Fara í efni

Starfsumhverfi - vinnustytting

Málsnúmer 2011060

Vakta málsnúmer

Fræðslunefnd Svf. Skagafjarðar - 162. fundur - 18.11.2020

Við gerð fjárhagsáætlunar þessa árs var ákveðið að ráðast í tilraunaverkefni vinnustyttingar í leikskólum Skagafjarðar sem miðar að því að bæta starfsumhverfi starfsmanna skólanna. Hvatinn að verkefninu var annars vegar hröð starfsmannavelta og mikil veikindi og hins vegar var markmiðið að skapa rými í starfsdeginum til að sinna ýmsum erindum utan starfsstöðvar á dagvinnutíma, svo sem læknisheimsóknum o.fl. Gert var ráð fyrir að kjarasamningsbundin vinnustytting kæmi inn í tilraunaverkefnið en yrði ekki viðbót við ákvörðun sveitarfélagsins um vinnustyttingu. Við skipulagningu styttingarinnar var ákveðið að með ákveðnum tilfærslum í dagskipulagi væru starfsmönnum í 100% starfi gefinn kostur á að stytta vinnudaginn um þrjár klukkustundir í viku hverri og hlutfallslega m.v. minna starfshlutfall. Auk vinnustyttingar var ákveðið að festa lágmarksundirbúningstíma 15 tíma fyrir hverja deild. Gert var ráð fyrir að verkefnið hæfist á vormánuðum þessa árs en vegna kórónuveirufaraldursins var ákveðið að seinka innleiðíngu þess fram á haustmánuði. Jafnframt var ákveðið að leggja reglulegt mat á verkefnið m.t.t. markmiða þess. Þriðja bylgja faraldursins hefur orðið til þess að erfitt er að meta árangur af verkefninu. Því er lagt til að verkefnið haldi áfram á árinu 2021 þó með þeirri breytingu að í stað þriggja klukkustunda styttingu er lagt til að hún verði tveir tímar. Með kjarasamningsbundinni styttingu verður framlag sveitarfélagsins 55 mínútur í viku hverri. Ástæða þess að dregið er úr syttingunni er sú að afar erfiðlega hefur gengið að skipuleggja starfsdaginn í stærsta leikskólanum og erfitt hefur reynst að ráða starfsfólk til starfa til að mæta styttingunni. Ítrekað er að þetta er tilraunaverkefni sem meta þarf reglulega áður en tekin verður endanleg ákvörðun um að festa fyrirkomulagi í sessi.
Fræðslunefnd samþykkir tillöguna fyrir sitt leyti og vísar til gerðar fjárhagsáætlunar sem er næsti liður á dagskrá.