Fara í efni

Atvinnu-, menningar- og kynningarnefnd Svf Skagafjarðar

22. fundur 28. ágúst 2015 kl. 08:00 - 09:33 í Ráðhúsi, Skr.
Nefndarmenn
  • Gunnsteinn Björnsson formaður
  • Viggó Jónsson varaform.
  • Hanna Þrúður Þórðardóttir ritari
  • Steinunn Rósa Guðmundsdóttir áheyrnarftr.
Starfsmenn
  • Sigfús Ingi Sigfússon verkefnastjóri
  • Laufey Kristín Skúladóttir verkefnastjóri
Fundargerð ritaði: Sigfús Ingi Sigfússon Verkefnastjóri
Dagskrá

1.Brothættar byggðir

Málsnúmer 1405059Vakta málsnúmer

Á fundi atvinnu-, menningar- og kynningarnefndar Sveitarfélagsins Skagafjarðar 12. maí 2014 var kynnt verkefnið "Brothættar byggðir" sem stýrt er af Byggðastofnun. Hefur verkefnið m.a. það að markmiði að leiða fram skoðanir íbúanna sjálfra á framtíðarmöguleikum heimabyggðarinnar og leita lausna á þeirra forsendum í samvinnu við ríkisvaldið, landshlutasamtök, atvinnuþróunarfélag, sveitarfélagið, brottflutta íbúa og aðra. Var samþykkt á fundinum að fela starfsmanni nefndarinnar að ganga frá umsókn í verkefnið vegna Hofsóss og óska eftir samstarfi við landshlutasamtökin SSNV vegna þess.

Var slík umsókn send til Byggðastofnunar 14. maí 2014.

Á fundi atvinnu-, kynningar- og menningarnefndar 15. október 2014 var kynntur fyrirhugaður fundur sem Byggðastofnun stóð að um verkefnið 21. október. Á þann fund mættu fulltrúar allra flokka í sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar. Á fundinum komu fram góð orð fulltrúa Byggðastofnunar í garð umsóknar sveitarfélagsins og einnig það að allar umsóknir myndu verða teknar inn í verkefnið en fjárveitingar til þess myndu hafa um það að segja hvenær verkefnin kæmust inn.

Þann 26. júní 2015 barst svo svarbréf frá Byggðastofnun við umsókn Sveitarfélagsins Skagafjarðar. Þar kom fram að á stjórnarfundi stofnunarinnar hefði verið samþykkt að taka inn þrjú ný byggðarlög á Norðurlandi eystra inn í verkefnið því það væri mat stofnunarinnar að þörfin fyrir verkefnið væri brýnust í þessum byggðarlögum út frá þeim mælikvörðum sem unnið hefur verið að til að meta stöðu byggðarlaga á sem hlutlægastan hátt. Jafnframt kom fram í svarbréfinu að ekki væri unnt að gefa loforð um að hægt væri að taka fleiri byggðarlög inn í verkefnið að svo stöddu. Framhaldið yrði metið þegar liði á árið 2016 og færi þá eftir því hvort viðbótarfjármagn yrði tryggt til verkefnisins. Þegar grennslast var fyrir um röðun byggðarlaga út frá mælikvörðum Byggðastofnunar kom í ljós að Hofsós lenti í tíunda sæti af tólf byggðarlögum.

Atvinnu-, menningar- og kynningarnefnd lýsir yfir vonbrigðum með naumt skammtaðar fjárveitingar sem veittar eru til verkefnisins Brothættar byggðir og óskar eftir að stjórn Byggðastofnunar beiti sér með Sveitarfélaginu Skagafirði í því að auknum fjármunum verði varið til þessa brýna verkefnis svo unnt verði að taka Hofsós og fleiri byggðarlög þar inn. Stjórnvöldum og stofnuninni ber að leita allra úrræða til að vinna með heimamönnum að því að styrkja byggð á Hofsósi og öðrum byggðarlögum sem hafa átt undir högg að sækja á undanförnum árum. Umrædd afgreiðsla Byggðastofnunar er enn eitt dæmið um það hversu Norðurland vestra er sniðgengið í fjárveitingum hins opinbera.

Atvinnu-, menningar- og kynningarnefnd óskar eftir að fulltrúi Byggðastofnunar mæti til fundar nefndarinnar og felur starfsmönnum að leita eftir fundartíma þar að lútandi.

2.Tónlistarhátíðin Gæran 2015

Málsnúmer 1507117Vakta málsnúmer

Tekin fyrir umsókn um styrk frá forsvarsmönnum tónlistarhátíðarinnar Gærunnar. Atvinnu-, menningar- og kynningarnefnd fagnar framtakinu og hvetur aðstandendur hátíðarinnar til að halda áfram uppbyggingu og þróun hátíðarinnar. Nefndin samþykkir að veita kr. 250.000,- til hátíðarinnar sem tekin verður af fjárhagslið 05890.

3.Úthlutun byggðakvóta í Skagafirði

Málsnúmer 1507057Vakta málsnúmer

Atvinnu-, menningar- og kynningarnefnd þakkar fyrir erindið frá Drangey, smábátafélagi Skagafjarðar.

Nefndin vill taka fram að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur ekki enn auglýst eftir umsóknum um byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2015-2016 og hvorki liggja fyrir af þeim sökum upplýsingar um úthlutaðan byggðakvóta til byggðarlaga í Skagafirði né nákvæmlega hvaða almennu reglur ráðuneytið hyggst setja um úthlutun byggðakvóta til einstakra fiskiskipa. Megintilgangur reglnanna hefur á liðnum árum verið sá að tryggja að fiskiskip sem gerð eru út frá tilteknum byggðarlögum, og landað hafa afla þar, fái hlut í byggðakvótanum sem landað er til vinnslu í viðkomandi byggðarlagi.

Atvinnu-, menningar- og kynningarnefnd hefur lagt á það áherslu á liðnum árum við tillögur til breytinga á reglugerð ráðuneytisins að tekið sé tillit til allra fiskiskipa við úthlutun byggðakvótans, svo sem megintilgangur reglnanna er. Þó þannig að tekið sé sérstakt tillit til dagróðrabáta en stærri fiskiskip fái ekki allan byggðakvóta til sín á grundvelli veiði. Er það til að stuðla að jafnræði á milli aðila og eflingu smábátaútgerðar í Skagafirði. Nefndin hefur einnig lagt áherslu á að allur afli sem veiddur er á grundvelli úthlutaðs byggðakvóta, sé eftir því sem hægt er unninn innan sveitarfélagsins. Á grunni sömu sjónarmiða um að stuðla að aukinni atvinnusköpun innan sveitarfélagsins hefur nefndin jafnframt viljað halda í löndunarskyldu í því byggðarlagi eða á þeim stað sem byggðakvótanum er úthlutað til innan marka þess. Þá hefur nefndin fengið framgengt breytingum á reglunum í þá veru að skylda þeirra sem fá úthlutað byggðakvóta til að landa tvöföldu því magni sem þeir fá úthlutað til vinnslu verði felld niður. Helgast þær breytingar af aðstæðum á leigumarkaði aflaheimilda og sjónarmiðum minni aðila.

4.European Destinations of Excellence - Matarkistan

Málsnúmer 1407091Vakta málsnúmer

Kynnt niðurstaða European Destinations of Excellence en valnefnd EDEN verkefnisins á Íslandi ákvað að útnefna Sveitarfélagið Skagafjörð sem gæðaáfangastað Íslands 2015 fyrir verkefnið Matarkistan Skagafjörður. Í niðurstöðu valnefndar segir:

”Matarkistan Skagafjörður á sér langa sögu og er fyrsta samstarfsverkefni sinnar tegundar á sviði matartengdrar ferðaþjónustu hér á landi. Má því segja að verkefnið hafi rutt veginn og undirbúið jarðveginn fyrir önnur slík verkefni víða um land og sé því sannkallað frumkvöðlaverkefni. Afurðir verkefnisins hafa verið margar og fjölbreyttar í gegnum tíðina, en þar má m.a. nefna árlega Hrossaveislu, fyrirlestra og námsefni á vegum Hólaskóla og matreiðslubókina Eldað undir bláhimni. Nefndin telur verkefnið vel að heiðrinum komið og vonast
til að tilnefningin verði til að efla enn frekar matartengda ferðaþjónustu í Skagafirði, sem og á landinu öllu.“

Atvinnu-, menningar- og kynningarnefnd fagnar niðurstöðunni og hvetur Skagfirðinga til enn frekari dáða í fjölbreyttri matvælaframleiðslu og matartengdri ferðaþjónustu í firðinum undir merkjum Matarkistunnar Skagafjarðar.

5.JEC Composites 2015

Málsnúmer 1502057Vakta málsnúmer

Farið var yfir ferð fulltrúa Sveitarfélagsins Skagafjarðar á JEC Composites 2015. Tilgangur ferðarinnar var sá að vekja athygli á Skagafirði sem vænlegum kosti fyrir framleiðslu koltrefja, eiga skipulagða fundi með fulltrúum trefjaframleiðenda um mögulega staðsetningu framleiðslustarfsemi í Skagafirði, auk þess að fá upplýsingar um þróunina í þessum geira á heimsvísu.

Fundi slitið - kl. 09:33.