Fara í efni

Fjöldi ríkisstarfa

Málsnúmer 2509208

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Skagafjarðar - 163. fundur - 24.09.2025

Lögð fram skýrsla útgefin af Byggðastofnun 16. september sl., um þróun í fjölda ríkisstarfa á Íslandi. Skýrsla sem þessi hefur verið gefin út á tveggja ára fresti og sýna niðurstöður hennar stöðuna í lok árs 2024.
Megin niðurstöður skýrslunnar sýna að ríkisstörfum heldur áfram að fjölga og nú um 538 eða 1,9% frá árinu 2023. Flest eru stöðugildi á vegum ríkisins staðsett á höfuðborgarsvæðinu eða 70%. Höfuðborgarsvæðið er jafnframt eini landshlutinn þar sem hlutfall stöðugilda er hærra en hlutfall íbúa, en 64% landsmanna búa á höfuðborgarsvæðinu. Í öðrum landshlutum er hlutfall stöðugilda ríkisins minna eða sambærilegt og hlutfall landsmanna er í viðkomandi landshluta.
Norðurland vestra og Suðurland eru einu landshlutarnir þar sem stöðugildum fækkar á milli áranna 2023 og 2024. Á Suðurlandi hefur hins vegar orðið verulega mikil og samfelld fjölgun ríkisstarfa um allmörg ár fyrir árið 2023 á meðan staðan á Norðurlandi vestra er mun daprari en þar fækkaði einnig stöðugildum á vegum ríkisins á milli áranna 2021 og 2022.
Milli áranna 2023 og 2024 var mest fækkun ríkisstarfa í Húnaþingi vestra eða um níu stöðugildi sem samsvarar 11,3%. Þar fækkaði stöðugildum m.a. hjá Umhverfisstofnun, Íslandspósti og Heilbrigðisstofnun Vesturlands. Í Húnabyggð fjölgaði stöðugildum um 7 en þar varð fjölgun m.a. hjá Heilbrigðisstofnun Norðurlands og Landsvirkjun. Í Sveitarfélaginu Skagaströnd fækkaði stöðugildum um fimm, mest vegna fækkunar hjá Vinnumálastofnun. Í Skagafirði fækkaði stöðugildum um tvö.
Sé þróun ríkisstarfa á Norðurlandi vestra skoðuð síðustu 4 ár, frá 2020 til 2024, hefur ríkisstörfum einungis fjölgað um 23 stöðugili eða 4,4%, en á sama tímabili fjölgaði ríkisstörfum um rúmlega 3.500 á landinu öllu sem gerir 11-42% fjölgun í öllum öðrum landshlutum.
Sé horft á skiptingu starfanna á milli sveitarfélaga á Norðurlandi vestra út frá fjölda íbúa, má sjá að hún er nokkuð jöfn, þó tölurnar sýni að störfin séu hlutfallslega flest í Húnabyggð en fæst í Húnaþingi vestra.
Byggðarráð Skagafjarðar harmar að störfum á vegum ríkisins á Norðurlandi vestra skuli fækka á milli síðustu tveggja ára og að þróunin í landshlutanum skuli vera sú að þeim fjölgi þegar á heildina er litið meira en helmingi hægar hér en í öðrum landshlutum. Á sama tíma er íbúafjölgunin einnig hægari en meðaltalsfjölgunin er á Íslandi. Þessi þróun er með öllu óásættanleg og henni verður að snúa við. Við bætist svo stórlega aukin gjaldtaka hins opinbera úr landshlutanum með hundruða milljóna króna viðbótar gjöldum á sjávarútveg. Byggðarráð Skagafjarðar skorar á innviðaráðherra og ríkisstjórn Íslands að bregðast við þessari þróun í samráði við sveitarstjórnir á Norðurlandi vestra, með aðgerðum sem hafi það að markmiði að efla hag landshlutans til jafns við aðra slíka hér á landi.