Fara í efni

Samráð; Drög að frumvarpi um breytingu á lögum um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum

Málsnúmer 2601031

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Skagafjarðar - 177. fundur - 14.01.2026

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 258/2025, "Drög að frumvarpi um breytingu á lögum um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum (markmið, kostnaður o.fl.) og um breytingu á lögum um Vegagerðina, framkvæmdastofnun samgöngumála (umsjón framkvæmda)".

Umsagnarfrestur er til og með 16.01. 2026.

Byggðarráð Skagafjarðar fagnar áformum um aukinn skýrleika í lögum um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum. Það er jákvæð breyting að til standi að hækka kostnaðarhlutfall Ofanflóðasjóðs vegna undirbúnings og framkvæmda við varnarvirki sem og vegna kaupa á eignum eða eignarnáms. Jafnframt er nauðsynlegt skref í eftirfylgni við almannavarnir að lögreglustjóri fái heimild til að leggja sektir á einstaklinga og beita valdi til að rýma eignir á hættusvæði, verði brotið gegn banni um að dvelja í eða á eignum á hættusvæði, sem keyptar hafa verið eða teknar eignarnámi í samræmi við 11. gr. laganna, á tímabilinu 1. nóvember til 30. apríl.

Byggðarráð bendir á að athuga þarf ábyrgð á eftirliti, skv. tillögu um nýjan 2. málslið 3. mgr. 3. gr. Þar er lagt til að aðilar sem oft skortir faglega þekkingu verði látnir bera ábyrgð á eftirliti með snjóflóðahættu. Þarna getur freistnihætta verið mikil, að gera lítið úr hættu. Orðalagið „annarri starfsemi“ sýnist ónákvæmt og virðist t.d. geta náð til skóla og heilbrigðisstofnana í dreifbýli.
Byggðarráð bendir einnig á að í 4. gr. verði mælt fyrir um skyldu ráðherra til þess að taka afstöðu til skipunar hættumatsnefndar innan tveggja vikna. Hafni hann skipun nefndarinnar skuli málefnalegur rökstuðningur óvilhalls aðila, sem ekki skal vera Veðurstofa Íslands, fylgja ákvörðun ráðherra, sem tekin skal eftir tilhlýðilegt samráð við sveitarstjórn. Skal vera unnt að kæra ákvörðun ráðherra til Úrskurðanefndar umhverfis- og auðlindamála innan nánar tiltekins frests.

Lagt er til að í niðurlagsákvæði 9. gr. komi ákvæði um að ráðherra skuli við ákvarðanatöku skv. þessum lögum gæta í hvívetna að samræmi og afgreiða lík tilvik með líkum hætti.

Heppilegt væri að mælt skuli fyrir um í lögunum hvernig birta skuli fjárhagsáætlun Ofanflóðasjóðs. Jafnframt að tekið skuli fram að ofanflóðagjald skuli einvörðungu vera til ráðstöfunar í þágu verkefna skv. ofanflóðalögum.

Jafnframt væri heppilegra að annar málsl. 1. tölul. 3. mgr. 12. gr. orðist í þessa veru: Framkvæmdaáætlun skal miðast við markmið reglugerðar um hættumat vegna ofanflóða og flokkun og nýtingu hættusvæða, og skal í henni gert ráð fyrir tilfallandi uppkaupum og flutningi eigna skv. 11. gr.