Endurreikningi afsláttar vegna fasteignaskatts 2013 lokið

Endurreikningi afsláttar á fasteignaskatt vegna ársins 2013 hjá Sveitarfélaginu Skagafirði er lokið. Við álagningu fasteignagjalda í janúar s.l. var tilkynnt að inneign eða skuld gæti myndast við endanlegan útreikning á afslætti vegna fasteignaskatts, á íbúðum elli- og örorkulífeyrisþega.
Samtals fengu 212 fasteignaeigendur lækkun á fasteignaskatt þetta árið, að upphæð 6,8 milljónir króna samtals.

Þeir elli- og örorkulífeyrisþegar sem sveitarfélagið þarf að krefja um endurgreiðslu afsláttarins munu fá sendan greiðsluseðil fyrir ofgreiðslunni.

Ef inneign hefur myndast þá verður henni fyrst ráðstafað upp í ógreidd fasteignagjöld og eftirstöðvar, ef einhverjar eru, síðan greiddar inn á bankareikning viðkomandi.

Skilyrði til lækkunar fasteignaskatts er að viðkomandi elli- eða örorkulífeyrisþegi eigi lögheimili í sveitarfélaginu, búi í eigin íbúð og sé 67 ára á árinu eða eldri, eða hafi verið úrskurðaður 75% öryrki.  Afsláttur nær eingöngu til þeirrar íbúðar sem viðkomandi býr í.  Afslátturinn er tekjutengdur og er að hámarki kr. 55.000.  Afslátturinn er hlutfallslegur að teknu tilliti til allra skattskyldra tekna þ.m.t. fjármagnstekna,  skv. skattframtali 2013.

Tekjumörkin eru sem hér segir:

Fyrir einstaklinga:
    a) með tekjur allt að kr. 2.491.000 fullur afsláttur sbr. hér að ofan.
    b) með tekjur yfir kr. 3.358.000 enginn afsláttur.

Fyrir hjón og samskattað sambýlisfólk:
    a) með tekjur allt að kr. 3.358.000 fullur afsláttur sbr. hér að ofan.
    b) með tekjur yfir kr. 4.549.000 enginn afsláttur.

Ef tekjur eru á framangreindu bili er veittur hlutfallslegur afsláttur.

Vinsamlegast hafið samband í síma: 455 6000 ef frekari upplýsinga er óskað eða sendið tölvupóst.

Sveitarfélagið Skagafjörður - innheimta