Fara í efni

Landbúnaðarnefnd Svf. Skagafjarðar

37. fundur 07. júní 1999 kl. 11:00 - 16:30 Fundarsalur Sveitarfélagsins

Landbúnaðarnefnd Skagafjarðar

Fundur 37 – 07.06.1999

 

            Ár 1999, mánudaginn 7. júní kl. 1100 kom landbúnaðarnefnd saman til fundar í fundarsal sveitarfélagsins á Sauðárkróki.

            Mættir voru:  Bjarni Egilsson, Þórarinn Leifsson, Símon Traustason, Skapti Steinbjörnsson, Smári Borgarsson og Sigurður Haraldsson starfsmaður.

 

DAGSKRÁ:

  1. Fundarsetning.
  2. Málefni Kolbeinsdalsafréttar og Laufskálaréttar.
  3. Málefni Skarðsár í Sæmundarhlíð.
  4. Leiga á landi í eigu sveitarfélagsins.
  5. Viðhald fjallskilamannvirkja og fjárhagsáætlun.
  6. Upprekstrarmál á Eyvindarstaðaheiði.
  7. Endurskoðun Blöndusamnings.
  8. Bréf er borist hefur.
  9. Önnur mál.

 

AFGREIÐSLUR:

1. Bjarni setti fund og kynnti dagskrá.

2. Málefni Kolbeinsdalsafréttar og Laufskálaréttar.  Bjarni kynnti bréf er borist hafði undirr. af Steinþóri Tryggvasyni, þar er greint frá fundi er haldinn var með þeim er upprekstur eiga á Kolbeinsdalsafrétt þ. 5. maí sl.  þar sem rætt var um upprekstur hrossa.  Á fundinum var borin fram tillaga um tilhögun upprekstrar er féll á jöfnum afkvæðum, málinu var vísað til landbúnaðarnefndar til úrlausnar.  Þá kynnti Bjarni bréf undirritað af Ólafi Sigurgeirssyni inntak þess var umfjöllun um reglur um upprekstur hrossa í Kolbeinsdalsafrétt og afkvæðagreiðslan sem fram fór á fundi þann 5. maí sl.  Allnokkur umræða fór fram um inntak framangreindra bréfa.  Samþykkt var að boða til alm. fundar með þeim aðilum sem upprekstrarrétt eiga á Kolbeinsdalsafrétt,  fundurinn verði um 20. júní nk.  Þá var rætt um málefni Laufskálaréttar er varðaði nátthaga við réttina og bréf Landgræðslu ríkisins dags. 26. febr. 1999 þar um.  Þá kynnti Bjarni álitsgerð Stefáns Ólafssonar lögmanns er varðaði samning við bóndann á Laufskálum um land undir Laufskálarétt og afnot bóndans af nátthaga.  Vísast til álitsgerðarinnar um nánari atriði.  Samþykkt var að boða Árna Ragnarsson núverandi landeiganda á fund landbúnaðarnefndar.

3. Málefni Skarðsár í Sæmundarhlíð.  Á fund landbúnaðarnefndar var mætt Skarðsárnefnd, Birna Sigurbjörnsdóttir og Sigmar Jóhannsson formaður Skarðsárnefndar.  Þriðji maður í nefndinni er Skapti Steinbjörnsson sem sæti á í landbúnaðarnefnd.  Tilefni þess að Skarðsárnefnd var boðuð til fundar var bréf  sem barst landbúnaðarnefnd frá Sveitarfélaginu Skagafirði undirr. af Elsu Jónsdóttur skrifstofustjóra.  Þar er óskað umsagnar á bréfi dags. 5. maí 1999 undirritað af Jóni Brynjólfssyni og Grethe Have þar sem þau óska eftir að fá jörðina Skarðsá í Sæmundarhlíð keypta.  Bjarni kynnti afgreiðslu Skarðsárnefndar dags. 30. maí sl. undirr. af Sigmari Jóhannssyni, sem var eftirfarandi: 

“Nefndin getur ekki mælt með því að jörðin verði seld.  Með því sé hún að ganga á áðurgerðar samþykktir sem fyrrverandi hreppsnefnd Staðarhrepps samþykkti um afnot og umráðarétt af jörðinni, enda þinglýst sem kvöð á jörðinni Skarðsá”.

Allnokkur umræða varð um málefni Skarðsár.  Landbúnaðarnefnd samþykkir afgreiðslu Skarðsárnefndar.  Landbúnaðarnefnd vill benda á að með búsetu á Skarðsá myndi aukast mjög útgjöld fyrir sveitarfélagið í ýmsu formi.  Viku þau nú af fundi Birna og Sigmar.

 

4. Leiga á landi í eigu sveitarfélagsins.

a) Steinsstaðir í Lýtingsstaðahr. hinum forna.  Landbúnaðarnefnd hafði borist leigusamningur varðandi Steinsstaði, en Indriði Jóhannesson á Reykjum hefur haft þar land á leigu en samningur er útrunninn.  Indriði hefur óskað eftir að fá samninginn framlengdan.  Fleiri aðilar hafa lýst áhuga á að fá Steinsstðaland á leigu.  Landbúnaðarnefnd telur sig þurfa að fá nánari upplýsingar er varðar leigulandið á Steinsstöðum áður en hún geri tillögu í málinu.

b) Ásgarður – Kolkuós.  Þar er um að ræða stórt landssvæði (í eigu sveitarfélagsins) sem notað hefur verið til hrossabeitar af bændum í Viðvíkursveit undir stjórn fjallskilastjórnar.  Ljóst er að leggja þarf  í framkv. við girðingar á svæðinu sem kosta  5-6 hundr. þúsund.  Rætt var mjög um hvernig best væri að nýta landið og hvaða aðila væri best að fela umsjón.

 

5. Viðhald fjallskilamannvirkja og fjárhagsáætlun.  Rætt var um fjárhagsáætlun fjallskiladeilda og nýframkvæmdir.  Ljóst er að girðingar hafa farið mjög illa í vetur og mikið viðhald á þeim.  Samþykkt var að senda fjallskilanefndum bréf þar sem þeim er gerð grein fyrir fjárhagsáætlun og framkvæmdagetu á þessu ári.

 

6. Upprekstrarmál á Eyvindarstaðaheiði.  Kynntar yfirlýsingar frá þrem bændum í Lýtingsstaðahreppi þar sem þeir afsala sér upprekstrarrétti á Eyvindarstaðaheiði til Landgræðslu ríkisins.  Yfirlýsingarnar voru sendar til Landgræðslu ríkisins samkv. bréfi frá landbúnaðarnefnd þar um dags. 27. apríl 1999.  Svarbréf frá Landgræðslu ríkisins barst dags. 10. maí 1999.  Í svarbréfinu kemur ekki fram lögmæti yfirlýsinganna og í framhaldi af svarbréfinu var leitað til Stefáns Ólafssonar lögmanns samkv. bréfi dags. 27. maí 1999 þar sem óskað er eftir lögfræðilegri umsögn um réttmæti afsals á upprekstrarrétti til Landgræðslunnar frá bændum í Lýtingsstaðahreppi.

 

7. Endurskoðun Blöndusamnings.  Bjarni sagði frá fundi sem haldinn var í Blöndubúðum í apríl sl. þar sem rætt var um Blöndusamning og breytingar á honum.  Umræða er í gangi um að Vegagerð ríkisins fái að leggja veg yfir blöndustíflu og tæki þá við vegagerð og vegaviðhaldi um Bugu og niður Mælifellsdal, væri það mjög góður kostur.  Smári sagði frá fundi sem hann mætti á um endurskoðun Blöndusamnings með Landsvirkjun í Reykjavík í apríl sl. þar var m.a. rætt um landgræðslu svo og endurskoðun samningsins.  Bjarna og Smára falið að vinna í samvinnu við m.a. Bólhlíðinga um endurskoðun Blöndusamnings.


8. Bréf er borist hafa.

a) Lagt fram bréf frá Byggðarráði Skagafjarðar dags. 02.06.1999, þar sem til umfjöllunar voru 2 bréf er varðaði loðdýra bændur í Skagafirði og ósk um niðurfellingu fasteignagjalda af minka- og refaskálum vegna erfiðleika í rekstri loðdýrabúa.  Byggðarráð óskar eftir tillögum frá landbúnaðarnefnd um vanda loðdýrabænda.  Samþykkt var að boða forráðamenn Loðdýraræktarfél. Skagafjarðar á fund hjá landb.nefnd.

b) Kynnt bréf frá Hestam.fél. Léttfeta undirr. af Guðmundi Sveinssyni þar sem hestamannafélagið fagnar umræðum um byggingu reiðskemmu á Sauðárkróki.


9. Önnur mál, frestað.

 

Fleira ekki gert, fundi slitið kl. 1630.

 

Þórarinn Leifsson                                                      Sigurður Haraldsson

Símon Traustason

Skapti Steinbjörnsson

Smári Borgarsson

Bjarni Egilsson