Fara í efni

1. verðlaun til GAV í verkefni Landsbyggðarvina

30.05.2017
Egill Rúnar Halldórsson og Ólafur Ísar Jóhannesson

Nemendur úr Grunnskólanum austan Vatna hafa tekið þátt í alþjóðlegu verkefni undanfarin ár sem nefnist, Skólar á grænni grein, en markmið þess er að auka umhverfismennt og styrkja skóla í menntun til sjálfbærni. Verkefnin sem nemendur unnu fyrir Landsbyggðarvini eru öll unnin úr endurnýttu hráefni en nemendurnir unnu verkefnið í nýsköpunarviku í mars og heitir sigurverkefnið Hænsnakofinn.

Það eru þeir Ólafur Ísar Jóhannesson og Egill Rúnar Halldórsson sem eru hugmyndasmiðir að hænsnakofanum ásamt fleirum en hugmyndin var að smíða hænsnakofa með tveimur rýmum og varpkassa. Annað rýmið hugsað sem innisvæði, einangrað með hitaperu, og hitt sem útisvæði þar sem hænurnar gætu vappað um innan girðingar.

Nemendum fannst ómögulegt að vita til þess að lífrænu sorpi úr heimilisfræði, af kaffistofu kennara og úr mötuneyti skólans væri hent og vildu því skoða hvaða möguleika þeir ættu á endurnýtingu. Þeim datt því í hug að vera með hænur við skólann því þær borða lífrænan úrgang og verpa eggjum sem nýta mætti í heimilisfræðikennslunni. Auk þess hafa dýr góð áhrif á flesta og því má líta á hænurnar sem einskonar gæludýr skólans eða sameiginlegt verkefni þar sem allir bera jafna ábyrgð á að hugsa um þær. Á skólatíma munu nemendur skiptast á að sinna hænunum en í lengri fríum er ætlunin að semja við nærumhverfið eins og ömmur og afa og aðra sem hafa áhuga. 

Félagið Landsbyggðarvinir afhentu verðlaunin í Norræna húsinu í gær og hlaut hænsnakofinn 1. verðlaun og 100.000 kr að launum í verkefninu fyrir bestu hugmyndina og lausnir að betri framtíð í heimabyggð. Verkefnið ber yfirskriftina, Framtíðin er núna, og er leiðarstef þess sköpunargleði - heimabyggðin mín - nýsköpun - heilbrigði og forvarnir.

Kofinn fyrir breytinguKofinn eftir breytingar