Fara í efni

Samráð; Endurskoðun fyrirkomulags eftirlitskerfis með hollustuháttum og mengunarvörnum og matvælum

Málsnúmer 2502080

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Skagafjarðar - 133. fundur - 12.02.2025

Matvælaráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 19/2025, "Endurskoðun fyrirkomulags eftirlitskerfis með hollustuháttum og mengunarvörnum og matvælum".

Umsagnarfrestur er til og með 20.02.2025.

Byggðarráð samþykkir samhljóða að fela sveitarstjóra að óska eftir áliti og hugmyndum frá Heilbrigðiseftirliti Norðurlands vestra.

Byggðarráð Skagafjarðar - 134. fundur - 19.02.2025

Matvælaráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 19/2025, "Endurskoðun fyrirkomulags eftirlitskerfis með hollustuháttum og mengunarvörnum og matvælum".

Umsagnarfrestur er til og með 20.02.2025.

Byggðarráð Skagafjarðar bendir á að sveitarfélagið Skagafjörður hefur haft afar takmarkaðan aðgang að fundum sem haldnir hafa verið um samræmingu eftirlitskerfa hjá ríki og sveitarfélögum. Það er óásættanlegt með öllu og ekki nægjanlegt að funda eingöngu með landshlutasamtökum sveitarfélaganna sem koma ekki beint að t.d. rekstri heilbrigðiseftirlita eða hafa nokkra tengingu við þau.

Byggðarráð tekur hins vegar undir sjónarmið um að núverandi kerfi þurfi uppfærslu. Með mikilli stækkun UST og Mast hefur orðið ákveðin skörun á milli verkefna í eftirlitskerfinu. Eins er ljóst að samræming í vinnubrögðum á milli embætta um kröfur, úttektir og skýrslugerð þarf að vera meiri ásamt því að nútímavæða þarf upplýsingagjöf, umsóknaferli og skil á niðurstöðum.

Það verður að teljast óásættanlegt að flytja eingöngu burt frá sveitarfélögum landsins þann hluta verkefna sem gefur sértekjur en skilja eftir umræðulaust málaflokka eins og tiltekt á lóðum og lendum, vöktun á loftgæðum, vatnsgæðum og strandsjó, ásamt því að umsagnir og ráðgjöf eigi að vera áfram hjá sveitarfélögunum.

Reynslan af flutningi á þjónustu sem þessari frá nærsamfélögum gefur jafnframt fullt tilefni til að hræðast þann samruna og samþjöppun sem líklegt er að verði í kjölfarið á stofnunum og aðstöðu þeirra sem verkin vinna af hálfu eftirlitsstofnanna. Því er veruleg hætta á auknum kostnaði við þjónustu þeirra fyrirtækja sem þurfa á þessum úttektaraðilum að halda til að fá útgefin starfsleyfi í t.d. ferðaþjónustu og matvælaiðnaði.

Byggðarráð Skagafjarðar tekur heilshugar undir áður birta umsögn Heilbrigðiseftirlits Norðurlands vestra og vill ítreka að byggðarráð telur að vinna þurfi þetta mál mun betur og í meira samráði við sveitarfélögin. Markmiðið á að vera að laga þá hnökra sem eru á núverandi kerfi en tryggja um leið að eftirlitsþjónustan og ráðgjöfin í kringum hana sé sem næst þeim sem á henni þurfa að halda.