Fara í efni

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar

990. fundur 17. nóvember 2021 kl. 11:30 - 13:01 að Sæmundargötu 7a
Nefndarmenn
  • Gísli Sigurðsson formaður
  • Stefán Vagn Stefánsson varaform.
  • Ólafur Bjarni Haraldsson aðalm.
  • Álfhildur Leifsdóttir áheyrnarftr.
Starfsmenn
  • Friðrik Margeir Friðriksson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
  • Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri
Fundargerð ritaði: Margeir Friðriksson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
Dagskrá
Samþykkt var samhljóða að taka mál 2110252, 2106165 og 2107154 á dagskrá með afbrigðum.

1.Málefni fatlaðs fólks á Norðurlandi vestra

Málsnúmer 2111124Vakta málsnúmer

Lagt fram bréf dagsett 11. nóvember 2021 frá Húnaþingi vestra varðandi málefni fatlaðs fólks á Norðurlandi vestra, þar sem Sveitarfélagið Skagafjörður er leiðandi sveitarfélag.
Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar lýsir yfir áhyggjum af mjög vaxandi halla á rekstri málaflokks fatlaðs fólks á Norðurlandi vestra. Er sá halli tilkominn vegna aukins rekstrarkostnaðar við málaflokkinn, m.a. vegna styttingar vinnutíma hjá vaktavinnufólki, en einnig vegna þess að framlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga dragast saman um tæplega 120 m.kr. á milli ársins 2020 og þeirrar áætlunar sjóðsins sem liggur fyrir varðandi árið 2021. Að óbreyttu vex kostnaður vegna viðbótarframlaga sveitarfélaga á Norðurlandi vestra sem þau þurfa að leggja til með málaflokknum umfram það útsvarshlutfall sem ætlað er að standa undir rekstri hans, því um 450% á milli áranna 2020 og 2021 og ber Sveitarfélagið Skagafjörður mestan þunga aukningarinnar, bæði hlutfallslega og eins hvað hreina fjárupphæð varðar.

Í úttekt á málefnum fatlaðs fólks á Norðurlandi vestra sem HLH rágjöf vann fyrir Sveitarfélagið Skagafjörð og kom út í ágúst 2020, kom fram að sterkar vísbendingar væru um að skipulag þjónustu og verkefna í málaflokknum samræmdust gildandi lögum, grunnur starfseminnar væri góður, ánægja ríkti á meðal starfsfólks og að mikil þekking og reynsla væri til staðar. Tækifæri væru þó til að styrkja rekstur málaflokksins og hefur verið unnið að því þótt tveir stórir þættir hafi sett strik í reikninginn hvað rekstur liðinna mánaða varðar, þ.e. afleiðingar Covid-19 faraldursins og stytting vinnutíma hjá vaktavinnufólki.

Byggðarráð vill árétta að Sveitarfélagið Skagafjörður hefur metnað og fagmennsku að leiðarljósi í allri umgjörð þjónustu við fatlað fólk á Norðurlandi vestra. Áherslur í þjónustu eru í samræmi við lög og reglugerðir og alþjóðlegar skuldbindingar sem íslensk stjórnvöld hafa gengist undir, einkum samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks

Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar bindur vonir við að vinna starfshópa á vegum félags- og barnamálaráðherra varðandi þjónustu við fatlað fólk, sem m.a. var kynnt á fjármálaráðstefnu Sambands íslenskra sveitarfélaga í liðnum mánuði, muni leiða í ljós að verulega fjármuni þarf að leggja fram af hálfu ríkisins til sveitarfélaga landsins, eigi sveitarfélögin að standa undir þeirri þjónustu við málaflokkinn sem þeim er ætlað að gera lögum samkvæmt. Er þar annars vegar um að ræða starfshóp sem ætlað er að greina kostnaðarþróun í þjónustu við fatlað fólk á árunum 2018-2020 og hins vegar starfshóp um heildarendurskoðun á lögum nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Síðarnefnda hópnum er ætlað að meta hvaða lög, reglugerðir eða reglugerðabreytingar og stjórnvaldsfyrirmæli kunna að hafa áhrif á rekstrarkostnað sveitafélaga ? í samræmi við samkomulag um markmið um afkomu og efnahag sveitarfélaga 2021-2025.

Minnt er á að málefni fatlaðs fólks og tilfærsla málaflokksins frá ríki til sveitarfélaga, ásamt breytingum á laga- og reglugerðarumhverfi málaflokksins í kjölfarið, er ein stærsta áskorunin sem sveitarfélög landsins standa frammi fyrir þessi misserin. Komi ekki til aukið fjármagn frá ríkinu til málaflokksins er hætt við að vaxandi útgjöld ógni fjárhagslegri sjálfbærni margra sveitarfélaga, svo sem kom fram í máli sviðstjóra hag- og upplýsingasviðs Sambands íslenskra sveitarfélaga á fyrrgreindri fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna.

Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar tekur undir áhyggjur Húnaþings vestra og skorar á ríkisstjórn Íslands að bregðast nú þegar við vanda sveitarfélaganna og veita viðbótarframlagi til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til stuðnings reksturs málaflokksins.

2.Samþykkt um gatnagerðargjald, stofngjald fráveitu og byggingarleyfis- og þjónustugjöld

Málsnúmer 2111109Vakta málsnúmer

Lögð fram samþykkt um gatnagerðargjald, stofngjald fráveitu og byggingarleyfis- og þjónustugjöld í Sveitarfélaginu Skagafirði, með gildistöku 1. janúar 2022.
Byggðarráð samþykkir samþykktina og vísar henni til afgreiðslu sveitarstjórnar.

3.Viðauki 9 við fjárhagsáætlun 2021

Málsnúmer 2111066Vakta málsnúmer

Lögð fram tillaga að viðauka 9 við fjárhagsáætlun 2021. Viðaukinn er gerður vegna millifærslna fjármuna á milli deilda og auknu framlagi til umhverfismála, 5.650 þkr. og eignasjóðs, 3.900 þkr. sem og auknum tekjum sameiginlegra liða, 3.056 þkr. Samtals er þetta útgjaldaauki að fjárhæð 6.494 þkr. sem mætt er með lækkun handbærs fjár. Að auki eru gerðar millifærslur á fjárfestingaliðum áætlunarinnar, þannig að framkvæmdafé vegna byggingar leikskóla á Hofsósi eru hækkaðar um 18 mkr. og á móti er framkvæmdafé lækkað vegna byggingar á gámasvæði á Hofsósi um 10 mkr. og vegna Sundlaugar Sauðárkróks um 8 mkr.
Byggðarráð samþykkir framlagðan viðauka og vísar honum til afgreiðslu sveitarstjórnar.

4.Opnunartími sundlaugarinnar á Hofsósi

Málsnúmer 2111062Vakta málsnúmer

Lagt fram bréf dagsett 5. nóvember 2021 frá Kristínu Sigurrós Einarsdóttur og Guðrúnu Halldóru Þorvaldsdóttur, þar sem þær ítreka erindi sitt frá 27. maí s.l. til byggðarráðs varðandi opnunartíma sundlaugarinnar á Hofsósi. Sjá mál 2105279 á 968. fundi byggðarráðs þann 2. júní 2021.
Byggðarráð samþykkir að vísa erindinu til félags- og tómstundanefndar og gerðar fjárhagsáætlunar ársins 2022.

5.Auglýsing um ákv. ráðherra til að tryggja starfshæfi sveitarstjórna

Málsnúmer 2107154Vakta málsnúmer

Lagður fram tölvupóstur dagsettur 16. nóvember 2021 frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti þar sem tilkynnt er um að vegna fjölgunar COVID-19 smita í samfélaginu hefur samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra veitt sveitarstjórnum tímabundna heimild til að ákveða að sveitarstjórnarmönnum sé heimilt að taka þátt í fundum sveitarstjórna eða nefnda og ráða á vegum sveitarfélaga, þrátt fyrir að um annað sé getið í samþykktum þeirra. Heimildin gildir til 31. janúar 2022.
Byggðarráð samþykkir að vísa erindinu til sveitarstjórnar.

6.Orkufjarskipti hf. - lagning ljóslagnar í landi Reykjarhóls L146060

Málsnúmer 2110252Vakta málsnúmer

Lagt fram erindi frá Orkufjarskiptum hf. þar sem óskað er eftir leyfi landeiganda vegna framkvæmdaleyfis við að leggja ljóslögn um land Reykjarhóls L146060 samkvæmt meðfylgjandi loftmynd.
Byggðarráð samþykkir að veita umbeðið leyfi en vill árétta að gætt sé að öðrum lögnum á lagnaleiðinni.

7.Samráð; Drög að stefnu um rafleiki, rafíþróttir

Málsnúmer 2111082Vakta málsnúmer

Lagður fram til kynningar tölvupóstur dagsettur 8. nóvember 2021 þar sem mennta- og menningarmálaráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 213/2021, "Drög að stefnu um rafleiki/rafíðþróttir". Umsagnarfrestur er til og með 29.11.2021.
Samþykkt samhljóða að gera fundarhlé kl. 12:26.
Fundi byggðarráðs fram haldð kl. 12:55.

8.Sundlaug Sauðákróks, áfangi 2, uppskipting útboðs - verkefnis.

Málsnúmer 2106165Vakta málsnúmer

Lögð fram svohljóðandi bókun 31. fundar bygginganefndar Sundlaugar Sauðárkróks, þann 17. nóvember 2021.
"Lögð fram fundargerð dagsett 9. nóvember 2021 vegna opnunar tilboða í útboðsverkið "Sundlaugin á Sauðárkróki - Áfangi 2 - Uppsteypa".
Tvö tilboð bárust í verkið, annars vegar frá Friðriki Jónssyni ehf. sem bauð 214.981.032 kr. (109,00%) og hins vegar frá Uppsteypu ehf. sem bauð 189.053.555 kr. (95,8%) í verkið. Kostnaðaráætlun var 197.243.581 kr. Allar fjárhæðir eru með virðisaukaskatti. Engar athugasemdir komu fram fyrir né eftir opnun tilboðanna. Búið er að fara yfir tilboðin og fundust engar villur.
Byggingarnefnd Sundlaugar Sauðárkróks samþykkir að taka tilboði Uppsteypu ehf. og vísar ákvörðuninni til afgreiðslu byggðarráðs. Jafnframt heimilar nefndin Steini L. Sveinssyni, sviðsstjóra veitu- og framkvæmdasviðs að tilkynna í lok athugasemdarfrests að tilboðinu verði tekið."
Byggðarráð staðfestir framangreinda bókun og samþykkir að tilboði Uppsteypu ehf. í verkið verði tekið.

Fundi slitið - kl. 13:01.