Fara í efni

Byggðarráð Skagafjarðar

15. fundur 28. september 2022 kl. 12:00 - 13:58 að Sæmundargötu 7a
Nefndarmenn
  • Einar Eðvald Einarsson formaður
  • Gísli Sigurðsson varaform.
  • Álfhildur Leifsdóttir aðalm.
  • Sveinn Þ. Finster Úlfarsson varam. áheyrnarftr.
    Aðalmaður: Jóhanna Ey Harðardóttir
Starfsmenn
  • Friðrik Margeir Friðriksson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
  • Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri
Fundargerð ritaði: Margeir Friðriksson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
Dagskrá

1.Atvinnuuppbygging í Skagafirði

Málsnúmer 2209030Vakta málsnúmer

Magnús Barðdal atvinnuráðgjafi hjá SSNV kom til fundar við byggðarráð til að ræða tækifæri í atvinnuuppbyggingu í Skagafirði og áhersluverkefni.

2.Framtíð og skipulag útkallseininga í Skagafirði

Málsnúmer 2209285Vakta málsnúmer

Svavar Atli Birgisson slökkviliðsstjóri kom til fundar til að ræða framtíð og skipulag útkallseininga í Skagafirði. Mjög erfiðlega hefur gengið að manna útstöð slökkviliðsins á Hofsósi undanfarin ár svo ásættanlegt sé m.t.t. viðbragðs og þjónustu sem slík mönnun krefst. Búið er að auglýsa ítrekað eftir mannskap án árangurs. Er svo komið að útkallseiningin er nær óstarfhæf og gefur falskt öryggi fyrir íbúa á þjónustusvæðinu. Slökkvibifreiðin þar er í góðu lagi. Slökkvibifreiðin í Varmahlíð er ónýt og má því segja að báðar útkallseiningar séu óstarfhæfar í dag. Einn valkosturinn í stöðunni í dag er að færa bifreiðina á Hofsósi til Varmahlíðar og/eða að kaupa bifreið, en þá þarf að vera trygg mönnun á útkallseiningum.
Byggðarráð hefur áhyggjur af stöðu mála og felur sveitarstjóra og slökkviliðsstjóra að vinna að tillögu í málinu.

3.Fjárhagsáætlun Skagafjarðar 2023-2026

Málsnúmer 2208220Vakta málsnúmer

Lagður fram fjárhagsrammi fyrir rekstraráætlun ársins 2023.
Byggðarráð samþykkir að vísa fjárhagsrammanum til afgreiðslu sveitarstjórnar.

4.Skagafjörður (5716), fjárhagsáætlun 2022, viðauki 2

Málsnúmer 2209290Vakta málsnúmer

Lagður fram viðauki 2 við fjárhagsáætlun ársins 2022. Viðaukinn myndar aukinn rekstrarafgang samstæðu sveitarfélagsins að fjárhæð 54.972 þkr. Fjármagn til fjárfestinga er aukið um 140 mkr. Gerðar eru millifærslur milli fjárfestingaverkefna ársins og veitt heimild til eignasjóðs til sölu fasteignar. Viðaukanum mætt með lækkun handbærs fjár að fjárhæð 86.105 þkr.
Byggðarráð samþykkir að vísa viðaukanum til afgreiðslu sveitarstjórnar.

5.Beiðni um fjárhagsstuðning um kaup á nýju björgunarskipi

Málsnúmer 2209243Vakta málsnúmer

Lagt fram bréf dagsett 19. september 2022 frá Björgunarbátasjóði Norðurlands varðandi ósk um fjárhagsstuðning við kaup á nýju björgunarskipi. Óskað er eftir að forsvarsmaður sjóðsins, Kolbeinn Óttarsson Proppé fái að koma á fund byggðarráðs til þess að kynna verkefnið betur, fjárþörfina og leiðir til að dreifa fjárhagsstuðningi yfir lengri tíma.
Byggðarráð samþykkir að fela sveitarstjóra að bjóða fulltrúa sjóðsins á næsta fund ráðsins.

6.Starfshópur vegna nýtingu vindorku

Málsnúmer 2208214Vakta málsnúmer

Lagður fram tölvupóstur dagsettur 23. ágúst 2022 til sveitarfélaga og samtaka þeirra. Með skipunarbréfi dags. 11. júlí sl. voru Hilmar Gunnlaugsson lögmaður, Björt Ólafsdóttir fyrrv. ráðherra og Kolbeinn Óttarsson Proppé fyrrv. alþingismaður skipuð í starfshóp til að skoða og gera tillögur til ráðuneytisins um nýtingu vindorku. Með hópnum starfar Hafsteinn S. Hafsteinsson, lögfræðingur í umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu. Er sveitarfélögum boðið að senda sjónarmið sín um málefnið til starfshópsins.
Byggðarráð Skagafjarðar leggur áherslu á að vindorkugarðar, a.m.k. yfir ákveðnu umfangi, falli undir rammaáætlun í því skyni að fram fari vandaður undirbúningur og rannsóknir á áhrifum slíkra garða. Byggðarráð brýnir þó fyrir stjórnvöldum að leggja aukinn kraft í vinnslu rammaáætlunar og gera hana markvissari, en undanfarin ár hefur vinnsluferlið tekið allt of langan tíma og endanleg staðfesting Alþingis einnig. Við gerð rammaáætlunnar verður líka að hafa í huga orkuframboð í mismunandi landshlutum og getu flutningskerfisins gagnvart byggðinni í landinu.
Skynsamlegt er að framleiðsla vindorku verði sem næst því flutningskerfi sem byggt hefur verið upp og byggt verður upp. Þar með er jafnframt betur tryggt ákveðið samspil eða sveiflujöfnun á milli vatnsafls og vindorku.
Skipulagsvaldið er einn af hornsteinum sjálfsstjórnarréttar sveitarfélaga sem ber að virða. Til greina kemur þó að skoða að brýnir þjóðhagslegir innviðir, s.s. flutningskerfi raforku og framleiðsla hennar, falli undir landskipulag til að tryggja að horft verði á þessa tvo stóru þætti í samhengi. Það gengur ekki að ákveðin svæði geti lent í því að fá hvorki að virkja vatnsafl né vindorku og að flutningur orku inn á þau svæði sé þar að auki takmarkaður vegna lélegra flutningskerfa. Stjórnvöldum ber að stuðla að orkuskiptum og tryggja að samfélög vítt og breytt um landið geti vaxið og dafnað og þá er nauðsynlegt að flutningur á endurnýjanlegri orku geti farið fram með öruggum hætti. Með þeim hætti er einnig tryggt að ákveðnir landshlutar verði ekki útundan í afhendingu raforku en undanfarna áratugi hafa einstök svæði í námunda við orkuframleiðslu byggst hraðar upp en önnur sem ekki hafa fengið heimild til virkjana náttúruauðlinda.
Jafnframt leggur byggðarráð Skagafjarðar áherslu á að jafna þurfi betur tekjur sem sveitarfélög hafa af mannvirkjum sem nýtt eru til orkuframleiðslu og dreifingar og áskilur sér rétt til frekari viðbragða á síðari stigum málsins.

Álfhildur Leifsdóttir (Vg og óháð) óskar bókað að mikilvægt sé að vindorkugarðar falli undir rammaáætlun en situr að öðru leiti hjá afgreiðslu málsins.

7.Kaffi Krókur Aðalgata 16 (213-1131) Umsagnarbeiðni vegna rekstrarleyfis

Málsnúmer 2209275Vakta málsnúmer

Lögð fram umsagnarbeiðni frá embætti sýslumannsins á Norðurlandi vestra, málsnúmer 2022-039575, dagsett 22. september 2022. Videosport ehf., kt. 470201-2150, sækir um leyfi til reksturs, Veitingaleyfi-B Skemmtistaður, vegna Kaffi Króks, Aðalgötu 16 (F213-1131), 550 Sauðárkróki.
Byggðarráð gerir ekki athugasemdir við umsóknina.

8.Afgreiðsla tækifærisleyfa

Málsnúmer 2209258Vakta málsnúmer

Byggðarráð Skagafjarðar samþykkir að gefa sveitarstjóra og staðgengli hans fullnaðarheimild til þess að afgreiða umsóknir um tækifærisleyfi fyrir hönd sveitarfélagsins.

9.Samtaka um hringrásarhagkerfi - réttur farvegur til framtíðar

Málsnúmer 2209256Vakta málsnúmer

Lagður fram til kynningar tölvupóstur frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga til sveitarfélaga og landshlutasamtaka í átakinu "Samtaka um hringrásarhagkerfi", dagsettur 20. september 2022.

10.Fjármálaráðstefna 2022

Málsnúmer 2209050Vakta málsnúmer

Lagður fram til kynningar tölvupóstur frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, dagsettur 23. september 2022 varðandi skráningu þátttakenda á fjármálaráðstefnu 2022 sem haldin verður 13. og 14. október n.k.

11.Stofnframlög ríkisins - opið fyrir umsóknir

Málsnúmer 2209257Vakta málsnúmer

Lagður fram til kynningar tölvupóstur dagsettur 20. september 2022 frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun þar sem tilkynnt er um að umsóknarfrestur um síðari úthlutun ársins á stofnframlögum ríkisins sé til 16. október 2022.

12.Sameiginleg áskorun vegna fasteignagjalda

Málsnúmer 2209259Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar sameiginleg áskorun Félags atvinnurekenda, Húseigendafélagsins og Landssambands eldri borgara, dagsett 21. september 2022, til ríkis og sveitarfélaga. Húseigendafélagið, Landssamband eldri borgara og Félag atvinnurekenda skora á ríki og sveitarfélög að grípa til aðgerða til að hindra að gífurlegar verðhækkanir á fasteignamarkaði leiði til mikilla hækkana fasteignagjalda á eignir fólks og fyrirtækja. Húseigendafélagið, Landssamband eldri borgara og Félag atvinnurekenda skora á Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra og Sigurð Inga Jóhannsson ráðherra sveitarstjórnarmála að beita sér fyrir viðræðum við sveitarfélögin og hagsmunaaðila um að breyta lögum um fasteignamat og tekjustofna sveitarfélaga og koma á gegnsærra og sanngjarnara kerfi.

13.Skógræktarfélag Íslands - ályktun frá aðalfundi

Málsnúmer 2209282Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar bréf dagsett 22. september 2022 frá Skógræktarfélagi Íslands. Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands, haldinn í Mosfellsbæ dagana 2.-4. september 2022, skorar á sveitarstjórnir landsins að vinna að skipulagsáætlunum í takt við stefnu stjórnvalda um skógrækt á landsvísu og eru sveitarfélög hvött til að koma sér upp skilvirkum verkferlum og forðast óþarfa tafir og kostnað við afgreiðslu framkvæmdaleyfa vegna skógræktar.

Fundi slitið - kl. 13:58.