Byggðarráð Skagafjarðar

779. fundur 30. mars 2017 kl. 09:00 - 10:43 að Sæmundargötu 7a
Nefndarmenn
  • Stefán Vagn Stefánsson formaður
  • Sigríður Svavarsdóttir varaform.
  • Bjarni Jónsson aðalm.
  • Sigurjón Þórðarson varam. áheyrnarftr.
Starfsmenn
  • Friðrik Margeir Friðriksson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
  • Ásta Björg Pálmadótttir sveitarstjóri
Fundargerð ritaði: Margeir Friðriksson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
Dagskrá

1.Kirkjutorg 5,gamla pósthúsið - Umsagnarbeiðni vegna rekstrarleyfis

1703280

Lagður fram tölvupóstur úr máli 1703278, dagsettur 22. mars 2017 frá sýslumannsembættinu á Norðurlandi vestra þar sem óskað er umsagnar um umsókn Vicki Marlene O´Shea, kt. 021158-2249, Kirkjutorgi 5, 550 Sauðárkróki, f.h. Ausis ehf. kt. 420310-0800, um leyfi til að reka gististað í flokki II íbúð að Kirkjutorgi 5, 550 Sauðárkróki.

Byggðarráð gerir ekki athugasemdir við umsóknina.

2.Umsókn um lækkun fasteignaskatts

1701339

Sjá trúnaðarbók.

3.Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga - beiðni um upplýsingar

1609067

Lagt fram bréf dagsett 7. mars 2017 frá Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga varðandi ársreikning ársins 2015 og fjárhagsáætlun 2017-2020.

Byggðarráð samþykkir að fela sveitarstjóra, sviðsstjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs og endurskoðanda sveitarfélagsins að gera drög að svari til nefndarinnar.

4.Fjárhagsupplýsingar á vefinn

1703071

Byggðarráð samþykkir að gengið verði til samninga við Capacent um verkefni er snýr að birtingu fjárhagsupplýsinga úr bókhaldi sveitarfélagsins á aðgengilegu formi á heimasíðu þess.

5.Leikskólinn Tröllaborg Hofsós - húsnæðismál

1609324

Rætt um stöðu leikskólamála á Hofsósi. Búið er að skoða húsnæðið að Túngötu 10 á Hofsósi og hentar húsnæðið fyrir leikskóla til bráðabirgða ef öll tilskilin leyfi fást. Byggðarráð samþykkir að vinna áfram að verkefninu og felur skipulags- og byggingafulltrúa að hefja grenndarkynningu og afla tilskilinna leyfa.

6.Háholt

1703351

Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar lýsir yfir þungum áhyggjum af stöðu meðferðarheimilisins Háholts en uppi eru áform um að loka heimilinu frá og með næsta hausti. Fyrirhugað er að færa starfsemina á höfuðborgarsvæðið og áætlað að veita um 500 milljónum króna í nýbyggingu undir starfsemina.

Byggðarráð telur það vera undarleg vinnubrögð að hálfu ráðuneytis og Barnaverndarstofu að aldrei hefur verið rætt við forsvarsmenn sveitarfélagsins í aðdraganda þessarar ákvörðunar en Sveitarfélagið Skagafjörður er eigandi húsnæðis sem hýsir starfsemi Háholts. Sveitarfélagið byggði húsið sérstaklega undir starfsemina á sínum tíma og fór í miklar endurbætur á húsnæðinu árið 2014 til að aðlaga það betur að starfseminni. Samningur sveitarfélagsins og barnaverndarstofu um húsnæðið undir meðferðarheimilið rennur út í ágúst á næsta ári. Sveitarfélagið er jafnframt tilbúið að þróa áfram þjónustuna í samvinnu við ráðuneytið og Barnaverndarstofu.

Byggðaráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar óskar eftir að fá fund með velferðarráðherra til að ræða framtíð meðferðarheimilisins Háholts í Skagafirði. Er það ósk byggðarráðs að af þeim fundi geti orðið sem fyrst.

7.Tekjustofnar sveitarfélaga - sérstakt framlag úr Jöfnunarsjóði

1703352

Fyrir Alþingi liggur frumvarp um breytingar á lögum um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995 sem felur í sér grundvallarbreytingu á starfsemi Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Boðuð breyting felur ekki í sér jöfnun á tekjum sveitarfélaga og með engu móti er tekið tillit til þess hvort sveitarfélög þurfi að fullnýta tekjustofna. Þá felur frumvarpið í sér fordæmalausa skerðingu á tekjustofnum sveitarfélaga með afturvirkjum hætti. Slíkt orkar tvímælis í ljósi 78. gr. stjórnarskrár um að tekjustofnar sveitarfélaga skuli ákveðnir með lögum en brýtur einnig blað varðandi samskipti ríkis og sveitarfélaga. Sveitarfélög geta þá ekki byggt á gildandi lögum varðandi áætlanir um tekjur þeirra.

Í ljósi framangreinds samþykkir byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar að undirbúa málsókn, þar sem krafist verður viðurkenningu á bótaábyrgð íslenska ríkisins vegna skerðingar á jöfnunarframlögum til sveitarfélaganna, verði fyrirliggjandi frumvarp að lögum.

Greinargerð:

Lagaákvæði um starfsemi Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga er að finna í III. kafla laga um tekjustofna sveitarfélaga. Hlutverk sjóðsins er að jafna mismunandi útgjaldaþörf og skatttekjur sveitarfélaga með framlögum úr sjóðnum, sbr. 8. gr. Tekjur sjóðsins voru 2015, m.a. 2,12% framlag af innheimtum skatttekjum ríkissjóðs, sbr. a liður 8. gr. a. (hlutfallið hefur nú verið hækkað).

Það fyrirkomulag að íslenska ríkið ráðstafi tilteknu hlutfalli af beinum og óbeinum sköttum ríkisins til Jöfnunarsjóðs, er að rekja til laga um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 91/1989. Með því hefur löggjafinn ákveðið að tilteknu hlutfalli af tekjum ríkissjóðs verði varið til jöfnunar á stöðu sveitarfélaga. Hluti bankaskatts féll sjálfkrafa til Jöfnunarsjóðs á árunum 2014-2016.

Ráðstöfun á tekjum Jöfnunarsjóðs, er gerð með bundnum framlögum (10.gr.), sérstökum framlögum (11.gr) og jöfnunarframlögum, sbr. 12. gr. tekjustofnalaga nr. 4/1995. Jöfnunarframög, skiptast í tekjujöfnunarframlög og útgjaldajöfnunarframlög.

Í lokamálslið 12. gr. tekjustofnalaga, er kveðið á um að til jöfnunarframlaga skuli verja tekjum sjóðsins vegna framlaga ríkisins til sjóðsins, sem eru umfram ráðstöfun skv. 10. og 11. gr. laganna. Jöfnunarsjóður er því gegnumstreymissjóður og skal tilteknum tekjum hvers árs ráðstafað til sveitarfélaga sama ár. Það fyrirkomulag er lögbundið.

Byggt er á þessum lagagrundvelli jöfnunarframlaga í reglugerð um Jöfnunarsjóð, nr. 960/2010, sbr. 8. gr. reglugerðarinnar. Niðurlagsákvæði greinarinnar orðast svo:

Endanlegt uppgjör skal fara fram eigi síðar en í árslok á grundvelli upplýsinga um íbúafjölda sveitarfélaga 1. janúar á sama ári og leiðréttrar skrár um álagðar skatttekjur sveitarfélaga.

Þrátt fyrir framangreind ákvæði laga og reglugerða hefur fjárhæð sem nemur tekjum Jöfnunarsjóðs af svokölluðum bankaskatti vegna áranna 2014, 2015 og 2016 ekki verið úthlutað. Þeir fjármunir eru tekjur sjóðsins, skv. a-lið 8.gr og gildir ákvæði 12. gr. laganna um Jöfnunarfamlög um þá.

Ekki verður séð nokkur lagaheimild fyrir þeirri ráðstöfun að halda þessum fjármunum undan við úthlutun úr sjóðnum. Áréttað er að þótt ráðherra fari með yfirstjórn Jöfnunarsjóðs, sbr. 16. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga, takmarkast þær heimildir við ákvæði laganna.

Samkvæmt 78. gr. stjórnarskrár skulu tekjustofnar sveitarfélaga ákveðnir með lögum, svo og réttur þeirra til að ákveða hvort og hvernig þeir eru nýttir. Ákvæðinu er skipað í mannréttindakafla stjórnarskrár. Þá er jafnframt unnt að líta til Evrópusáttmála um sjálfsstjórn sveitarfélaga, sem íslenska ríkið hefur fullgilt, sbr. t.d. 9.gr. sáttmálans um tekjustofna sveitarfélaga.

Framlög úr Jöfnunarjóði eru einn tekjustofn sveitarfélaga, sbr. 1.gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga. Á grundvelli reglugerðarheimilda setur ráðhera reglur um úthlutanir úr sjóðnum, að fenginni umsögn ráðgjafarnefndar Jöfnunarsjóðs. Sjóðurinn er gegnumstreymissjóður og gera gildandi reglur ráð fyrir að tekjum sjóðsins vegna hvers árs verði úthlutað til sveitarfélaga sama ár.

Með vísan til almennra reglna kröfuréttar, ákvæða tekjustofnalaga og reglugerðar, nr. 960/2010, um Jöfnunarjóð, eiga sveitarfélög lögvarinn rétt til framlaga úr sjóðnum. Fjárhæð jöfnunarframlaga skal nema tekjum sjóðsins af framlögum ríkisins, sem standa eftir þegar bundnum og sérstökum framlögum hefur verið ráðstafað. Samkvæmt gildandi lögum hefur ráðherra ekki heimildir til að aftra því að slík krafa stofnist. Á grundvelli þess eiga sveitarfélög lögvarða kröfu um jöfnunarframlög úr sjóðnum. Sveitarfélög geta því krafist greiðslu jöfnunarframlaga úr sjóðnum með dómi, sem nemur rétti hvers sveitarfélags til þeirra fjármuna sem haldið hefur verið undan við úthlutun, án lagaheimildar.

Gildandi lög um Jöfnunarsjóð, sbr. lokaml. 12. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga, fela í sér að verja skuli tekjum sjóðsins af framlögum ríkisins, sem standa eftir þegar ráðstöfun bundinna og sérstakra framlaga hefur farið fram í jöfnunarframlög. Ekki er heimild til uppsöfnunar þessara fjármuna í sjóðnum. Ef Jöfnunarsjóður hefur ákveðið, að halda undan tekjum sjóðsins vegna framlags ríkisins vegna bankaskatts, þegar fjárhæðir framlaga vegna áranna 2014, 2015 og 2016, eru ákveðnar, geta slíkar ákvaraðanir valdið einstökum sveitarfélögum tjóni. Ríkið getur borið skaðabótaábyrgð á því tjóni. Um þetta er til hliðsjónar vísað til dóms Hæstaréttar í máli nr. 631/2014, Fjarðabyggð gegn íslenska ríkinu. Í málinu reyndi á þá stöðu að ríkið framfylgdi ekki lagaskyldu um setningu reglugerðar um endurgreiðslu virðisaukaskatts til sveitarfélags við tilteknar aðstæður. Þótt viðkomandi lagaákvæði hafi síðar fallið úr gildi, var ríkið dæmt til greiðslu skaðabóta til sveitarfélagsins sem nam fjárhæð endurgreiðslu virðisaukaskatts sem sveitarfélaginu hefði borið.

Það er álit byggðarráðs að ákvæði 78. gr. stjórnarskrár um að tekjustofnar sveitarfélaga skuli ákveðnir með lögum, feli í sér að tekjustofnar sveitarfélaga ráðist af gildandi lögum. Í því felist jafnframt réttur sveitarfélaga að tekjustofnar séu fyrirsjáanlegir að nokkru marki. Í stjórnarskrá er ekki að finna almenna reglu um bann við afturvirkni laga, en afturvirkni skattalaga er sérstaklega bönnuð, sbr. 2. mgr. 77. gr. Reglur um tekjustofna sveitarfélaga hafa skyldleika við skattareglur og mögulegt að líta til þeirra tengsla við skýringu á rétti sveitarfélaga til lögákveðinna tekjustofna. Þá hefur í íslenskum stjórnskipunarrétti verið byggt á því að takmörk séu fyrir því að íþyngjandi lögum verði beitt afturvirkt. Reglur sem umdeilt frumvarp fela í sér, leiða til þess að sveitarfélög sem ella hefðu fengið jöfnunarframlög úr Jöfnunarjóði verða fyrir skerðingu á tekjustofnum með afturvirkum hætti. Slík löggjöf er íþyngjandi.

Með vísan til þeirrar ályktunar að sveitarfélög eigi nú þegar lögvarðar kröfur til útgreiðslu jöfnunarframlaga vegna tekna Jöfnunarsjóðs af bankaskatti, er verulegt álitamál hvort framkomið frumvarp geti fellt slikar kröfur úr gildi svo samræmist 72. gr. stjórnarskrár um vernd eignaréttinda. Ef lögvarðar kröfur til greiðslu fjármuna eru felldar niður með lögum, er unnt að jafna slíkri stöðu við eignarnám. Íslenska ríkið getur þá borið bótaábyrgð á því tjóni sem eigandi kröfunnar verður fyrir.

Samkvæmt framangreindu er það álit byggðarráðs að einstök sveitarfélög eigi lögvarða kröfu um jöfnunarframlög úr Jöfnunarsjói miðað við gildandi lög og reglugerðir á árinu 2014, 2015 og 2016, vegna tekna Jöfnunarsjóðs af bankaskatti, sem haldið hefur verið undan úthlutun.

Í annan stað er mögulegt að líta svo á að sveitarfélögum hafi nú þegar verið valdið skaðabótaskyldu tjóni, með þeirri stjórnsýslu Jöfnunarsjóðs að halda fjármunum undan úthlutun jöfnunarframlaga árið 2014, 2015 og 2016, í ósamræmi við gildandi lög og reglugerðir. Lögvarin krafa til skaðabóta hefur þá stofnast.

Ef fyrirliggjandi lagafrumvarp verður samþykkt af Alþingi, getur komið til þess að íslenska ríkið beri bótaábyrgð á skertum framlögum til einstakra sveitarfélaga, enda fælu lögin í sér að lögvarðar kröfur sveitarfélaga væru þar með felldar niður. Fjárhæð skaðabóta miðaðist þá við mismun réttar til úthlutunar samkvæmt gildandi lögum og hinum nýju reglum. Í því ljósi fellst nokkur áhætta í samþykkt frumvarpsins fyrir ríkissjóð, enda leiddi slík niðurstaða til greiðslna úr ríkissjóði umfram þá fjármuni sem fyrirliggjandi frumvarpi er ætlað að ráðstafa.

8.Umsagnarbeiðni - tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða

1703353

Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar vill með umsögn sinni nú benda á að í þeirri þingsályktunartillögu sem lögð hefur verið fram fyrir Alþingi er aðeins lagt til að 1 virkjunarkostur á vatnasviði á Norðurlandi vestra verði í orkunýtingarflokki og 1 virkjunarkostur í vindorku. Er þar um að ræða annars vegar veituleið Blönduvirkjunar og hins vegar Blöndulund, þar af aðeins um 30 MW í tiltölulega hagkvæmu vatnsafli. Í verndarflokk fara hins vegar 4 virkjunarkostir á vatnasviði á Norðurlandi vestra.

Samkvæmt 6. gr. laga nr. 48 frá árinu 2011 um verndar- og orkunýtingaráætlun, er stjórnvöldum „ekki heimilt að veita leyfi tengd orkurannsóknum eða orkuvinnslu vegna virkjunarkosta sem eru í verndarflokki eða eru á svæðum sem ástæða er talin til að friðlýsa gagnvart orkuvinnslu. Þá eru aðrar orkurannsóknir sem ekki eru leyfisskyldar einnig óheimilar.“ Með öðrum orðum, nái tillaga ráðherra fram að ganga, verður með öllu óheimilt um ófyrirséða framtíð að stunda orkurannsóknir á þeim virkjunarkostum sem lagðir eru til að fara í verndarflokk á Norðurlandi vestra, nema fyrir Orkustofnun til að geta sinnt lögbundnu hlutverki sínu, í samanburðartilgangi eða öðrum almennum tilgangi.

Er grafalvarlegt að umhverfisráðherra horfi í þingsályktunartillögu sinni með öllu fram hjá þeirri staðreynd að orkuskortur er yfirvofandi víða um land og að virkjanir og dreifikerfi raforku anna ekki eftirspurn víða á landsbyggðinni. Að óbreyttu mun orkuskortur hamla bæði atvinnuuppbyggingu og orkuskiptum, s.s. rafbílavæðingu. Þetta hefur raunar þegar átt sér stað á Norðurlandi vestra en áform um iðnaðaruppbyggingu á Hafursstöðum við Húnaflóa stranda á orkuöflun. Umræddur iðnaður myndi skapa á þriðja hundrað beinna starfa og svipaðan fjölda afleiddra starf og skipta gríðarlegu máli fyrir byggðaþróun á svæðinu öllu enda Hafursstaðir af mörgum orsökum einkar heppilegur staður, m.a. hvað varðar atvinnusókn og samgöngur af öllu Norðurlandi vestra. Þá hefur verið unnið að öðrum verkefnum á sviðum atvinnuuppbyggingar á svæðinu, t.a.m. hvað varðar framleiðslu koltrefja og basalttrefja í Skagafirði en þar er um að ræða afurðir orkufreks iðnaðar sem þykja henta einkar vel til umhverfisvænna lausna, s.s. í framleiðslu bíla, flugvéla, báta og vindmylluspaða. Um langt skeið hefur jafnframt verið unnið að annarri atvinnuuppbyggingu í bæði Skagafirði og Húnavatnssýslum og má þar t.d. nefna gagnaversiðnað. Öll eiga þessi verkefni það sammerkt að krefjast tryggrar raforkuframleiðslu og orkuafhendingar.

Áréttað skal hér að Alþingi hefur áður samþykkt þingsályktun um átak til atvinnuuppbyggingar í Austur-Húnavatnssýslu, með nýtingu raforku sem framleidd er í Blönduvirkjun, til að spyrna gegn byggðaröskun og fólksfækkun sem vart á sér hliðstæður hér á landi hin síðari ár.

Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar mótmælir málsmeðferð verkefnisstjórnar 3. áfanga rammaáætlunar og ofangreindri þingsályktunartillögu sem byggðarráð telur að brjóti í bága við ákvæði laga nr. 48 frá árinu 2011 um verndar- og orkunýtingaráætlun.

Sé horft til hins lögbundna ferils mats á mögulegum orkunýtingarkostum, þá skal samkvæmt 4. mgr. 3. gr. sömu laga í verndar- og orkunýtingaráætlun „í samræmi við markmið laga þessara lagt mat á verndar- og orkunýtingargildi landsvæða og efnahagsleg, umhverfisleg og samfélagsleg áhrif nýtingar, þ.m.t. verndunar.“ Í því skyni skal skipuð verkefnisstjórn en hlutverk hennar er samkvæmt 9. gr. að „annast upplýsingasöfnun, faglegt mat, sbr. 4. mgr. 3. gr., og gerð tillagna til ráðherra vegna verndar- og orkunýtingaráætlunar og er [verkefnisstjórn] samráðsvettvangur vegna hennar. Verkefnisstjórn skal skipa faghópa með sérfræðingum á viðeigandi sviðum sem fari yfir virkjunaráform hver frá sínum sjónarhóli, meti þá með stigagjöf og geri tillögur til verkefnisstjórnar.“ Í 10. gr. segir ennfremur að verkefnisstjórn skuli byggja „faglegt mat sitt á upplýsingum sem fyrir liggja um þætti sem taka skal tillit til í verndar- og orkunýtingaráætlun og beitir við það samræmdum viðmiðum og almennt viðurkenndum aðferðum. Vinna faghópa er lögð til grundvallar matinu.“

Verkefnisstjórn rammaáætlunar skipaði 4 faghópa og skiluðu einungis faghópar 1 og 2 fullnægjandi niðurstöðum. Niðurstöður faghóps 3 nýttust að mati verkefnisstjórnar ekki við endanlega röðun og flokkun virkjunarhugmynda og því ákvað verkefnisstjórn að meta viðfangsefni faghópsins, samfélagsleg áhrif virkjunarhugmynda, með öðrum hætti. Faghópur 4 skilaði frá sér þeirri niðurstöðu að ekki væru forsendur til að meta þjóðhagslega hagkvæmni þeirra virkjunarkosta sem til umfjöllunar væru í þessum 3. áfanga verndar- og orkunýtingaráætlunar.

Að framansögðu er ljóst að ekki liggja fyrir upplýsingar um alla þá þætti sem ber samkvæmt 4. mgr. 3. gr. laga nr. 48/2011 að hafa til hliðsjónar við mat á því hvort orkunýtingarkostir falli í orkunýtingarflokk eða verndarflokk. Samkvæmt 5. gr. laganna skal þá setja umrædda kosti í biðflokk en í „biðflokk verndar- og orkunýtingaráætlunar falla virkjunarkostir sem er talið að afla þurfi frekari upplýsinga um svo meta megi á grundvelli sjónarmiða sem fram koma í 4. mgr. 3. gr. hvort þeir eigi að falla í orkunýtingarflokk eða verndarflokk.“

Torvelt getur reynst að snúa neikvæðri byggðaþróun á Norðurlandi vestra við verði með öllu útilokað að hagnýta fleiri mögulega virkjunarkosti á svæðinu. Órökrétt er með öllu að jafnframt sé óheimilt að rannsaka þá sömu kosti til fulls með tilliti til heildstæðs hagsmunamats. Er það beinlínis andstætt lögum og tilgangi rammaáætlunar þar sem þeirri greiningarvinnu sem liggja á til grundvallar flokkun virkjanakostanna er mjög ábótavant, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Að mati byggðarráðs Sveitarfélagsins Skagafjarðar er útilokað að setja mögulega virkjunarkosti í Skagafirði í verndarflokk án þess að ráðist sé í mun viðameiri rannsóknir og mat á áhrifum þeirra á náttúru og samfélag í Skagafirði og nágrenni og að þar séu rekjanlegar og gagnsæjar niðurstöður allra faghópa rammaáætlunar hafðar til hliðsjónar. Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar fer því fram á að Alþingi breyti framkominni þingsályktunartillögu á þann veg að Skagafjarðarvirkjanir fari í biðflokk rammaáætlunar og verði þar með rannsakaðar til fulls, sem aftur verði grundvöllur ákvarðanatöku síðar meir um hvort þessir kostir verði hagnýttir til orkuöflunar eða þeir látnir njóta verndar.

Ofangreind bókun samþykkt með tveimur atkvæðum Stefáns Vagns Stefánssonar (B) og Sigríðar Svavarsdóttur (D). Bjarni Jónsson greiðir atkvæði á móti (VG).

Bjarni Jónsson óskar bókað:

VG og óháðir vísa til fjölmargra ályktanna félagsfunda og stjórna VG í Skagafirði á undanförnum árum um verndun Jökulsánna í Skagafirði. Sveitarstjórnarhópur VG og óháðra fagna því að virkjanakostir sem tengjast Skatastaðavirkjun og Villinganesvirkjun séu endanlega slegnir af og vatnasvæði Héraðsvatna sett í verndarflokk í rammaáætlun. Jökulsárnar í Skagafirði með sinni stórbrotnu náttúru er einstakar og þær ber að vernda, bæði fyrir komandi kynslóðir og á forsendum náttúrunnar sjálfrar. Með því að setja virkjanakosti í Jökulsánum í Skagafirði í verndarflokk er staðfest ótvírætt verndargildi svæðisins og þeir samfélagslegu hagsmunir til framtíðar sem felast í verndun þess.

9.Fundagerðir 2017 - SSNV

1701003

Fundargerð 15. fundar stjórnar SSNV frá 7. mars 2017 lögð fram til kynningar á 779. fundi byggðarráðs þann 30. mars 2017

10.25. ársþing SSNV

1703039

Lagt fram til kynningar fundarboð dagsett 10. mars 2017 vegna 25. ársþings SSNV sem verður haldið þann 7. apríl 2017 á Hótel Laugarbakka í Húnaþingi vestra.

Fundi slitið - kl. 10:43.