Fara í efni

Umsagnarbeiðni; Frumvarp til laga um veiðigjald (aflaverðmæti í reiknistofni)

Málsnúmer 2505135

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Skagafjarðar - 147. fundur - 21.05.2025

Lagt fram til umsagnar frumvarp til laga um veiðigjald (aflaverðmæti í reiknistofni), 351. mál, frá atvinnuveganefnd Alþingis. Umsagnarfrestur er til og með 26. maí nk.
Byggðarráð gerir eftirfarandi athugasemdir við frumvarpið og efnisatriði greinargerðar þess.
Í greinargerðinni kemur fram að tvöföldun veiðigjalda „muni hafa óveruleg áhrif á þau byggðarlög þar sem sjávarútvegsfyrirtæki eru staðsett“. Jafnframt kemur fram að tölur sem fram koma í greinargerðinni séu birtar með þeim fyrirvara „að þær byggjast á upplýsingum um hvar greiðendur veiðigjalds eru með heimilisfesti og endurspegla... því ekki nákvæmlega hvar starfsemi greiðenda veiðigjalds fer fram eða hvar starfsfólk fyrirtækja sem greiða veiðigjald er með skráð lögheimili og greiðir útsvar“. Byggðarráð leggur áherslu á nauðsyn þess að greina hvar starfsemi greiðenda veiðigjalds fer fram og hvar starfsfólk þeirra fyrirtækja er með skráð lögheimili og greiðir sitt útsvar. Eingöngu með þeim hætti er hægt að átta sig á raunverulegum áhrifum tvöföldunar veiðigjalda. Greining sem KPMG hefur unnið fyrir Samtök sjávarútvegssveitarfélaga sýnir vel fram á að hækkun veiðigjalda getur haft afdrifarík áhrif á einstaka byggðakjarna.
Jafnframt kemur fram í greinargerð frumvarpsins að komi til þess að einstakir greiðendur veiðigjalda taki ákvörðun um breytingar í rekstri sínum sem kunni að leiða til fækkunar starfa, sem þar af leiðandi skilar sér í lægra útsvari til sveitarfélaga, „þá verður að telja að slík ákvörðun sé ávallt byggð á viðskiptalegum grunni, en ekki vegna breytinga á viðmiði við útreikning reiknistofns að baki veiðigjaldi“. Byggðarráð bendir á að krafa um aukna hagræðingu og framlegð hefur áður haft afgerandi áhrif á fjölda starfa í veiðum og vinnslu og þ.a.l. á íbúafjölda og afkomu samfélaga vítt og breytt um landið. Líkur eru á að boðuð hækkun veiðigjalda geti leitt til hagræðingar og/eða samþjöppunar aflaheimilda sem getur haft bein áhrif á byggðaþróun.
Í mati á jafnréttisáhrifum frumvarpsins kemur fram að ekki sé talið að það hafi mælanleg áhrif á jafnrétti kynjanna og að ekki verði farið í rannsóknir til að afla slíkra gagna. Byggðarráð gerir athugasemd við þennan skort á greiningu þar sem fyrir liggur að stór hluti starfa í fiskvinnslu á Íslandi er unninn af konum, mörgum hverjum af erlendum uppruna. Ljóst er að greina þarf möguleg áhrif afleiðinga frumvarpsins á störf við fiskvinnslu á Íslandi og jafnrétti kynjanna.
Byggðarráð Skagafjarðar telur að möguleg áhrif tvöföldunar veiðigjalda á byggðir vítt og breytt um landið geti haft það í för með sér að grafið verði undan rekstrarhæfni útgerða í brothættum byggðum, bein og óbein umsvif minnki og störfum fækki sem getur leitt til þess að sveitarfélög missi verulegar tekjur, m.a. í formi útsvars og hafnargjalda.
Byggðarráð Skagafjarðar kallar eftir að ítarleg greining fari fram á raunverulegum áhrifum hækkunar veiðigjalda á einstök sveitarfélög og byggðarlög áður en þinglegri meðferð frumvarpsins lýkur. Einnig að unnin verði sérstök greining á áhrifum hækkaðra veiðigjalda á lítil og meðalstór fyrirtæki því líkur eru á að talsverður fjöldi slíkra fyrirtækja verði fyrir verulegum áhrifum af boðuðum breytingum, svo miklum að það ógni tilvistargrundvelli margra þeirra. Jafnframt tekur byggðarráð undir með Samtökum sjávarútvegssveitarfélaga um að frumvarpinu verði breytt í þá veru að stigin verði minni skref í átt til hækkunar veiðigjalda og þau tekin yfir lengri tíma. Það dregur úr líkum á skyndilegri röskun á atvinnulífi og tekjugrunni sveitarfélaga, eykur fyrirsjáanleika og gefur sveitarfélögum og fyrirtækjum svigrúm til að greina áhrifin og aðlagast og minnkar hættu á samdrætti og fækkun starfa með tilheyrandi afleiðingum á byggðafestu.