Fara í efni

Byggðarráð Skagafjarðar - 9

Málsnúmer 2208007F

Vakta málsnúmer

Sveitarstjórn Skagafjarðar - 4. fundur - 14.09.2022

Fundargerð 9. fundar byggðarráðs frá 17. ágúst 2022 lögð fram til afgreiðslu á 4. fundi sveitarstjórnar eins og einstök erindi bera með sér. Sólborg Borgarsdóttir forseti kynnti fundargerð. Sigurlaug Vordís Eysteinsdóttir kvaddi sér hljóðs.
  • Byggðarráð Skagafjarðar - 9 Félags- og tómstundanefnd hefur á fyrri stigum tekið ákvörðun um að beita forkaupsrétti, á grundvelli laga nr. 97/1993, um Húsnæðisstofnun ríkisins, að fasteign að Víðimýri 4, F2132468. Um greiðslur til seljanda er kveðið á um í 1. mgr. 88. gr. laganna, en þar segir að við kaup á íbúðinni skuli seljandi fá endurgreitt það fjármagn sem hann lagði fram við kaup íbúðarinnar og þær afborganir sem hann hefur greitt af láni Byggingarsjóðs verkamanna frá því kaupsamningur var gerður. Við greiðslur bætist verðbætur samkvæmt vísitölu lánskjara frá greiðsludegi til söludags. Þá skuli seljanda endurgreiddar endurbætur sem hann hefur gert á fasteigninni að mati húsnæðisnefndar byggðu á reglum húsnæðismálastjórnar um mat á verðgildi endurbóta og viðhalds. Til frádráttar greiðslu til seljanda komi fyrning, vanræksla á viðhaldi, lausaskuldir og ógreidd gjöld. Fyrning reiknist 1% af framreiknuðu verði íbúða fyrir hvert ár. Vanræksla á viðhaldi skuli metin af húsnæðisnefnd í samræmi við reglur húsnæðismálastjórnar um mat á verðgildi endurbóta og viðhalds. Kaupverð fasteignarinnar, á grundvelli framangreinds ákvæðis, hefur nú verið endurmetið og er að öllu gættu metið 18.867.333 krónur. Greiðsla til seljanda er framangreind fjárhæð að frádregnum áhvílandi lánum, fasteignagjöldum, húsgjöldum og sölukostnaði.
    Byggðarráð samþykkir kaup eignarinnar í samræmi við fyrrgreint verðmat.
    Bókun fundar Afgreiðsla 9. fundar byggðarráðs staðfest á 4. fundi sveitarstjórnar 14. september 2022 með níu atkvæðum.
  • Byggðarráð Skagafjarðar - 9 Lagt fram mat Fasteignasölu Sauðárkróks, dagsett 9. febrúar 2022 á líklegu söluverði fasteignarinnar F2144120 Lambanes Reykir lóð B í Fljótum. Sala fasteignarinnar er í upphaflegri fjárhagsáætlun ársins 2022.
    Álfhildur Leifsdóttir vék af fundi við afgreiðslu þessa dagskrárliðar.
    Byggðarráð samþykkir að fela sveitarstjóra að auglýsa fasteignina Lambanes Reykir lóð B til sölu og einnig fasteignina F2144121 Lambanes Reykir lóð A sem er húsgrunnur.
    Bókun fundar Afgreiðsla 9. fundar byggðarráðs staðfest á 4. fundi sveitarstjórnar 14. september 2022 með átta atkvæðum. Álfhildur Leifsdóttir óskar bókað að hún viki af fundi undir afgreiðslu málsins.
  • Byggðarráð Skagafjarðar - 9 Lagður fram tölvupóstur dagsettur 12. ágúst 2022 þar sem dómsmálaráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 143/2022, "Frumvarp til laga um breytingu á lögum um dómstóla, nr. 50/2016, og öðrum réttarfarslögum". Umsagnarfrestur er til og með 09.09.2022.
    Í drögum að frumvarpinu er lagt til að héraðsdómstólar landsins verið sameinaðir í einn en tilgreint er að af hálfu dómsmálaráðuneytis sé forsenda sameiningar að sameinaður héraðsdómstóll hafi starfsstöðvar á landsbyggðinni og að þær verði styrktar og efldar með nýjum verkefnum.
    Byggðarráð Skagafjarðar er sammála mörgu af því sem er að finna í drögunum, m.a. um að starfsstöðvar héraðsdómstóla sé hægt að efla og styrkja með nýjum verkefnum. Byggðarráð geldur hins vegar varhug við að héraðsdómstólum verði fækkað en sporin hræða í þeim efnum að þegar stjórnsýslueiningar missa ákveðið sjálfstæði hefur slíkt oftar en ekki leitt til þess að umfang starfsstöðva þeirra hefur minnkað í kjölfarið eða þeim verið lokað með tilheyrandi skerðingu á nærþjónustu. Nægir þar að nefna starfsemi svæðisstöðva Ríkisútvarpsins á landsbyggðinni, starfsemi Vegagerðarinnar, Rarik o.fl. Athyglisvert er í því sambandi að sjá að í skjali um mat á áhrifum frumvarpsins er talið að frumvarpið leiði ekki til neinna áhrifa á byggðalög.
    Byggðarráð leggur áherslu á að frumvarp þetta verði ekki lögfest án þess að samhliða verði fest í lög þau verkefni og umsvif sem starfsstöðvum héraðsdómstóls á hverjum og einum stað er ætlað að sinna.
    Bókun fundar Afgreiðsla 9. fundar byggðarráðs staðfest á 4. fundi sveitarstjórnar 14. september 2022 með níu atkvæðum.
  • Byggðarráð Skagafjarðar - 9 Lögð fram til kynningar drög að samantekt KPMG fyrir Skagajörð á "Grænum iðngörðum í Skagafirði". Bókun fundar Afgreiðsla 9. fundar byggðarráðs staðfest á 4. fundi sveitarstjórnar 14. september 2022 með níu atkvæðum.
  • Byggðarráð Skagafjarðar - 9 Lagður fram tölvupóstur dagsettur 12. júlí 2022 frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun þar sem rammasamningur ríkis og sveitarfélaga um aukið framboð íbúða 2023-2032 og sameiginlega sýn og stefnu í húsnæðismálum, er kynntur.
    Byggðarráð fagnar gerð þessa rammasamnings og samþykkir að fela sveitarstjóra að undirbúa það að uppfæra húsnæðisáætlun sveitarfélagsins í samstarfi við Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.
    Bókun fundar Afgreiðsla 9. fundar byggðarráðs staðfest á 4. fundi sveitarstjórnar 14. september 2022 með níu atkvæðum.