Fara í efni

Bjarni Haraldsson útnefndur heiðursborgari Sveitarfélagsins Skagafjarðar

01.07.2019
Bjarni Haraldsson, heiðursborgari Sveitarfélagsins Skagafjarðar, ásamt Stefáni Vagni Stefánssyni, formanni byggðaráðs, Gísla Sigurðssyni, varaformanni byggðaráðs og Regínu Valdimarsdóttur, forseta sveitarstjórnar. Mynd: Feykir.is PF.

Sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar hefur útnefnt Bjarna Haraldsson heiðursborgara sveitarfélagsins. Bjarni, betur þekktur sem Bjarni Har, er jafnframt fyrsti heiðursborgari Sveitarfélagsins Skagafjarðar. Jón Þ. Björnsson, Eyþór Stefánsson og Sveinn Guðmundsson höfðu hlotið heiðursborgaranafnbótina í tíð Sauðárkrókskaupstaðar. Í ár eru 100 ár frá stofnun Verzlunar Haraldar Júlíussonar á Sauðárkróki, en Bjarni tók við rekstri verslunarinnar af föður sínum, Haraldi Júlíussyni árið 1973. Í tilefni af afmælinu var blásið til glæsilegrar veislu við verslunina á laugardaginn sl. þar sem í boði var skagfirskur tónlistarflutningur, boðið var upp á grillaðar pylsur og tertu og flutt voru ávörp Bjarna til heiðurs. Mikið fjölmenni mætti til veislunnar, bæði heimafólk, brottfluttir Skagfirðingar sem og aðrir gestir. Það var Gísli Sigurðsson, varaformaður Byggðarráðs sem veitti Bjarna heiðursviðurkenninguna.

Sveitarstjórn Skagafjarðar samþykkti eftirfarandi tillögu um Bjarna:

Bjarni Haraldsson, kaupmaður og bílstjóri, fæddist árið 1930 á Sauðárkróki og ólst þar upp. Bjarni hóf bifreiðaakstur ungur að árum er hann tók bílprófið árið 1948 og ók hann fyrst norðurleiðarrútu fyrir Norðurleið hf. á leiðinni Akureyri - Reykjavík. Árið 1954 stofnaði hann og rak sitt eigið vöruflutningafyrirtæki og tók að sér flutninga milli Sauðárkróks og Reykjavíkur. Bjarni fór að vinna innanbúðar með föður sínum í Verslun Haralds Júlíssonar árið 1959 og þegar faðir hans féll frá árið 1973 tók hann við verslunarrekstrinum sem hann hefur starfrækt síðan. Verslun Haralds Júlíssonar, sem í daglegu tali er nú oft kölluð verslun Bjarna Har. er fyrir löngu orðin mikilvægur þáttur í menningarlífi Sauðárkróks og í ímynd allra Skagfirðinga sem dregur ferðamenn að enda fáar ef nokkrar búðir sem hans eftir á Íslandi. Alkunnur er húmor Bjarna og tilsvör hans orðin landsþekkt, en Bjarni er með ríka þjónustulund og hefur gaman af því að spjalla við fólk og greiða götur þess. Með því að sæma Bjarna Haraldsson heiðursborgaratitli vill Sveitafélagið Skagafjörður þakka Bjarna fyrir hans framlag til verslunar- og þjónustureksturs til íbúa sveitarfélagsins og gesta í um 70 ár og fyrir að gera Skagfirskt samfélag enn betra.