ársins 2018 eru áætlaðar vegna Sundlaugar Sauðárkróks, 170 milljónir króna, gervigrasvallar á Sauðárkróki 100 milljónir króna, Aðalgötu 21 og 21a, 80 milljónir króna og frágangur á bílastæðum við Árskóla/íþróttahús 50 milljónir króna.

Í fundargerð var eftirfarandi m.a. bókað:

"Ásta Björg Pálmadóttir sveitarstjóri kynnti fjárhagsáætlunina.
Fjárhagsáætlunin sýnir rekstraráætlun, sjóðsstreymi og áætlaðan efnahagsreikning fyrir sveitarfélagið og stofnanir þess.
Forsendur fjárhagsáætlunar Sveitarfélagsins Skagafjarðar 2018 og áætlunar fyrir árin 2019-2022 byggja meðal annars á þjóðhagsspá Hagstofu Íslands varðandi verðlags- og launaþróun næstu ára.
Áætlun ársins 2018 gerir ráð fyrir að rekstrartekjur Sveitarfélagsins Skagafjarðar nemi 5.189 m.kr. hjá samstæðunni í heild, A- og B hluta, þar af eru rekstrartekjur A- hluta áætlaðar 4.551 m.kr.
Rekstrargjöld án fjármagnsliða eru áætluð 4.783 m.kr., þ.a. A hluti 4.334 m.kr. Rekstrarafgangur A og B hluta án afskrifta og fjármagnsliða er áætlaður 608 m.kr, afskriftir nema 202 m.kr. og fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur nema 260 m.kr., rekstrarniðurstaða samstæðunnar í heild A og B hluta er áætluð jákvæð samtals með 146 m.kr. í rekstrarafgang.
Rekstrarafgangur A hluta án afskrifta og fjármagnsliða er 330 m.kr, afskriftir nema 113 m.kr., fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur nema 201 m.kr. Rekstrarniðurstaða A hluta sveitarsjóðs er því áætluð jákvæð um 16 m.kr.
Eignir Sveitarfélagsins Skagafjarðar eru áætlaðar í árslok 2017, 8.737 m.kr., þ.a. eignir A hluta 7.241 m.kr. Skuldir og skuldbindingar eru áætlaðar í árslok 6.516 m.kr., þ.a. hjá A hluta 6.115 m.kr. Eigið fé er áætlað 2.221 m.kr hjá samstæðunni og eiginfjárhlutfall því 0,25. Eigið fé A hluta er áætlað 1.126 m.kr. og eiginfjárhlutfall 0,15.
Ný lántaka er áætluð 460 m.kr. hjá samstæðunni í heild og að afborganir eldri lána og skuldbindinga verði um 429 m.kr. Reiknaðar lífeyrisskuldbindingar eru 1.279 m.kr. hjá samstæðu, þar af 1.162 m.kr. hjá A-hluta. Skuldahlutfall samstæðunnar er áætlað 125% og skuldaviðmið 107%.
Áætlunin gerir ráð fyrir að veltufé frá rekstri A - hluta verði 249 m.kr., og veltufé frá rekstri samstæðunnar A og B hluta verði samtals 482 m.kr. Þá er gert er ráð fyrir að handbært fé í árslok verði 217 m.kr. hjá samstæðunni í heild."

Greinargerð sveitarstjóra

Fjárhagsáætlun 2018-2022