Fara í efni

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar

951. fundur 03. febrúar 2021 kl. 11:30 - 13:40 að Sæmundargötu 7a
Nefndarmenn
  • Gísli Sigurðsson formaður
  • Stefán Vagn Stefánsson varaform.
  • Ólafur Bjarni Haraldsson aðalm.
  • Bjarni Jónsson áheyrnarftr.
Starfsmenn
  • Friðrik Margeir Friðriksson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
  • Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri
Fundargerð ritaði: Margeir Friðriksson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjálmálasviðs
Dagskrá

1.Ráðstöfun lands á Nöfum

Málsnúmer 2012148Vakta málsnúmer

Lagt fram bréf dagsett 14. desember 2020 frá Fjáreigendafélagi Sauðárkróks þar sem stjórn félagsins óskar eftir fundi með byggðarráði vegna úthlutunar á Lóð 26 á Nöfum.
Undir þessum dagskrárlið komu eftirtaldir fulltrúar Fjáreigendafélags Sauðárkróks á fund byggðarráðs, Sigurjóna Skarphéðinsdóttir, Þorbjörg Ágústsdóttir, Þórarinn Hlöðversson og Inga Dóra Ingimarsdóttir.
Fulltrúar fjáreigendafélagsins komu óánægju sinni með úthlutun Lóðar 26 á Nöfum vel fram.
Byggðarráð samþykkir að fela sveitarstjóra að vinna drög, í samráði við Fjáreigendafélag Sauðárkróks, að reglum varðandi úthlutun lóða á Nöfum til skepnuhalds .

2.Úttekt á Brunavörnum Skagafjarðar

Málsnúmer 2101285Vakta málsnúmer

Lagt fram bréf frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, dagsett 29. janúar 2021 varðandi athugun og úttekt á brunavörnum Skagafjarðar 2021. Svavar Atli Birgisson slökkviliðsstjóri sat fundinn undir þessum dagskrárlið og kynnti niðurstöður úttektarinnar.

3.G-vítamín

Málsnúmer 2102016Vakta málsnúmer

Lagður fram tölvupóstur dagsettur 31. janúar 2021 frá Geðhjálp varðandi átakið G-vítamín. Óskað er eftir að sveitarfélagið bjóði frían aðgang á söfn og sundlaugar einn dag í febrúar 2021.
Byggðarráð samþykkir að veita frían aðgang að Byggðasafninu Glaumbæ miðvikudaginn 10. febrúar n.k. og frían aðgang í sundlaugar sveitarfélagsins á Sauðárkróki, Varmahlíð og Hofsósi þann 17. febrúar 2021.

4.Landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga 2021

Málsnúmer 2101254Vakta málsnúmer

Lagt fram bréf dagsett 26. janúar 2021 frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga þar sem boðað er til XXXVI. landsþings sambandsins þann 26. mars 2021.

5.Kauptilboð í hlutafé Ferðasmiðjunnar ehf.

Málsnúmer 2101291Vakta málsnúmer

Lagt fram kauptilboð frá Naflanum ehf., kt. 670509-2140 í hlutafé sveitarfélagsins í Ferðasmiðjunni ehf., kt. 431195-2169.
Byggðarráð samþykkir að selja Naflanum ehf. hlutafé sitt að nafnverði 273.214 kr. á 306.000 kr.

6.Umsagnarbeiðni; frumvarp til laga um jarðalög

Málsnúmer 2101224Vakta málsnúmer

Lagður fram tölvupóstur dagsettur 21. janúar 2021 frá nefndasviði Alþingis. Atvinnuveganefnd Alþingis sendir til umsagnar frumvarp til laga um jarðalög (einföldun regluverks, vernd landbúnaðarlands, upplýsingaskyldu o.fl), 375. mál.

7.Umsagnarbeiðni; frumvarp til laga breytingu á lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og lögum um stjórn fiskveiða

Málsnúmer 2101238Vakta málsnúmer

Lagður fram tölvupóstur dagsettur 22. janúar 2021 frá nefndasviði Alþingis. Atvinnuveganefnd Alþingis sendir til umsagnar frumvarp til laga um breytingu á lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og lögum um stjórn fiskveiða (veiðistjórn grásleppu, sandkola og hryggleysingja), 419. mál.

8.Umsagnarbeiðni; þingsályktunartillaga um vernd og orkunýtingu landsvæða

Málsnúmer 2101257Vakta málsnúmer

Lagður fram tölvupóstur dagsettur 26. janúar 2021 frá nefndasviði Alþingis. Umhverfis-og samgöngunefnd Alþingis sendir til umsagnar tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða, 370. mál.
Þingsályktunartillaga um vernd og orkunýtingu landsvæða er nú lögð fram að nýju af umhverfisráðherra en tillagan var áður lögð fram sem 853. mál á 145. þingi og svo aftur sem 207. mál á 146. þingi. Var sú þingsályktunartillaga samhljóða lokatillögu verkefnisstjórnar 3. áfanga rammaáætlunar. Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar hefur áður sent inn umsagnir um drög að lokaskýrslu verkefnisstjórnar 3. áfanga rammaáætlunar. Var umsögn m.a. samþykkt var á 751. fundi byggðarráðs, dags. 3. ágúst 2016:
(https://www.skagafjordur.is/is/stjornsysla/skipulag/fundargerdir/byggdarrad-skagafjardar/3267)
Einnig á 779. fundi byggðarráðs, dags. 30. mars 2017:
(https://www.skagafjordur.is/is/stjornsysla/skipulag/fundargerdir/byggdarrad-skagafjardar/3806)
Það sem fram kemur í fyrri umsögnum er ítrekað hér.
Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar vill með umsögn sinni nú benda á að í þeirri þingsályktunartillögu sem lögð hefur verið fram fyrir Alþingi er aðeins lagt til að 1 virkjunarkostur á vatnasviði á Norðurlandi vestra verði í orkunýtingarflokki og 1 virkjunarkostur í vindorku. Er þar um að ræða annars vegar veituleið Blönduvirkjunar og hins vegar Blöndulund, þar af aðeins um 30 MW í tiltölulega hagkvæmu vatnsafli. Í verndarflokk fara hins vegar 4 virkjunarkostir á vatnasviði á Norðurlandi vestra.
Samkvæmt 6. gr. laga nr. 48 frá árinu 2011 um verndar- og orkunýtingaráætlun, er stjórnvöldum „ekki heimilt að veita leyfi tengd orkurannsóknum eða orkuvinnslu vegna virkjunarkosta sem eru í verndarflokki eða eru á svæðum sem ástæða er talin til að friðlýsa gagnvart orkuvinnslu. Þá eru aðrar orkurannsóknir sem ekki eru leyfisskyldar einnig óheimilar.“ Með öðrum orðum, nái tillaga ráðherra fram að ganga, verður með öllu óheimilt um ófyrirséða framtíð að stunda orkurannsóknir á þeim virkjunarkostum sem lagðir eru til að fari í verndarflokk á Norðurlandi vestra, nema fyrir Orkustofnun til að geta sinnt lögbundnu hlutverki sínu, í samanburðartilgangi eða öðrum almennum tilgangi.
Er grafalvarlegt að umhverfisráðherra horfi í þingsályktunartillögu sinni með öllu fram hjá þeirri staðreynd að orkuskortur hefur orðið víða um land og að virkjanir og flutnings- og dreifikerfi raforku anna ekki eftirspurn víða á landsbyggðinni. Orkuskortur kann því að hamla bæði atvinnuuppbyggingu og orkuskiptum, s.s. rafbílavæðingu. Þetta hefur raunar þegar átt sér stað á Norðurlandi vestra en áform um iðnaðaruppbyggingu á Hafursstöðum við Húnaflóa strönduðu fyrir fáeinum árum síðan á orkuöflun. Umræddur iðnaður hefði skapað á þriðja hundrað beinna starfa og svipaðan fjölda afleiddra starfa og skipt gríðarlegu máli fyrir byggðaþróun á svæðinu öllu enda Hafursstaðir af mörgum orsökum einkar heppilegur staður, m.a. hvað varðar atvinnusókn og samgöngur af öllu Norðurlandi vestra. Þá hefur verið unnið að öðrum verkefnum á sviðum atvinnuuppbyggingar á svæðinu, t.a.m. hvað varðar framleiðslu koltrefja og basalttrefja í Skagafirði en þar er um að ræða afurðir orkufreks iðnaðar sem þykja henta einkar vel til umhverfisvænna lausna, s.s. í framleiðslu bíla, flugvéla, báta og vindmylluspaða. Um langt skeið hefur jafnframt verið unnið að annarri atvinnuuppbyggingu í bæði Skagafirði og Húnavatnssýslum og má þar t.d. nefna gagnaversiðnað. Enn eru ótalin tækifæri í tengslum við orkuskipti í samgöngum líkt og framleiðslu vetnis hér á landi en stjórnvöld hafa sett sér það markmið að notkun jarðefnaeldsneytis verði hætt hér á landi eigi síðar en árið 2050. Beinast liggur við að slíkt gerist í gegnum rafvæðingu og vetnisvæðingu samgöngutækja en til þess þarf endurnýjanlega orku í miklum mæli, í gegnum vatnsafl, jarðvarma eða vind. Öll eiga framangreind verkefni það sammerkt að krefjast tryggrar raforkuframleiðslu og orkuafhendingar.
Áréttað skal hér að Alþingi hefur áður samþykkt þingsályktun um átak til atvinnuuppbyggingar í Austur-Húnavatnssýslu, með nýtingu raforku sem framleidd er í Blönduvirkjun, til að spyrna gegn byggðaröskun og fólksfækkun sem vart á sér hliðstæður hér á landi hin síðari ár.
Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar mótmælir málsmeðferð verkefnisstjórnar 3. áfanga rammaáætlunar og ofangreindri þingsályktunartillögu sem byggðarráð telur að brjóti í bága við ákvæði laga nr. 48 frá árinu 2011 um verndar- og orkunýtingaráætlun.
Sé horft til hins lögbundna ferils mats á mögulegum orkunýtingarkostum, þá skal samkvæmt 4. mgr. 3. gr. sömu laga í verndar- og orkunýtingaráætlun „í samræmi við markmið laga þessara lagt mat á verndar- og orkunýtingargildi landsvæða og efnahagsleg, umhverfisleg og samfélagsleg áhrif nýtingar, þ.m.t. verndunar.“ Í því skyni skal skipuð verkefnisstjórn en hlutverk hennar er samkvæmt 9. gr. að „annast upplýsingasöfnun, faglegt mat, sbr. 4. mgr. 3. gr., og gerð tillagna til ráðherra vegna verndar- og orkunýtingaráætlunar og er [verkefnisstjórn] samráðsvettvangur vegna hennar. Verkefnisstjórn skal skipa faghópa með sérfræðingum á viðeigandi sviðum sem fari yfir virkjunaráform hver frá sínum sjónarhóli, meti þá með stigagjöf og geri tillögur til verkefnisstjórnar.“ Í 10. gr. segir ennfremur að verkefnisstjórn skuli byggja „faglegt mat sitt á upplýsingum sem fyrir liggja um þætti sem taka skal tillit til í verndar- og orkunýtingaráætlun og beitir við það samræmdum viðmiðum og almennt viðurkenndum aðferðum. Vinna faghópa er lögð til grundvallar matinu.“
Verkefnisstjórn rammaáætlunar skipaði 4 faghópa og skiluðu einungis faghópar 1 og 2 fullnægjandi niðurstöðum. Niðurstöður faghóps 3 nýttust að mati verkefnisstjórnar ekki við endanlega röðun og flokkun virkjunarhugmynda og því ákvað verkefnisstjórn að meta viðfangsefni faghópsins, samfélagsleg áhrif virkjunarhugmynda, með öðrum hætti. Faghópur 4 skilaði frá sér þeirri niðurstöðu að ekki væru forsendur til að meta þjóðhagslega hagkvæmni þeirra virkjunarkosta sem til umfjöllunar væru í þessum 3. áfanga verndar- og orkunýtingaráætlunar.
Að framansögðu er ljóst að ekki liggja fyrir upplýsingar um alla þá þætti sem ber samkvæmt 4. mgr. 3. gr. laga nr. 48/2011 að hafa til hliðsjónar við mat á því hvort orkunýtingarkostir falli í orkunýtingarflokk eða verndarflokk. Samkvæmt 5. gr. laganna skal þá setja umrædda kosti í biðflokk en í „biðflokk verndar- og orkunýtingaráætlunar falla virkjunarkostir sem er talið að afla þurfi frekari upplýsinga um svo meta megi á grundvelli sjónarmiða sem fram koma í 4. mgr. 3. gr. hvort þeir eigi að falla í orkunýtingarflokk eða verndarflokk.“
Torvelt getur reynst að snúa neikvæðri byggðaþróun á Norðurlandi vestra við verði með öllu útilokað að hagnýta fleiri mögulega virkjunarkosti á svæðinu. Órökrétt er með öllu að jafnframt sé óheimilt að rannsaka þá sömu kosti til fulls með tilliti til heildstæðs hagsmunamats. Er það beinlínis andstætt lögum og tilgangi rammaáætlunar þar sem þeirri greiningarvinnu sem liggja á til grundvallar flokkun virkjanakostanna er mjög ábótavant, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Að mati byggðarráðs Sveitarfélagsins Skagafjarðar er útilokað að setja mögulega virkjunarkosti í Skagafirði í verndarflokk án þess að ráðist sé í mun viðameiri rannsóknir og mat á áhrifum þeirra á náttúru og samfélag í Skagafirði og nágrenni og að þar séu rekjanlegar og gagnsæjar niðurstöður allra faghópa rammaáætlunar hafðar til hliðsjónar. Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar fer því fram á að Alþingi breyti framkominni þingsályktunartillögu á þann veg að Skagafjarðarvirkjanir fari í biðflokk rammaáætlunar og verði þar með rannsakaðar til fulls, sem aftur verði grundvöllur ákvarðanatöku síðar meir um hvort þessir kostir verði hagnýttir til orkuöflunar eða þeir látnir njóta verndar.“
Ofangreind bókun samþykkt með tveimur atkvæðum Gísla Sigurðssonar (D) og Stefáns Vagns Stefánssonar (B). Ólafur Bjarni Haraldsson (L) situr hjá við afgreiðslu málsins. Bjarni Jónsson (VG og óháð) stendur ekki að umsögn byggðarráðs um þingsályktunartillöguna og óskar bókað:
VG og óháð vísa til fjölmargra ályktana félagsfunda og stjórna VG í Skagafirði á undanförnum árum um verndun Jökulsánna í Skagafirði. Sveitarstjórnarhópur VG og óháðra fagna því að virkjanakostir sem tengjast Skatastaðavirkjun og Villinganesvirkjun séu endanlega slegnir af og vatnasvæði Héraðsvatna sett í verndarflokk í rammaáætlun. Jökulsárnar í Skagafirði með sinni stórbrotnu náttúru er einstakar og þær ber að vernda, bæði fyrir komandi kynslóðir og á forsendum náttúrunnar sjálfrar. Með því að setja virkjanakosti í Jökulsánum í Skagafirði í verndarflokk er staðfest ótvírætt verndargildi svæðisins og þeir samfélagslegu hagsmunir til framtíðar sem felast í verndun þess.

9.Umsagnarbeiðni; frumvarp til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum og lögum um tekjustofna sveitarfélaga

Málsnúmer 2101274Vakta málsnúmer

Lagður fram tölvupóstur dagsettur 28. janúar 2021 frá nefndasviði Alþingis. Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis sendir til umsagnar frumvarp til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum og lögum um tekjustofna sveitarfélaga (lágmarksíbúafjöldi sveitarfélags), 378. mál.
Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar er sammála meginmarkmiðum frumvarpsins um að auka styrk og sjálfbærni sveitarfélaga og að efla sveitarstjórnarstigið í heild. Byggðarráð telur að sveitarfélögin í landinu eigi að vera öflugur og sjálfbær vettvangur lýðræðislegrar starfsemi og að tryggt verði að þau geti veitt sem jöfnust réttindi og aðgengi íbúa að þjónustu.
Byggðarráð telur að frumvarpið stuðli að eflingu sveitarstjórnarstigsins og getu sveitarfélaganna í landinu til að veita íbúum sínum sem besta þjónustu. Byggðarráð leggur ríka áherslu á að staðið verði við fjárhagslegan stuðning við sameiningar sveitarfélaganna og að tekjustofnar þeirra verðir styrktir til að auka fjárhagslega sjálfbærni þeirra og getu til að veita öfluga þjónustu í öllum byggðum með jafnræði íbúanna að leiðarljósi.

10.Umsagnarbeiðni; þingsályktunartillaga um heimild sveitarfélaga að innheimta umhverfisgjöld

Málsnúmer 2101276Vakta málsnúmer

Lagður fram tölvupóstur dagsettur 28. janúar 2021 frá nefndasviði Alþingis. Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis sendir til umsagnar tillögu til þingsályktunar um heimild sveitarfélaga til að innheimta umhverfisgjöld, 121. mál.

11.Samráð; Drög að stefnu um meðhöndlun úrgangs 2021-2032

Málsnúmer 2101119Vakta málsnúmer

Lagður fram tölvupóstur dagsettur 12. janúar 2021 þar sem umhverfis- og auðlindaráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 6/2021, "Drög að stefnu um meðhöndlun úrgangs 2021-2032". Umsagnarfrestur er til og með 23.02.2021.

12.Samráð; Drög að breytingu á lögum vegna innleiðingar hringrásarhagkerfis

Málsnúmer 2101164Vakta málsnúmer

Lagður fram tölvupóstur dagsettur 15. janúar 2021 þar sem umhverfis- og auðlindaráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 11/2021, "Drög að breytingu á lögum vegna innleiðingar hringrásarhagkerfis". Umsagnarfrestur er til og með 04.02.2021.

Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar fagnar endurskoðun á lögum vegna innleiðingar á hringrásarhagkerfinu. Um afar mikilvægan málaflokk er að ræða og brýnt að haga undirbúningi breytinga og innleiðingu þeirra á sem bestan og raunhæfastan hátt. Í frumvarpinu má finna margar jákvæðar tillögur og ber þá sérstaklega að nefna aukna framleiðendaábyrgð, þ.e. að sá sem valdi mengun bæti umhverfistjón sem af henni hlýst og beri kostnað af því. Í frumvarpinu er bæði lagt til að fjölga þeim vörum er bera framleiðendaábyrgð (úrvinnslugjald) ásamt því að leggja til að framleiðendur standi undir fleiri þáttum við meðhöndlun úrgangs en nú er.
Byggðarráð styður meginatriði frumvarpsins en telur þó mikilvægt að nýtt sé betur svigrúm í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins. Jafnframt þarf að skýra lagatextann svo ávallt sé ljóst hver ber ábyrgð hverju sinni sem og hvað sé innifalið í þeirri ábyrgð. Er þá sérstaklega verið að vísa til framleiðendaábyrgðar og ábyrgðar sveitarfélaga þegar kemur að meðhöndlun úrgangs. Samkvæmt frumvarpsdrögum eiga lagabreytingarnar að taki gildi strax 1. júlí nk. en ákvæði um ábyrgð framleiðenda og innflytjenda á tilteknum plastvörum og veiðarfærum á plasti taka ekki gildi fyrr en 1. janúar 2023. Sveitarfélög hafi jafnframt frest til 1. júlí 2023 til að innleiða aðskilda sérsöfnun á pappír og pappa, plasti og málmum og innleiða breytingar á gjaldheimtu. Ekki verður séð að það að flýta innleiðingu umfram það sem er að finna
í Evróputilskipun vegi upp á móti þeim ókostum er því fylgir. Byggðarráð leggur áherslu á að nauðsynlegt er að gefa sveitarfélögum landsins svigrúm til að tryggja árangursríka innleiðingu án ónauðsynlegs kostnaðar

13.Samráð; Drög að breytingu á lögum nr 48 2011 um verndar- og orkunýtingaráætlun

Málsnúmer 2101239Vakta málsnúmer

Lagður fram tölvupóstur dagsettur 22. janúar 2021 þar sem umhverfis- og auðlindaráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 19/2021, "Drög að breytingu á lögum nr. 48/2011, um verndar- og orkunýtingaráætlun (málmeðferð virkjunarkosta í vindorku)". Umsagnarfrestur er til og með 10.02.2021.

14.Umsögn Sambands ísl. sveitarfélaga um Hálendisþjóðgarð

Málsnúmer 2101253Vakta málsnúmer

Lögö fram til kynningar umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga um frumvarp til laga um Hálendisþjóðgarð, 369. mál, dagsett 25. janúar 2021.
Bjarni Jónsson (Vg og óháð) óskar bókað:
Umsögnin var send út án samráðs við stjórn og áður en stjórn sambands íslenskra sveitarfélaga fjallaði um hana. Þegar þessi umsögn var síðan loksins lögð fyrir stjórn sambandsins gerðu fimm af níu stjórnarmönnum sem sátu fundinn athugasemdir við umsögnina og færðu þær til bókar. Vakin er athygli á þessum mistökum og því að meirihluti fundarmanna gerði athugasemdir við þá umsögn sem var send til alþingis og sveitarfélaga í nafni stjórnar.

15.Staðan í samgöngumálum - bókun bæjarráðs Fjallabyggðar

Málsnúmer 2101258Vakta málsnúmer

Lagður fram til kynningar tölvupóstur dagsettur 26. janúar 2021 frá Fjallabyggð, varðandi bókun 681. fundar bæjarráðs Fjallabyggðar um stöðu samgöngumála.

Fundi slitið - kl. 13:40.