Fara í efni

Fyrirspurn vegna Bifrastar

Málsnúmer 2002149

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 903. fundur - 26.02.2020

Lagt fram bréf frá Róberti Smára Gunnarssyni, dagsett 14. febrúar 2020 þar sem hann leggur fram nokkrar fyrirspurnir vegna Félagsheimilisins Bifrastar við Skagfirðingabraut á Sauðárkróki. Fyrirspurnirnar snúast um ástand hússins, aðgengi og framtíðarnot.
Svör:
Frá árinu 2005 hefur verið varið um 23 milljónum króna í viðhald félagsheimilisins. Ríflega helmingi þess fjármagns var varið í viðgerð á þaki árin 2015 og 2016. Inni í þessari tölu eru ekki kaup á búnaði sem talsverðar fjárhæðir hafa farið í.
Til að uppfylla kröfur nútímans um aðgengi að húsnæðinu þarf að ráðast í mjög kostnaðarsamar aðgerðir. Nokkrar útfærslur eru til á bættu aðgengi að Bifröst en húsnæðið er á nokkuð mörgum pöllum og því enn erfiðara en ella að uppfylla kröfur um aðgengi. Framkvæmdir vegna bætts aðgengis að Félagsheimilinu Bifröst eru ekki á fjárhagsáætlun þessa árs.
Ekki hefur farið út heildarúttekt á húsnæðinu en búið er að fara í fjölda ástandsskoðana og er ástand hússins vel þekkt. Ljóst er að þörf er á algjörri endurnýjun á húsnæðinu ef það á að nýtast áfram sem samkomuhús sem uppfyllir kröfur nútímans varðandi aðgengi, brunavarnir og almennt notagildi.
Unnið er að undirbúningi vegna byggingar menningarhúss á Sauðárkróki. Í kjölfar hönnunar þar er ljóst að sett verður í gang vinna við að meta hvernig félagsheimilið Bifröst getur sem best þjónað samfélaginu.