Tómstundir og menningarmál
Í Skagafirði eru fjölmargar sundlaugar, á Sauðárkróki, Hofsósi, í Varmahlíð, á Hólum og á Sólgörðum í Fljótum. Á Nöfunum fyrir ofan Sauðárkrók er lengsti 9 holu golfvöllur á Íslandi með útsýni eins og það gerist best. Rétt fyrir utan Sauðárkrók er Skíðasvæðið í Tindastóli. Þar eru tvær lyftur og barnalyfta ásamt göngubraut. Fyrsta flokks skíðasvæði sem er einstaklega snjósælt og fallegt. Rík hefð er fyrir hestamennsku í Skagafirði og er aðstaða til hestamennsku mjög góð.
Á Sauðárkróki er Hús frítímans vinsæll staður fyrir unga sem aldna. Þar er skipulögð tómstundastarfsemi fyrir börn á grunnskólaaldri sem og eldri borgara. Á Sauðárkróki er einnig kvikmyndahús með skipulagða sýningatíma. Þar fara einnig fram leiksýningar á vegum Leikfélags Sauðárkróks, Leikfélags Nemendafélags Fjölbrautaskóla Norðurlands Vestra, skólasýningar og hinar ýmsu aðrar sýningar.
Hefð fyrir kórastarfi er rík í Skagafirði en þar eru kórar eins og Karlakórinn Heimir, Kvennakórinn Sóldís, Kammerkórinn og kirkjukórar. Sólon myndlistarfélag er félag myndlistarfólks í Skagafirði.
Söfn og sýningar eru fjölbreytt í Skagafirði. Byggðasafn Skagfirðinga er með safn í Glaumbæ og í Víðimýrarkirkju. Á Sauðárkróki eru sýningarnar1238 - Baráttan um Ísland og Puffin & Friends. Vesturfarasetrið er staðsett á Hofsósi og Sögusafn íslenska hestsins er staðsett í gömlu hesthúsi á Hólum í Hjaltadal.
Sæluvika er lista- og menningarhátíð í Skagafirði. Metnaðarfull dagskrá Sæluviku stendur yfir í viku og hefst hún síðasta sunnudag í apríl ár hvert.