Fara í efni

Fjárhagsáætlun 2015

Málsnúmer 1408146

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 674. fundur - 23.10.2014

Lögð fram vinnugögn vegna fjárhagsáætlunar 2015.

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 675. fundur - 27.10.2014

Lögð fram drög að fjárhagsáætlun 2015.
Byggðarráð samþykkir að vísa fyrirliggjandi drögum að fjárhagsáætlun 2015 til fyrri umræðu í sveitarstjórn.

Sveitarstjórn Sveitarfélagins Skagafjarðar - 320. fundur - 29.10.2014

Forseti gerir tillögu um að vísa afgreiðslu málsins til liðar nr. 14 Fjárhagsáætlun 2015. Samþykkt samhljóða.

Sveitarstjórn Sveitarfélagins Skagafjarðar - 320. fundur - 29.10.2014

Forseti gerir tillögu um að vísa afgreiðslu málsins til liðar nr. 14 Fjárhagsáætlun 2015. Samþykkt samhljóða.

Sveitarstjórn Sveitarfélagins Skagafjarðar - 320. fundur - 29.10.2014

Ásta Björg Pálmadóttir, sveitarstjóri tók til máls. Fjárhagsáætlun Sveitarfélagsins Skagafjarðar og stofnana þess fyrir árið 2015 lögð fram til fyrri umræðu. Áætlunin gerir ráð fyrir að A-hluti sveitarfélagsins verði rekinn með 60.852 þús. króna tapi. Samstæða A og B hluta verði rekin með 51.676 þús. króna rekstrarafgangi.

Forseti gerir tillögu um að vísa fjárhagsáætlun 2015 til nefnda og síðari umræðu í sveitarstjórn. Samþykkt með níu atkvæðum

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 676. fundur - 30.10.2014

Lagðar fram til kynningar dagsetningar vegna vinnu fjárhagsáætlunar 2015 og 2016-2018.

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 679. fundur - 20.11.2014

Farið yfir vinnugögn vegna fjárhagsáætlunar 2015. Undir þessum dagskrárlið sátu fundinn Haraldur Þór Jóhannsson formaður landbúnaðarnefndar, Guðný Axelsdóttir varaformaður fræðslunefndar, Gunnsteinn Björnsson formaður atvinnu-, menningar- og kynningarnefndar, Sigríður Magnúsdóttir formaður umhverfis- og samgöngunefndar, Herdís Á. Sæmundardóttir sviðsstjóri fjölskyldusviðs, Indriði Þór Einarsson sviðsstjóri veitu- og framkvæmdasviðs auk Rúnars Vífilssonar og Þorvalds Gröndal starfsmanna á fjölskyldusviði þegar farið var yfir málaflokka viðkomandi nefnda og sviða sveitarfélagsins.

Sveitarstjórn Sveitarfélagins Skagafjarðar - 321. fundur - 26.11.2014

Afgreiðsla 676. fundar byggðaráðs staðfest á 321. fundi sveitarstjórnar 26. nóvember 2014 með níu atkvæðum.

Sveitarstjórn Sveitarfélagins Skagafjarðar - 321. fundur - 26.11.2014

Afgreiðsla 679. fundar byggðaráðs staðfest á 321. fundi sveitarstjórnar 26. nóvember 2014 með níu atkvæðum.

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 680. fundur - 27.11.2014

Undir þessum dagskrárlið komu Gísli Sigurðsson formaður veitunefndar og Indriði Þór Einarsson sviðsstjóri veitu- og framkvæmdasviðs og kynntu fjárhagsáætlanir vatnsveitu, sjóveitu og hitaveitu fyrir árið 2015.

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 681. fundur - 04.12.2014

Lögð fram til síðari umræðu fjárhagsáætlun sveitarfélagsins og stofnana fyrir árið 2015.
Byggðarráð samþykkir fjárhagsáætlun 2015 með tveimur atkvæðum og vísar henni til afgreiðslu sveitarstjórnar við síðari umræðu. Hildur Þóra Magnúsdóttir fulltrúi Vg og óháðra situr hjá við afgreiðslu málsins.

Sveitarstjórn Sveitarfélagins Skagafjarðar - 322. fundur - 15.12.2014

Forseti gerir tillögu um að vísa afgreiðslu málsins til 17. liðar á dagskrá, Fjárhagsáætlun 2015.
Samþykkt samhljóða.

Sveitarstjórn Sveitarfélagins Skagafjarðar - 322. fundur - 15.12.2014

Forseti gerir tillögu um að vísa afgreiðslu málsins til 17. liðar, Fjárhagsáætlun 2015.
Samþykkt samhljóða.

Sveitarstjórn Sveitarfélagins Skagafjarðar - 322. fundur - 15.12.2014

Ásta Björg Pálmadóttir sveitarstjóri tók til máls og kynnti fjárhagsáætlun 2015.

Fjárhagsáætlun Sveitarfélagsins Skagafjarðar fyrir árið 2015 er lögð fram til seinni umræðu. Fjárhagsáætlunin sýnir rekstraráætlun, sjóðsstreymi og áætlaðan efnahagsreikning fyrir sveitarfélagið og stofnanir þess. Áætlun ársins gerir ráð fyrir að rekstrartekjur Sveitarfélagsins Skagafjarðar nemi 4.270 m.kr. hjá samstæðunni í heild, A- og B hluta, þar af eru rekstrartekjur A- hluta áætlaðar 3.638 m.kr. Rekstrargjöld án fjármagnsliða eru áætluð 3.934 m.kr., þ.a. A hluti 3.500 m.kr. Rekstrarhagnaður A og B hluta án afskrifta og fjármagnsliða er 505 m.kr, afskriftir nema 169 m.kr. og fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur nema 246 m.kr., rekstrarniðurstaða samstæðunnar í heild A og B hluta er áætluð jákvæð samtals 89 m.kr. í hagnað.

Rekstrarhagnaður A hluta án afskrifta og fjármagnsliða er 229 m.kr, afskriftir nema 91 m.kr., fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur nema 172 m.kr. Rekstrarniðurstaða A hluta sveitarsjóðs er því áætluð neikvæð um 34 m.kr.
Eignir Sveitarfélagsins Skagafjarðar eru áætlaðar í árslok 7.402 m.kr., þ.a. eignir A hluta 5.508 m.kr. Skuldir og skuldbindingar eru áætlaðar í árslok 5.646 m.kr., þ.a. hjá A hluta 4.400 m.kr. Eigið fé er áætlað 1.756 m.kr hjá samstæðunni og eiginfjárhlutfall því 0,23. Eigið fé A hluta er áætlað 1.108 m.kr. og eiginfjárhlutfall 0,20. Ný lántaka er áætluð 335 m.kr. hjá samstæðunni í heild og að afborganir eldri lána og skuldbindinga verði um 382 m.kr. Reiknaðar lífeyrisskuldbindingar eru 924 m.kr. hjá samstæðu, þar af 840 m.kr. hjá A-hluta. Skuldahlutfall samstæðunnar er áætlað 132%.
Áætlunin gerir ráð fyrir að veltufé frá rekstri A hluta verði jákvætt um 135 m.kr., veltufé frá rekstri samstæðunnar A og B hluta verði jákvætt um samtals 354 m.kr. Þá er gert er ráð fyrir að handbært fé í árslok verði 111 m.kr.

Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir tók til máls.
Undirrituð mun sitja hjá við afgreiðslu fjárhagsáætlunar 2015 og legg fram eftirfarandi bókun:

Sú fjárhagsáætlun sem nú liggur hér fyrir til samþykktar í sveitarstjórn er ekki áætlun mikilla breytinga þrátt fyrir sveitarstjórnarkosningar í vor og nýjan meirihluta Framsóknar með aðkomu Sjálfstæðisflokks, þó má sjá merki um kosningaloforð í framkvæmdum. Við í K lista gagnrýnum gefnar væntingar um fjölnotaíþróttahús á Sauðárkróki, en setja á fjármagn í hönnun og kostnaðarmat á næsta ári. Ákvarðanir um nýframkvæmdir á alltaf að taka af yfirvegun og hafa forgangsröðun skýra.

Hvað fræðslumálin varða þá er stefnan tekin á að leikskólinn á Hofsósi verði færður í húsnæði grunnskólans og að tónlistaskólinn á Sauðárkróki flytji í nýtt húsnæði við Árskóla. Því miður er þess ekki að merkja í áætluninni að breytingar verði varðandi húsnæðismál leikskólans í Varmahlið.
K ? listinn telur gangrýnivert að ekki er gert ráð fyrir nægilegu fjármagni til að ráðast í endurbætur á Varmahlíðarskóla og breytingar á húsnæðismálum leikskólans Birkilundar.

Helsti áhættuþátturinn í fjárhagsáætlun meirihlutans er sú óvissa sem ríkisstjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks boðar s.s. með breytingar og niðurskurð í mennta- og heilbrigðismálum, breytingar á högum langtímaatvinnulausra og breytingar í skattamálum. Breytingarnar geta augljóslega komið harkalega niður á fjárhag sveitarfélagsins og valda sömuleiðis óstöðugleika og óvissu meðal íbúa.

K ? listinn gagnrýnir og er á móti gjaldskrárhækkunum í leik- og heilsdagsskóla sem og fæðishækkanir í leik- og grunnskólum. Þrátt fyrir gangrýni á ákveðna þætti í fjárhagsáætluninni er hægt að vera sammála í veigamestu atriðum og því tekur K- listinn ákvörðun um að sitja hjá en ekki greiða atkvæði gegn fjárhagsáætluninni.

Fjárhagsáætlun er ekki bara rammi um útgjöld og tekjur, heldur er hún stefna um þjónustu og framkvæmdir og leggur línurnar fyrir það öryggi sem börn og fölskyldur ásamt fyrirtækjum í sveitarfélaginu búa við næsta árið.

Ef á að uppfylla réttmætar væningar íbúa um þjónustu og bætta aðstöðu þá er það forgangsverkefni að snúa við neikvæðri íbúaþróun og stuðla að fjölgun íbúa og atvinnutækifæra. Því miður sér K-listinn ekki merki þess í fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fyrir árið 2015.

Starfsfólki sveitarfélagsins eru færðar þakkir fyrir fyrir góða og árangurríka vinnu við að ná fram sparnaði og auknu hagræði í rekstri.

Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir, K ? lista

Bjarni Jónsson kvaddi sér hljóðs og lagði fram eftirfarandi bókun.
Fjárhagsáætlun hverju sinni tekur mið af stefnumörkun sveitarstjórnar. Þó hálft ár sé liðið frá sveitarstjórnarkosningum hefur ekki enn verið sett fram heildstæð stefna um forgangsverkefni og áherslur á kjörtímabilinu að öðru marki en því sem lesa má úr fjárhagsáætlun og ekki síst framkvæmdaáætlun.
Ný sveitarstjórn tók hinsvegar við góðu búi og mikilvægt er að áfram verði byggt á þeim góða árangri sem náðst hefur síðustu misseri í rekstri sveitarfélagsins. Náðst hefur fram umtalsverð hagræðing með samstilltu átaki án þess að þjónusta við íbúana hafi verið skert. Afkoma sveitarfélagsins er orðin jákvæð og geta til framkvæmda í þágu íbúa stóraukist. Framkvæmdaáætlun einkennist hinsvegar af því að skoða eigi margvísleg verkefni fremur en framkvæmdum. Ekki mun samkvæmt áætluninni takast að hefja framkvæmdir við sundlaug Sauðárkróks á árinu 2015 eins og vonast var til og ekki er gert ráð fyrir því að undirbúa mögulega byggingu á íþróttasal við Höfðaborg sem þjónaði þar skólanum og byggðinni svo dæmi séu nefnd. Eins og oftast nær er sveitarstjórn sammála í meginatriðum um fjárhagsáætlun næsta árs, en fulltrúa greinir á um áherslur og forgang. Meirihluti sveitarstjórnar ræður þar ferðinni nú eins og oftast áður. Þannig vill V-listi fara sér hægar í gjaldskrárhækkanir er beinast að þjónustu við börn og barnafólk eins og hækkun leikskólagjalda er dæmi um og telur að þar eigi fjölskyldu og barnafólk að fá notið enn frekar bættrar rekstrarstöðu sveitarfélagsins.

Fulltrúi V-lista situr hjá við afgreiðslu fjárhagsáætlunar, en vill nota tækifærið til að þakka starfsfólki sveitarfélagsins góða vinnu við undirbúning fjárhagsáætlunar og nefndarfólki þeirra störf.
Bjarni Jónsson V-lista

Stefán Vagn Stefánsson tók til máls og lagði fram bókun.
Það er ánægulegt að leggja fram fjárhagsáætlun fyrir árið 2015 sem gerir ráð fyrir rekstrarafgangi af samstæðureikningi sveitarsjóðs að upphæð 505 milljónir fyrir afskriftir og fjármagnsliði og 89 milljónir að þeim meðtöldum. Ef áætlanir ganga eftir verður árið 2015 fjórða árið í röð sem gert verður upp með jákvæðri rekstrarniðurstöðu hjá Sveitarfélaginu Skagafirði en slíkur árangur hefur ekki áður náðst í sögu þess. Óhætt er að segja að ákveðinn stöðuleiki hafi náðst í reksturinn og ber að þakka það ábyrgri fjármálastjórn og aðhaldi í rekstri undanfarinna ára. Einnig ber að þakka starfsmönnum sveitarfélagsins en ljóst er að án samstillts átaks þeirra hefði sá árangur ekki náðst líkt og rekstur undanfarinna ára ber með sér sem og sú áætlun sem lögð er fram nú. Mikilvægt er að áfram verði haldið á þeirri braut og aðhalds gætt í rekstri en ljóst er að tap á A-hluta sveitarsjóðs þarf að leiðrétta á komandi árum.
Miklar launahækkanir höfðu áhrif á áætlunina en hækkanir launa á milli áætlana 2014 og 2015 eru rúmar 210 milljónir króna. Það er gleðilegt að geta kynnt fjárhagsáætlun með viðlíka rekstrarafgangi og gert er ráð fyrir hér þrátt fyrir það.

Í fjárhagsáætlun fyrir árið 2015 er miðað við að þar sem gjaldskrár væru hækkaðar yrðu þær hækkanir ekki umfram verðlags- og kjarasamningshækkanir. Það er því ljóst að Sveitarfélagið Skagafjörður verður áfram með einhver lægstu gjöld í leik- og grunnskólum landsins sem og að orkukostnaður verður áfram hvað lægstur á íbúa í Skagafirði. Afar mikilvægt er að hafa þau markmið uppi þegar framtíðaruppbygging svæðisins er höfð í huga. Mikilvægt er að halda þannig á málum að eftirsóknarvert sé fyrir ungt fólk að setjast að í Skagafirði til lengri og skemmri tíma. Frá þeirri stefnu má ekki kvika.

Gert er ráð fyrir að veltufé frá rekstri verði rúmar 354 milljónir á árinu og framkvæmt verði fyrir 350 milljónir. Afborganir langtímalána verði 381 milljón og ný lán verði tekin upp á 335 milljónir sem þýðir að skuldir sveitarsjóðs munu lækka á tímabilinu. Samkvæmt sveitarstjórnarlögum má skuldahlutfall sveitarsjóðs ekki fara yfir 150% af tekjum og höfðu ýmsir áhyggjur af því að með þeim framkvæmdum sem ráðist var í á síðasta kjörtímabili myndi sveitarstjóður rjúfa það viðmið. Gerir fjárhagsáætlun 2015 hins vegar ráð fyrir því að skuldahlutfallið verði 132%, en þegar búið er að draga frá lífeyrisskuldbindingu að hluta og skuldir orku- og veitufélaga líkt og lögin gera ráð fyrir, er skuldahlutfall samstæðunnar um 123% sem er vel innan allra marka.

Sú áætlun sem lögð er fram nú var unnin í samvinnu allra flokka, bæði í nefndum sveitarfélagsins og í byggðarráði sem er mikilvægt og ber að þakka fyrir þá vinnu.
Með slíkar kennitölur í rekstri er ljóst að áfram er hægt að halda á þeirri braut sem mörkuð hefur verið til hagsældar og uppbyggingar innviða sveitarfélagsins.

Við óskum Skagfirðingum til hamingju með þá áætlun sem hér er lögð fram og óskum öllum íbúum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.

Stefán Vagn Stefánsson, fulltrúi Framsóknarflokks
Sigríður Magnúsdóttir, fulltrúi Framsóknarflokks
Bjarki Tryggvason, fulltrúi Framsóknarflokks
Viggó Jónsson, fulltrúi Framsóknarflokks
Þórdís Friðbjörnsdóttir, fulltrúi Framsóknarflokks
Sigríður Svavarsdóttir, fulltrúi Sjálfstæðisflokks
Gunnsteinn Björnsson, fulltrúi Sjálfstæðisflokks

Þórdís Friðbjörnsdóttir kvaddi sér hljóðs, þá Bjarni Jónsson, Stefán Vagn Stefánsson og Gunnsteinn Björnsson.

Fjárhagsáætlun 2015 borin undir atkvæði og samþykkt með sjö atkvæðum, Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir fulltrúi K- lista og Bjarni Jónsson fulltrúi V- lista óska bókað það þau sitji hjá.