Fara í efni

Samráð; Drög að samgönguáætlun fyrir árin 2024-2038

Málsnúmer 2306111

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Skagafjarðar - 53. fundur - 21.06.2023

Lagður fram til kynningar tölvupóstur dagsettur 13. júní 2023, þar sem innviðaráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 112/2023, Drög að samgönguáætlun fyrir árin 2024-2038. Umsagnarfrestur er til og með 31. júlí 2023.

Byggðarráð Skagafjarðar - 57. fundur - 31.07.2023

Innviðaráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 112/2023, „Drög að samgönguáætlun fyrir árin 2024?2038“. Umsagnarfrestur er til og með 31.07. 2023. Málið var áður til kynningar á 53. fundi byggðarráðs 21. júní 2023.
Byggðarráð Skagafjarðar fagnar sérstaklega áherslum samgönguáætlunar þegar kemur að umferðaröryggi og ekki síst í þeim efnum forgangsröðun í jarðgangakafla áætlunarinnar hvað varðar áform um jarðgöng á milli Fljóta og Siglufjarðar. Byggðarráð tekur einnig undir áherslur um fækkun einbreiðra brúa í þjóðvegakerfi landsins.
Þá fagnar byggðarráð að framkvæmdir við nýja ytri höfn á Sauðárkróki séu framundan en leggur ríka áherslu á að þeim framkvæmdum verði hraðað enn frekar og þeim lokið eigi síðar en snemma árs 2026. Fyrir því liggja brýnar ástæður sem eru annars vegar að þær eru forsenda uppbyggingar nýrrar hátæknifiskvinnslu FISK Seafood á Sauðárkróki og hins vegar að þær eru jafnframt forsenda þess að orkuskipti geti átt sér stað í skipaflota fyrirtækisins og að Sauðárkrókshöfn verði til framtíðar viðkomustaður strandflutninga. Orkuskipti kalla á hafnaraðstöðu sem tekur á móti skipum sem rista dýpra en núverandi höfn á Sauðárkróki ræður við.
Byggðarráð bendir einnig á að víða í Skagafirði má finna vegi sem beinlínis eru hættulegir yfirferðar vegna skorts á viðhaldi. Í greiningu Vífils Karlssonar um umferð og ástand vega á Vesturlandi, sem unnin var fyrir Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi árið 2016, kom fram að árið 2014 var hlutfallslega mest af malarvegum á Norðurlandi vestra og ljóst að miðað við litlar úrbætur í landshlutanum síðan þá, þá hefur Norðurland vestra dregist enn frekar aftur úr öðrum landsvæðum. Þess má geta að á hverjum skóladegi í Skagafirði aka skólabílar börnum 314 km vegalengd, þar af tæpum þriðjungi eða 91,5 km á malarvegum og yfir 12 einbreiðar brýr. Það er því afar brýnt að sjónir samgönguyfirvalda beinist að Norðurlandi vestra og auknum nýframkvæmdum við vegi þar. Má þar t.d. benda á afar bágborna vegi í Skagafirði í Hegranesi, Sæmundarhlíð, Ólafsfjarðarvegi suður frá Ketilási, Skagafjarðarveg, Skagaveg og Ásaveg. Mjög áríðandi er að ráðast í löngu tímabærar lagfæringar á Hólavegi en þar er umferðarþungi mikill og slysatíðni há. Þess má geta að fjölmennt landsmót hestamanna verður haldið á Hólum í Hjaltadal sumarið 2026.
Byggðarráð telur brýnt að stórauka fjárframlög til girðinga meðfram þjóðvegum landsins og einnig til uppbyggingar og viðhalds reiðvega umfram það sem gert er ráð fyrir í drögum að samgönguáætlun.
Byggðarráð leggur áherslu á að reglugerð sem gildir um vetraþjónustu Vegagerðarinnar verði tekin til endurskoðunar en eins og hún er í raun framsett þá gildir helmingamokstur Vegagerðarinnar aðeins að þriðja síðasta bæ við enda vegar. Sú aðferðafræði er vægast sagt umdeild og algjörlega á skjön við áherslur á jafnræði borgaranna og byggðaþróun. Enn má geta um ósanngjarnar reglur Vegagerðarinnar sem miða aðra mokstursþjónustu eingöngu við umferð á þjóðvegum og tengivegum en horfa ekkert til þess hvar á landinu þessir vegir eru. Það gefur t.d. auga leið að það þarf almennt séð miklu meiri vetrarþjónustu á t.a.m. veginn fram í Stíflu í Fljótum heldur en veg með sambærilegum umferðarþunga á Suðurlandi eða Suðvesturhorninu.
Byggðarráð Skagafjarðar tekur undir umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga við drög að samgönguáætlun og ekki síst hvað varðar að auknu fjármagni verði varið til vetrarþjónustu vega utan þéttbýlis með það að markmiði að aðlaga þjónustuna að þörfum samfélagsins og atvinnulífs. Trygg og góð vetrarþjónusta er ein af grunnforsendum þess að markmið áætlana ráðuneytisins um að innviðir mæti þörfum samfélagsins og sjálfbærar byggðir og sveitarfélög um allt land verði náð. Einnig að viðmiðunarreglur Vegagerðarinnar um kostnaðarþátttöku sveitarfélaga vegna snjómoksturs verði teknar til endurskoðunar í samvinnu við sveitarfélögin.
Byggðarráð vill að lokum benda á að svo litlir fjármunir eru veittir til viðhalds á Alexandersflugvelli við Sauðárkrók að til skammar er. Flugvöllurinn gegnir mikilvægu hlutverki fyrir sjúkraflutninga í landshlutanum og nauðsynlegt að vellinum og allri aðstöðu sé viðhaldið á sómasamlegan hátt og þannig að lífi fólks sé ekki ógnað af þessum sökum. Þess má jafnframt geta að slitlag á flugbrautinni er farið að láta verulega á sjá, ráðast þarf í endurbætur á lendingarljósum, auk fleiri brýnna aðgerða til að tryggja að völlurinn geti að lágmarki haldið áfram að sinna hlutverki sínu við að tryggja sjúkraflug til og frá Skagafirði.