Fara í efni

Jónsmessuhátíðin

19.06.2015

Hin árlega Jónsmessuhátíð á Hofsósi hefst í dag og er hún orðin fastur liður hjá mörgum fjölskyldum enda mikið um að vera og skemmtunin í fyrirrúmi. Kl 17 hefst Firma- og bæjarkeppni Svaða á Hofsgerðisvelli og kl 18 er Jónsmessuganga. Að þessu sinni er gengið frá Bæ á Höfðaströnd inn í Hofsós undir leiðsögn Hauks Björnssonar. Boðið er upp á íslenska kjötsúpu kl 19 og sundlaugarpartý fyrir unglingana kl 21. Kvöldvaka verður síðan í Höfðaborg kl 21:30 þar sem Guðný Axelsdóttir kynnir ýmsa til leiks. Kvöldinu lýkur með opnu húsi í Höfðaborg þar sem Þórunn og Halli leika fyrir dansi.

Laugardagurinn 20. júní hefst með knattspyrnumóti karla og kvenna á Hofsósvelli en þar er keppt í tveimur deildum. Myndasýning Finns Sigurbjörnssonar verður milli kl 11 og 14 og tjaldmarkaður hefst kl 12 og einnig grillveisla þar sem í boði verða fríar pylsur og drykkir fyrir börnin. Hestamannafélagið Svaði stendur fyrir hópreið kl 13, góðakstur á dráttarvélum kl 14 og dagurinn endar á stórdansleik í Höfðaborg þar sem hljómsveitin Von ásamt Magna Ásgeirs heldur uppi fjörinu.

Á sunnudeginum er í boði að fara dagsferð á slóðir Guðrúnar frá Lundi með leiðsögn Kristínar S. Einarsdóttur. Farið er frá Sauðárkróki kl 9 og Hofsósi kl 9:30.