Fara í efni

Hvatapeningar

Skagafjörður er heilsueflandi samfélag. Megináhersla er lögð á að börn og fullorðnir geti stundað íþróttir við sem bestar aðstæður og sérstaklega er hvatt til slíkrar iðkunar enda er það viðurkenndur þáttur í almennum forvörnum.

Skagafjörður styrkir frístundaiðkun barna og ungmenna með lögheimili í sveitarfélaginu Skagafirði, 5 - 18 ára á árinu, með Hvatapeningum að upphæð 40.000 kr. Hvatapeninga er hægt að nýta til að greiða niður æfingagjöld og þátttökugjöld í skipulögðu íþrótta-, lista- og tómstundastarfi og er ætlað að auka jöfnuð í samfélaginu, fjölbreytileika íþrótta-, lista- og tómstundastarfs og styrkja félagslegt umhverfi og hafa jákvæð áhrif á þroska barna og unglinga. Hvatapeningum er úthlutað til barna í formi styrks sem foreldrar/forráðamenn geta ráðstafað til aðila sem standa fyrir skipulögðu frístundastarfi og falla undir styrkhæfisviðmið sveitarfélagsins. Hvatapeninga má nýta að fullu eða hluta til niðurgreiðslu æfinga- og námskeiðsgjalda og geta foreldrar/forráðamenn ráðstafað þeim hvenær sem er yfir árið og óháð fjölda greina/námskeiða.

Hvernig sæki ég um Hvatapeninga?

Umsóknir um Hvatapeninga eru afgreiddar rafrænt, flestar í gegnum Sportabler. Fjölmargar íþrótta- og tómstundagreinar nota Sportabler fyrir skráningu barna. Þar er hægt að skilgreina hvort nýta eigi Hvatapeninga þegar börn eru skráð. Ef um er að ræða greinar sem ekki eru inná Sportabler er sótt um Hvatapeninga í gegnum Íbúagátt hér á heimasíðunni.

Nánari upplýsingar um Hvatapeninga
  • Réttur til Hvatapeninga fellur niður í árslok.
  • Ónýttir Hvatapeningar nýtast ekki milli ára.
  • Ráðstöfun hvatapeninga er endanleg. Ekki er hægt að endurgreiða eða bakfæra hvatapeninga þegar foreldri/forráðamaður hefur ráðstafað styrknum til niðurgreiðslu æfinga-/námskeiðsgjalda til félaga.
  • Styrkur getur aldrei orðið hærri en æfinga-/þátttökugjald viðkomandi frístundatilboðs.
  • Skilyrði þess að hægt sé að nýta Hvatapeningana er að um skipulagt íþrótta-, lista- og tómstundastarf sé að ræða og sé stundað undir leiðsögn viðurkenndra þjálfara, leiðbeinenda eða kennara. Börn undir 18 ára aldri skulu ekki starfa við þjálfun eða leiðbeinendastörf í barnastarfi ein síns liðs. Aðalþjálfari og leiðbeinandi getur þó haft einstaklinga undir 18 ára aldri sér til aðstoðar. Þetta á við um allt skipulagt íþrótta-, lista- og tómstundastarf sem stundað er á vegum viðurkenndra íþróttafélaga, tónlistarskóla, skáta sem og önnur námskeið skipulögð af sveitarfélaginu Skagafirði, sbr. Sumar-TÍM.
  • Almennt skal miða við að námskeið nái yfir 10 vikur samfellt. Frístundastjóri sker úr um hvort námskeið teljist styrkhæf, og ber sína tillögu undir samþykki félags- og tómstundanefndar ef vafi leikur á.
  • Hvatapeninga er ekki hægt að nýta til kaupa á æfingakorti í líkamsræktarstöð en skipulögð unglinganámskeið innan líkamsræktarstöðva falla undir styrkinn. Undantekning frá þessu eru ungmenni á 17. og 18. aldursári en þau geta nýtt Hvatapeninga til kaupa á æfingakortum.