Byggðarráð Skagafjarðar - 132
Málsnúmer 2502001F
Vakta málsnúmerSveitarstjórn Skagafjarðar - 35. fundur - 12.02.2025
Fundargerð 132. fundar byggðarráðs frá 6. febrúar 2025 lögð fram til afgreiðslu á 35. fundi sveitarstjórnar eins og einstök erindi bera með sér. Einar E. Einarsson forseti kynnti fundargerð. Álfhildur Leifsdóttir, Einar E. Einarsson og Sveinn Þ. Finster Úlfarsson kvöddu sér hljóðs.
-
Byggðarráð Skagafjarðar - 132 Byggðarráð Skagafjarðar samþykkir samhljóða að skora á dómsmálaráðherra að beita sér fyrir auknum fjárheimildum til lögreglunnar á Norðurlandi vestra, til að embættinu sé fært að ráða í 2 stöðugildi rannsóknarlögreglumanna. Með þeim hætti er tryggt að embættinu er unnt að sinna þeim málaflokkum sem því er falið með lögum, m.a. í kjölfar gildistöku reglugerðar nr. 851/2024 þar sem rannsóknarforræði kynferðisbrota- og manndrápsmála í umdæmi lögreglunnar á Norðurlandi vestra, var fært heim í hérað. Einsýnt er að gæta þarf jafnræðis á milli lögreglustjóraembætta og tryggt að þeim sé fært að standa undir lögbundnum skyldum sínum. Um afar mikilvæga málaflokka er að ræða og sýnir reynslan að nauðsynlegt er að tryggja að rannsóknum svo alvarlegra brota sé sinnt með vönduðum og faglegum hætti. Bókun fundar Afgreiðsla 132. fundar byggðarráðs staðfest á 35. fundi sveitarstjórnar 12. febrúar 2025 með níu atkvæðum.
-
Byggðarráð Skagafjarðar - 132 Byggðarráð Skagafjarðar samþykkir samhljóða að auglýsa Háholt, fasteignanúmer F2241037, til sölu. Um er að ræða steypta fasteign sem er 385,7 fm að stærð, byggð árið 1998, ásamt 3 ha eignarlóð. Í fasteigninni eru níu herbergi, þrjú baðherbergi, geymslur, skrifstofur, setustofur, tvö þvottahús, iðnaðareldhús og fleiri rými.
Góð lofthæð er í fasteigninni og loftræstikerfi. Eignin er vel staðsett og í góðu ástandi.
Byggðarráð samþykkir samhljóða að fela sveitarstjóra að auglýsa fasteignina til sölu. Bókun fundar Afgreiðsla 132. fundar byggðarráðs staðfest á 35. fundi sveitarstjórnar 12. febrúar 2025 með níu atkvæðum. -
Byggðarráð Skagafjarðar - 132 Mál áður á dagskrá 131. byggðarráðsfundar þann 29. janúar sl.
Álfhildur Leifsdóttir vék af fundi byggðarráðs undir afgreiðslu málsins.
Umræður teknar um hvernig er rétt að standa að útfærslu endurskoðunarákvæðis í samningum við skólabílstjóra vegna bifreiða sem endurnýjaðar eru með bifreiðum sem ganga að öllu leiti fyrir vistvænum orkugjafa.
Byggðarráð samþykkir samhljóða að veita sviðsstjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs heimild til að greiða 2,5% álag á kílómetragjald fyrir þær leiðir sem eknar eru á bifreiðum sem ganga að öllu leiti fyrir vistvænum orkugjafa, óski samningsaðili eftir að nýta endurskoðunarákvæði samningsins. Bókun fundar Álfhildur Leifsdóttir vék af fundi við afgreiðslu þessa máls.
Afgreiðsla 132. fundar byggðarráðs staðfest á 35. fundi sveitarstjórnar 12. febrúar 2025 með átta atkvæðum. -
Byggðarráð Skagafjarðar - 132 Lagt fram bréf, dagsett 23. október 2024, frá Ólöfu Ýrr Atladóttur eiganda og framkvæmdastjóra Sótahnjúks ehf., þar sem óskað er eftir upplýsingum um fyrirhugaða breytingu húsnæðis fyrrverandi skólahúsnæðis að Sólgörðum í Fljótum. Jafnframt er áréttaður áhugi bréfritara á að nýta húsnæðið fyrir rekstur Sótahnjúks, hafi áætlanir sveitarfélagsins breyst.
Byggðarráð upplýsir fyrirspyrjanda um að ekki liggur enn fyrir endanleg niðurstaða varðandi fyrirhugaðar breytingar á umræddu húsnæði að Sólgörðum í Fljótum en unnið er að útfærslum á uppbyggingu hagkvæms leiguhúsnæðis í Fljótum.
Í ljósi fyrirspurnarinnar og áhuga frá öðrum aðilum einnig á nýtingu fasteignarinnar, samþykkir byggðarráð samhljóða að auglýsa fasteignina til leigu til 31.12.2025, á meðan unnið er í málum varðandi uppbyggingu leiguíbúða í Fljótum. Bókun fundar Afgreiðsla 132. fundar byggðarráðs staðfest á 35. fundi sveitarstjórnar 12. febrúar 2025 með níu atkvæðum. -
Byggðarráð Skagafjarðar - 132 Lagt fram erindi, dags. 27. janúar 2025, frá Herdísi L. Storgaard stofnanda góðgerðarfélagsins Miðstöðvar slysavarna barna, þar sem óskað er eftir styrk að upphæð kr. 50.000 til fjármögnunar fræðslumyndbands fyrir foreldra um slysavarnir ungra barna á heimilum og öryggi þeirra í bílum. Er myndbandinu ætlað að ná m.a. til foreldra á landsbyggðinni og foreldra sem hafa ekki íslensku að tungumáli.
Byggðarráð telur sér ekki fært að verða við styrkbeiðninni. Bókun fundar Afgreiðsla 132. fundar byggðarráðs staðfest á 35. fundi sveitarstjórnar 12. febrúar 2025 með níu atkvæðum. -
Byggðarráð Skagafjarðar - 132 Lagt fram erindi frá Umhyggju, félagi langveikra barna, Landssamtökunum Þroskahjálp, Einhverfusamtökunum, Sjónarhóli ráðgjafamiðstöð og ÖBÍ réttindasamtökum, dagsett 28. janúar 2025, sem sent var til Sambands íslenskra sveitarfélaga, Kennarasambands Íslands, mennta- og barnamálaráðuneytis og Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu. Í bréfinu er komið á framfæri áhyggjum framangreindra samtaka af skerðingu á þjónustu við fötluð börn og fjölskyldur þeirra á meðan á verkföllum Kennarasambands Íslands stendur en að mati samtakanna breytast skyldur sveitarfélaga gagnvart fötluðum börnum ekki þrátt fyrir að verkfall hefjist og skólastarfsemi falli niður. Biðla þau til undanþágunefndar Kennarasambands Íslands og sveitarfélaganna að taka til greina þær undanþágubeiðnir sem berast til nefndarinnar frá foreldrum fatlaðra barna og skólastjórum skóla þeirra, en sé talið að beiðnirnar uppfylli ekki skilyrði lagaákvæða um undanþágu telja samtökin að sveitarfélögunum beri að tryggja að ekki verði þjónusturof við fötluð börn innan þeirra.
Byggðarráð Skagafjarðar tekur undir áhyggjur samtakanna. Bókun fundar Afgreiðsla 132. fundar byggðarráðs staðfest á 35. fundi sveitarstjórnar 12. febrúar 2025 með níu atkvæðum. - .7 2502040 Samráð; Frumvarp til laga um breytingar á jarðalögum nr. 81 2004 (forkaupsréttur sameigenda o.fl.)Byggðarráð Skagafjarðar - 132 Matvælaráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 12/2025, "Frumvarp til laga um breytingar á jarðalögum, nr. 81/2004 (forkaupsréttur sameigenda o.fl.)". Umsagnarfrestur er til og með 13.02.2025. Bókun fundar Afgreiðsla 132. fundar byggðarráðs staðfest á 35. fundi sveitarstjórnar 12. febrúar 2025 með níu atkvæðum.
-
Byggðarráð Skagafjarðar - 132 Lagt fram til kynningar bréf frá innviðaráðuneytinu, dags. 29. janúar 2025, þar sem fjallað er um skoðun ráðuneytisins á kæru Álfhildar Leifsdóttur, sveitarstjórnarfulltrúa í sveitarstjórn Skagafjarðar og áheyrnarfulltrúi í byggðarráði, þar sem farið var fram á að að ráðuneytið skæri úr um hæfi sveitarstjórnarfulltrúans við afgreiðslu fyrirspurnar hennar á fundi byggðarráðs Skagafjarðar 30. október 2024. Ráðuneytið vísaði þeirri kæru frá með bréfi dags. 29. nóvember 2024, þar sem málið væri ekki tækt til úrskurðar á grundvelli 111. gr. sveitarstjórnarlaga að mati ráðuneytisins. Í því bréfi kom þó fram að ráðuneytið myndi leggja mat á hvort að efni kærunnar gæfi ráðuneytinu tilefni til að fjalla formlega um stjórnsýslu sveitarfélagsins á grundvelli 112. gr. sveitarstjórnarlaga.
Í bréfinu er málið reifað ítarlega en niðurstaða innviðaráðuneytisins er sú að það telji ekki ástæðu til að fjalla formlega um þá ákvörðun byggðarráðs að sveitarstjórnarfulltrúanum bæri að víkja sæti við meðferð málsins á fundi byggðaráðs þann 30. október sl., enda hafi sú framkvæmd verið í samræmi við fyrirmæli 7. mgr. 20. gr. sveitarstjórnarlaga. Með vísan til framangreinds telur ráðuneytið því ekki tilefni til að taka stjórnsýslu sveitarfélagsins Skagafjarðar til formlegrar umfjöllunar á grundvelli 112. gr. sveitarstjórnarlaga. Telst málinu því lokið af hálfu ráðuneytisins.
Bókun fundar Álfhildur Leifsdóttir og Sigurlaug Vordís Eysteinsdóttir fulltrúar VG og óháðra óska bókað:
"Það er sérstök stjórnsýsla hjá meirihluta sem í sínum samstarfssáttmála segist vilja auka gagnsæi í stjórnsýslunni, að þola ekki að áheyrnafulltrúi kalli eftir upplýsingum um verklag í aðdraganda verkfalls Ársala á fundi byggðaráðs þann 30. október. Verklag sem vakti í þessu tilfelli landsathygli, enda fjallað um það í fjölmiðlum að til stæði að sveitarfélagið stæði að verkfallsbrotum.
Engin formleg ákvarðanataka var til umfjöllunar, heldur var um að ræða almennar upplýsingar um framkvæmd sveitarfélagsins á tímum verkfalls. Það er grundvallaratriði í lýðræðislegu stjórnsýslukerfi að kjörnir fulltrúar geti lagt fram fyrirspurnir án þess að þeim sé meinað að taka þátt í umræðum um stjórnsýslu sem þeir höfðu enga aðkomu að, vegna ásakana um hagsmunaárekstra.
Við teljum að þessi afgreiðsla byggðaráðs feli í sér óþarfa takmörkun á starfsskilyrðum kjörinna fulltrúa og grafi undan gagnsæi og lýðræðislegri umræðu innan sveitarstjórnar. Slík vinnubrögð geta skapað hættulegt fordæmi sem dregur úr trausti almennings á störfum sveitarfélaga.
Það að Innviðaráðuneytið hafi vísað kærunni frá er til marks um úrræðaleysi ráðuneytisins í atburðarás sem reyndar er svo fáránleg að ekki er gert ráð fyrir henni í sveitarstjórnarlögum. Þetta þýðir í raun að meirihluti getur kosið kjörinn fulltrúa minnihluta út af fundi þegar það hentar ekki umræðunni að hafa viðkomandi viðstaddan. Það hlýtur að teljast vafasamt lýðræði."
Hlé gert á fundi klukkan 16.29.
Fundi haldið áfram 17.14.
Framsóknarflokkur, Sjálfstæðisflokkur og Byggðalisti óska bókað:
"Fulltrúar Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Byggðalista vilja benda á að ástæða þess að Álfhildi Leifsdóttur var vísað af fundi Byggðarráðs og sveitarstjórnar er sú að hún er formaður Kennarasambands Norðurlands vestra sem hefur það hlutverk að vera málssvari félagsmanna og fara með hagsmuni félaganna í þeirra samskiptum við skóla og vinnuveitendur og koma að gerð vinnustaðasamninga í samráði við stjórn Félags grunnskólakennara sem er aðildarfélag Kennarasambands Íslands. Innviðaráðuneytið hefur nú þegar úrskurðað um þetta mál og réttmæti þess að Álfhildi var vísað af fundinum undir þessum lið. Niðurstaða ráðuneytisins var skýr, hún var og er vanhæf stöðu sinnar vegna til að taka þátt í umræðu um málefni tengd kjaradeilu kennara við sveitarfélögin. Ákvörðunin var tekinn í samræmi við 7 mgr. 20 gr. Sveitarstjórnarlaga. Það var því eðlileg stjórnsýsla að viðkomandi fulltrúi viki af fundi þegar um augljósa hagsmuni er að ræða.
Það eru alvarlegar ásakanir þegar kjörinn fulltrúi sakar aðra kjörna fulltrúa um að þeir ætli sér að kjósa aðra kjörna fulltrúa út af fundi, þegar það hentar ekki umræðunni og til að forðast gagnsæi í stjórnsýslu. Málið snýst í öllum tilfellum um tengsl viðkomandi við þau mál sem eru á dagskrá og heiðarleika í störfum kjörinna fulltrúa."
Afgreiðsla 132. fundar byggðarráðs staðfest á 35. fundi sveitarstjórnar 12. febrúar 2025 með níu atkvæðum.