Fara í efni

Sæluvikuhelgi framundan

05.05.2017
Drangey á Skagafirði

Nú líður að lokum Sæluvikunnar en dagskráin er þétt fram á sunnudag og ætti að vera létt verk að finna eitthvað skemmtilegt við hæfi.

Laugardagurinn hefst með morgunkaffi í Ljósheimum á vegum kaffiklúbbsins Skín við sólu Skagafjörður og á sama tíma opnar Árskóli á Sauðárkróki og býður gesti velkomna að mæta í skólann og kynnast skólastarfinu. Kl 11 verða kynnt sjávarböð við smábátahöfnina á Sauðárkróki og myndlistarsýningin í Gúttó verður opin kl 14-18. Leiksýningin, Beint í æð, verður kl 16 í Bifröst.

Á laugardagskvöldinu verður Karlakórinn Heimir með Sæluvikutónleika í Menningarhúsinu Miðgarði kl 20:30 en kórinn er nýkominn heim frá Kanada. Kvöldinu lýkur með dansleik á Mælifelli sem hefst kl 23.

Það er flott dagskrá á sunnudaginn, á síðasta degi Sæluvikunnar. Kl 14 verður málþing í Miðgarði, Skagfirsk fræði í nútíð og fortíð, í tilefni 80 ára afmælis Sögufélags Skagfirðinga og 70 ára afmælis Héraðsskjalasafns Skagfirðinga. Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands verður meðal gesta.

Í félagsheimilinu Melsgili verður flóamarkaður kl 14 þar sem ýmislegt verður til sölu, notað og nýtt, og opin myndlistarsýningin í Gúttó. Tveir viðburðir verða í Bifröst, fyrst verður sýnd teiknimynd, Dýrin í Hálsaskógi, kl 16 og um kvöldið kl 20 sýnir Leikfélag Sauðárkróks Beint í æð.

Í kvöld er Jóhanna Guðrún í nærmynd í Ljósheimum og Beint í æð í Bifröst.

Góða skemmtun á Sæluviku!