Fara í efni

Kvörtun vegna stjórnsýslu Skagafjarðar

Málsnúmer 2412019

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Skagafjarðar - 132. fundur - 06.02.2025

Lagt fram til kynningar bréf frá innviðaráðuneytinu, dags. 29. janúar 2025, þar sem fjallað er um skoðun ráðuneytisins á kæru Álfhildar Leifsdóttur, sveitarstjórnarfulltrúa í sveitarstjórn Skagafjarðar og áheyrnarfulltrúi í byggðarráði, þar sem farið var fram á að að ráðuneytið skæri úr um hæfi sveitarstjórnarfulltrúans við afgreiðslu fyrirspurnar hennar á fundi byggðarráðs Skagafjarðar 30. október 2024. Ráðuneytið vísaði þeirri kæru frá með bréfi dags. 29. nóvember 2024, þar sem málið væri ekki tækt til úrskurðar á grundvelli 111. gr. sveitarstjórnarlaga að mati ráðuneytisins. Í því bréfi kom þó fram að ráðuneytið myndi leggja mat á hvort að efni kærunnar gæfi ráðuneytinu tilefni til að fjalla formlega um stjórnsýslu sveitarfélagsins á grundvelli 112. gr. sveitarstjórnarlaga.
Í bréfinu er málið reifað ítarlega en niðurstaða innviðaráðuneytisins er sú að það telji ekki ástæðu til að fjalla formlega um þá ákvörðun byggðarráðs að sveitarstjórnarfulltrúanum bæri að víkja sæti við meðferð málsins á fundi byggðaráðs þann 30. október sl., enda hafi sú framkvæmd verið í samræmi við fyrirmæli 7. mgr. 20. gr. sveitarstjórnarlaga. Með vísan til framangreinds telur ráðuneytið því ekki tilefni til að taka stjórnsýslu sveitarfélagsins Skagafjarðar til formlegrar umfjöllunar á grundvelli 112. gr. sveitarstjórnarlaga. Telst málinu því lokið af hálfu ráðuneytisins.