Fara í efni

Byggðarráð Skagafjarðar

44. fundur 17. apríl 2023 kl. 12:00 - 14:04 að Sæmundargötu 7a
Nefndarmenn
  • Einar Eðvald Einarsson formaður
  • Sólborg Sigurrós Borgarsdóttir varaform.
  • Álfhildur Leifsdóttir aðalm.
  • Jóhanna Ey Harðardóttir áheyrnarftr.
Starfsmenn
  • Friðrik Margeir Friðriksson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
  • Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri
Fundargerð ritaði: Margeir Friðriksson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
Dagskrá

1.Ársreikningur 2022

Málsnúmer 2301059Vakta málsnúmer

Undir þessum dagskrárlið kom Kristján Jónasson endurskoðandi frá KPMG til fundarins. Öllum kjörnum sveitarstjórnarfulltrúum sem ekki sitja í byggðarráði, var boðið að vera viðstödd kynningu hans. Sigurlaug Vordís Eysteinsdóttir, Guðlaugur Skúlason, Sveinn F. Úlfarsson sátu fundinn undir þessum dagskrárlið auk Hrefnu Jóhannesdóttur sem tók þátt í fundinum í gegnum fjarfundabúnað.
Rekstrartekjur sveitarfélagsins á árinu 2022 námu 7.975,9 millj. kr. samkvæmt samanteknum ársreikningi fyrir A og B hluta, þar af námu rekstrartekjur A hluta 6.566,8 millj. kr. Rekstrarniðurstaða sveitarfélagsins samkvæmt samanteknum ársreikningi A og B hluta var neikvæð um 55,3 millj. kr. en neikvæð í A hluta um 210,6 millj. kr. Eigið fé sveitarfélagsins í árslok 2022 nam 3.843,2 millj. kr. samkvæmt efnahagsreikningi, en eigið fé A hluta nam 2.028,3 millj. kr.
Byggðarráð samþykkir að vísa ársreikningnum til fyrri umræðu í sveitarstjórn.

2.Stjórnsýsluskoðun Skagafjarðar 2022

Málsnúmer 2304045Vakta málsnúmer

Lögð fram skýrsla KPMG frá 13. apríl 2023 varðandi stjórsýsluskoðun hjá sveitarfélaginu vegna ársins 2022.

3.Skólahald á Hólum

Málsnúmer 2304013Vakta málsnúmer

Lögð fram svohljóðandi bókun 13. fundar fræðslunefndar frá 12. apríl 2023:
"Samkvæmt lögum nr. 91/2008 um grunnskóla er hlutverk grunnskóla, í samvinnu við heimilin, að stuðla að alhliða þroska allra nemenda og þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi sem er í sífelldri þróun. Aðalnámskrá grunnskóla er rammi um skólastarfið og veitir sveitarfélögum og skólum leiðsögn um framkvæmd skólastarfsins. Fyrir utan ákvæði um almenna menntun sem og greinabundna menntun veitir aðalnámskrá leiðsögn um hvernig skólum ber að tryggja heilbrigði og velferð nemenda sem byggir á andlegri, líkamlegri og félagslegri vellíðan.
Nám og námsaðferðir nemenda eru einstaklingsbundnar og geta verið mismunandi. Allir þurfa tækifæri til að njóta styrkleika sinna sem er lykilþáttur í að byggja upp jákvæða sjálfsmynd. Leikur og samskipti við samnemendur er jafnframt mikilvæg námsaðferð sem opnar víddir sköpunargleði barna og ungmenna og hjálpar þeim að finna hæfileikum sínum farveg. Þá eru samskipti, samtal og speglun eigin skoðana og viðhorfa afar mikilvægur þáttur í námi og þroska.
Í ljósi fækkunar nemenda á miðstigi við Grunnskólann austan Vatna á Hólum þykir ljóst að erfitt er að veita nemendum þar viðeigandi tækifæri til að þroska ofangreinda þætti sem og tryggja þeim þá greinabundnu menntun sem þeir eiga rétt á.
Með hliðsjón af þessu leggur fræðslunefnd til að miðstig Grunnskólans austan Vatna á Hólum verði sameinað við miðstigið á Hofsósi og að kennsla muni því eingöngu fara fram á Hofsósi. Lagt er til að ákvörðun þessi taki gildi við upphaf næsta skólaárs, þ.e. 2023-2024. Yngsta stig skólans verði áfram á báðum stöðum, Hofsósi og Hólum. Fræðslunefnd mun skoða hvernig skólastarfi verður best fyrir komið á Hólum og hvort eða hvernig hægt verði að auka samstarf á milli leik - og grunnskóla. Nefndin vísar málinu til byggðaráðs."
Byggðarráð samþykkir tillögu fræðslunefndar um að miðstig Grunnskólans austan Vatna á Hólum verði sameinað við miðstigið á Hofsósi og að kennsla á miðstigi muni því eingöngu fara fram á Hofsósi og breytingin taki gildi við upphaf næsta skólaárs.
Byggðarráð samþykkir að vísa málinu til afgreiðslu sveitarstjórnar.

4.Félagsþjónusta - sumarafleysingar 2023

Málsnúmer 2304019Vakta málsnúmer

Lögð fram svohljóðandi bókun 11. fundar félagsmála- og tómstundanefndar frá 13. apríl 2023:
"Lagt fram minnisblað frá félagsmálastjóra um sumarorlof starfsmanna og stöðu afleysinga innan starfsstöðva félagsþjónustu sumarið 2023. Um er að ræða lögbundna þjónustu við fatlað fólk og eldi borgara. Erfiðlega hefur gengið að manna sumarafleysingar sérstaklega á Sauðárkróki, staðan er afleit fjórða árið í röð. Ef fer sem horfir gæti þurft að fresta orlofi starfsmanna og skerða þjónustu í Skagafirði sem hefði í för með sér neikvæð áhrif á líðan notenda, aðstandenda og starfsmanna. Nefndin leggur áherslu á að nú þegar verði farið í vinnu við lausnarmiðaða aðgerðaráætlun með það að markmiði að koma á stöðugleika í mannahaldi og sumarafleysingu. Áætlun þarf að liggja fyrir á næstu vikum svo hægt sé að bregðast við fyrir komandi sumar. Vísað til byggðaráðs."
Byggðarráð tekur undir áhyggjur nefndarinnar af erfiðleikum með að manna starfsstöðvar í félagsþjónustu í sumar. Um er að ræða viðkvæma starfsemi sem æskilegt er að raskist sem minnst. Það vekur jafnframt áhyggjur að almennt virðist erfitt að ráða fólk til starfa í ýmis þjónustustörf og einskorðast þeir erfiðleikar ekki við starfsemi sveitarfélaga. Mikil eftirspurn er eftir fólki í hin ýmsu störf í atvinnulífi Skagafjarðar. Í þessu ljósi er byggðarráð meðvitað um að það kunni að koma til skerðingar á þjónustu þótt vilji sé til að forðast það í lengstu lög og lítur á það sem neyðarúrræði. Byggðarráð felur sviðsstjóra og félagsmálastjóra í samvinnu við forstöðumenn stofnana og mannauðsstjóra að vinna áfram að úrræðum hvað varðar mönnun og sumarleyfi starfsmanna. Í þeirri vinnu verði horft til forgangsröðunar verkefna og möguleika á frestun þeirra sem og tilfærslu starfsmanna.

5.Reglur Barnaverndarþjónustu Mið - Norðurlands um veitingu fjárstyrks til g.r lögmannskostnað

Málsnúmer 2302256Vakta málsnúmer

Lögð fram svohljóðandi bókun 11. fundar félagsmála- og tómstundanefndar frá 13. apríl 2023:
"Lögð fram drög að reglum Barnaverndarþjónustu Mið-Norðurlands um veitingu fjárstyrks til greiðslu lögmannskostnaðar sbr. 47. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.
Reglurnar voru kynntar á fundi framkvæmdaráðs um barnavernd á Mið-Norðurlandi 16.mars sl. og fara til afgreiðslu hjá hverri sveitarstjórn aðildarfélaga barnaverndarþjónusu Mið-Norðurlands. Félagsmála- og tómstundanefnd samþykkir reglurnar fyrir sitt leiti og vísar þeim til byggðaráðs."
Byggðarráð samþykkir fyrirliggjandi reglur og vísar þeim til afgreiðslu sveitarstjórnar.

Fundi slitið - kl. 14:04.