Fara í efni

Byggðarráð Skagafjarðar

96. fundur 07. maí 2024 kl. 15:00 - 16:51 að Sæmundargötu 7a
Nefndarmenn
  • Einar Eðvald Einarsson formaður
  • Álfhildur Leifsdóttir aðalm.
  • Jóhanna Ey Harðardóttir áheyrnarftr.
  • Sólborg Sigurrós Borgarsdóttir varaform.
    Aðalmaður: Gísli Sigurðsson
Starfsmenn
  • Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri
Fundargerð ritaði: Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri
Dagskrá

1.Yfirferð yfir tillögur úr skýrslu HLH ráðgjafar

Málsnúmer 2403229Vakta málsnúmer

Undir þessum dagskrárlið mættu kjörnir nefndarmenn og áheyrnarfulltrúi atvinnu-, menningar- og kynningarnefndar, þau Sigurður Hauksson, Tinna Kristín Stefánsdóttir og Elínborg Erla Ásgeirsdóttir. Einnig kjörnir nefndarmenn og áheyrnarfulltrúi félagsmála- og tómstundanefndar, þau Sigurður Bjarni Rafnsson, Sigurlaug Vordís Eysteinsdóttir, Anna Lilja Guðmundsdóttir og sviðsstjóri fjölskyldusviðs, Bryndís Lilja Hallsdóttir. Farið var yfir tillögur úr skýrslu HLH ehf sem að nefndunum snúa og næstu skref í vinnunni rædd.
Byggðarráð samþykkir samhljóða að unnið verði áfram að innleiðingu tillagna úr skýrslunni og fjallað um framgang þeirra með reglubundnum hætti. Byggðarráð samþykkir jafnframt samhljóða að fá fulltrúa frá skipulagsnefnd inn á næsta fund ráðsins til að fjalla um tillögur sem að nefndinni snúa.

2.Uppbygging leikskólarýma á Sauðárkróki

Málsnúmer 2404250Vakta málsnúmer

Tekið fyrir minnisblað frá sviðsstjóra fjölskyldusviðs þar sem fjallað er um stöðu plássa á leikskólanum Ársölum. Miðað við núverandi stöðu má gera ráð fyrir að hægt verði að innrita öll börn sem hafa náð 12 mánaða aldri í haust og að aftur verði börn tekin inn eftir áramótin og mögulega verði þriðja aðlögun þegar líða fer að vori 2025. Oft bætast þó börn við á miðju skólaári og hefur það áhrif á biðlista yngstu barnanna. Í minnisblaðinu kemur jafnframt fram að ef huga á að fjölgun leikskólaplássa þarf að hafa í huga að deildirnar séu þannig skipulagðar að hægt sé að loka af rými inni á deildum til að vinna með börn í smærri hópum, í minna áreiti og jafnframt að horfa til þess að rými séu þannig hönnuð að stærð að starfsfólk nýtist til fulls miðað við fjölda barna. Yngra stig Ársala er með þremur deildum sem eru allar fremur litlar. Auk þess er aðstaða fyrir starfsmenn mjög þröng. Ef stækka á yngra stig þá verður að horfa til þess að bæta vinnuaðstöðu starfsfólks en einnig að horfa til þess hvort núverandi skipulag sé hentugt eða hvort endurhugsa þurfi allt skipulag þar innanhúss. Lóðin við yngra stig er afar skjólsæl og ánægja er með hana meðal starfsfólks og barna.
Jafnframt var rætt um hugmyndir um mögulega nýja leikskólabyggingu á Sauðárkróki og hvar heppilegasta staðsetning hennar gæti verið ef til nýbyggingar kæmi.
Byggðarráð samþykkir samhljóða að vísa málinu til faglegrar umsagnar fræðslunefndar, þ.e. hvor valkosturinn er heppilegri með hliðsjón af starfsemi og starfsumhverfi skólanna.

3.Ósk um beitarhólf á Sauðárkróki

Málsnúmer 2404085Vakta málsnúmer

Tekið fyrir erindi, dags. 10. apríl 2024, frá Irmu G. Magnúsdóttur þar sem hún óskar eftir hólfi til sumarbeitar á Sauðárkróki fyrir 3-6 vel tamda hesta.
Byggðarráð samþykkir samhljóða að fela umhverfis- og landbúnaðarfulltrúa að yfirfara kort um lönd sveitarfélagsins sem leigð hafa verið til sumarbeitar fyrir hross á Sauðárkróki og taka málið í kjölfarið að nýju fyrir á fundi ráðsins.

4.Gjaldskrá fyrir sorphirðu og sorpeyðingu 2024

Málsnúmer 2310015Vakta málsnúmer

Erindinu vísað frá 2. fundi landbúnaðar- og innviðanefndar 3. maí 2024, þannig bókað:
"Valur Valsson, verkefnastjóri hjá veitu og framkvæmdarsviði fór yfir stöðu sorpmála og hvernig til hefur tekist frá því nýtt sorpsöfnunarkerfi með fjórum tunnum við hvert heimili var tekið í notkun 1. apríl 2023. Í heild hefur gengið vel og sé sorpmagnið sem kom frá heimilum og fyrirtækjum árið 2023 borið saman við urðað magn árin þar á undan kemur fram augljós lækkun á urðuðum úrgangi. Stærsta ástæða þess er aukin flokkun hjá bæði heimilum og fyrirtækjum. Eins benda tölur frá fyrsta ársfjórðungi þessa árs til áframhaldandi lækkunar á urðuðu magni úrgangs. Á móti aukast tölur um sérsöfnun á plasti, pappa og lífrænum úrgangi. Niðurstöður af rekstri málaflokksins frá árinu 2023 liggja einnig fyrir ásamt nýlegri ákvörðun Úrvinnslusjóðs um aukið endurgreiðsluhlutfall vegna sérstakrar söfnunar á árinu 2023 og fyrir árið 2024.
Landbúnaðar- og innviðanefnd fagnar mjög þessum góða árangri sem þegar hefur náðst á fyrsta árinu með nýtt flokkunarkerfi og leggur til að gjald vegna reksturs söfnunarstöðva vegna íbúðarhúsnæðis, í gjaldskrá fyrir sorphirðu og sorpeyðingu í Skagafirði, lækki um 9,85%, sem er 3.500 kr. lækkun á gjaldinu frá og með 1. janúar 2024.
Með hliðsjón af áætlaðri verðlagsbreytingu (7%) á milli áranna 2023 og 2024 gæti þetta numið um 10% lækkun á sorpgjöldum heimila árið 2024 þegar á heildina er litið.
Landbúnaðar- og innviðanefnd samþykkir með þremur atkvæðum að leggja til við byggðarráð að gjaldskrá fyrir sorphirðu og sorpeyðingu í Skagafirði verði breytt samkvæmt því sem að framan greinir."
Byggðarráð fagnar góðum árangri í flokkun á sorpi frá heimilum í Skagafirði sem skapar forsendur fyrir lækkun gjalda. Byggðarráð samþykkir samhljóða tillögu landbúnaðar- og innviðanefndar um lækkun á gjaldskrá fyrir sorphirðu og sorpeyðingu í Skagafirði og vísar henni til afgreiðslu sveitarstjórnar.

5.Samráð; Skilvirkari leyfisveitingar á sviði umhverfis- og orkumála

Málsnúmer 2404179Vakta málsnúmer

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 94/2024, "Skilvirkari leyfisveitingar á sviði umhverfis- og orkumála". Umsagnarfrestur er til og með 10.05. 2024.
Meirihluti byggðarráðs, Einar E. Einarsson og Sólborg S. Borgarsdóttir, samþykkja eftirfarandi umsögn:
Byggðarráð Skagafjarðar fagnar því að stofnað hafi verið verkefnisteymi til að yfirfara núverandi ferla í leyfisveitingum á sviði umhverfis- og orkumála á Íslandi. Skagafjörður er eitt af þeim svæðum þar sem framboð af orku er takmarkað og skýrist það bæði af andstöðu og hægagangi Rammaáætlunar við þá virkjanakosti sem hér eru í boði ásamt því að megin flutningskerfi raforku til fjarðarins úr bæði austri og vestri er takmarkandi vegna aldurs og burðargetu núverandi lína. Þeir virkjanakostir sem hér hafa verð ræddir, hafa lengi verið í vinnslu hjá Rammaáætlun án þess að þeirri vinnslu hafi nokkurn tímann lokið endanlega samkvæmt gildandi lögum, en niðurstöður faghópa nr. 3 og 4 hafa aldrei komið fram um virkjunarkostina í Héraðsvötnum. Faghópi 3 var ætlað samkvæmt lögum að meta virkjunarkosti og landsvæði með tilliti til áhrifa þeirra á samfélagið og faghópi 4 var ætlað greina hagkvæmni virkjunarkosta og kostnaðarflokka. Það verða að teljast afleitir ferlar sem settir eru í gang samanber Rammaáætlun ef þeir síðan klárast ekki með heildstæðri niðurstöðu samkvæmt þeim reglum sem lagt er upp með. Eins þurfa matsferlar eins og Rammaáætlun að hafa skilgreind tímamörk svo þeir geti ekki verið í vinnslu árum saman án heildstæðrar niðurstöðu.
Eins má benda á að nú eru hátt í 20 ár síðan vinna við lagningu nýrrar byggðalínu frá Blöndu til Akureyrar hófst. Á þessum tíma hefur margt breyst og umræðan farið í ótal hringi og því miður sér ekki enn þá fyrir endann á þeirri vinnu eða lagningu línunnar. Ástæður fyrir þessum töfum eru fleiri en ein og snúa bæði að mismunandi skoðunum á legu línunnar en ekki síður þeirri staðreynd að hönnunar- og kynningaferlar eru langir og fara þá gjarnan á milli kjörtímabila með tilheyrandi seinkunum og hækkuðu flækjustigi og kostnaði. Það er skoðun okkar að mikilvægir innviðir eins og megin flutningskerfi raforku, þjóðvegakerfið og jafnvel hafnir ættu að ákvarðast af stjórnvöldum með Landsskipulagi þar sem horft væri á hagsmuni þjóðarinnar í heild.

6.Ársfundur - Náttúruhamfaratrygging Íslands

Málsnúmer 2405007Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar boð til sveitarstjórnarmanna um að mæta á ársfund Náttúruhamfaratryggingar Íslands fimmtudaginn 16. maí á Grand hótel í Reykjavík.

Fundi slitið - kl. 16:51.