Fara í efni

Byggðarráð Skagafjarðar

42. fundur 05. apríl 2023 kl. 14:00 - 15:30 að Sæmundargötu 7a
Nefndarmenn
  • Einar Eðvald Einarsson formaður
  • Sólborg Sigurrós Borgarsdóttir varaform.
  • Álfhildur Leifsdóttir aðalm.
  • Jóhanna Ey Harðardóttir áheyrnarftr.
Starfsmenn
  • Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri
Fundargerð ritaði: Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri
Dagskrá

1.Starfsemi Háskólans á Hólum

Málsnúmer 2304002Vakta málsnúmer

Til fundarins komu Hólmfríður Sveinsdóttir, rektor Háskólans á Hólum, og Edda Matthíasdóttir framkvæmdastjóri háskólans, til að ræða fjölbreytta og öfluga starfsemi Háskólans á Hólum.

2.Ákvæði laga um búfjárhald, ágang búfjár o.fl. þeim tengt

Málsnúmer 2304003Vakta málsnúmer

Byggðarráð samþykkir eftirfarandi bókun:
Sveitarfélagið Skagafjörður skorar á matvælaráðuneytið að beita sér sem fyrst fyrir endurskoðun og samræmingu ákvæða laga um búfjárhald, ágang búfjár o.fl. þeim tengt. Fram hefur komið að Umboðsmaður Alþingis telur að misræmi sé á milli laga nr. 38/2013, (8. og 9. gr.) og laga nr. 6/1986 (33. og 34. gr.), auk þess sem gæta þarf að ákvæðum girðingarlaga nr. 135/2001.
Það er jafnt búfjáreigendum sem landeigendum hagsmunamál að lagalegri óvissu þessara mála verði eytt sem fyrst.

3.Sundlaugin Sólgörðum, rekstraruppgjör 2022 og áætlun 2023

Málsnúmer 2302166Vakta málsnúmer

Samkvæmt samningi á milli Sveitarfélagsins Skagafjarðar og Sótahnjúks ehf. frá 15. júlí 2020 um rekstur og viðhald sundlaugarinnar á Sólgörðum í Fljótum skal byggðarráð Skagafjarðar samþykkja viðhald og viðhaldsreikninga sem aðstandendur Sótahnjúks ehf. framvísa.
Starfsmenn veitu- og framkvæmdasviðs Skagafjarðar hafa farið yfir þau gögn sem Sótahnjúkur ehf. hefur lagt fram varðandi viðhald á sundlauginni og kynnt sér það með úttekt á staðnum. Undir þessum dagskrárlið kom Steinn Leó Sveinsson sviðsstjóri veitu- og framkvæmdasviðs sveitarfélagsins til fundarins.
Byggðarráð samþykkir að greiða útlagðan kostnað af viðhaldsfé eignasjóðs í samræmi við samning á milli aðilanna.

4.Styrkbeiðni Skotfélagið Markviss

Málsnúmer 2303275Vakta málsnúmer

Lagt fram ódagsett bréf frá formanni og gjaldkera Skotfélagsins Markviss á Blönduósi þar sem óskað er eftir fjárstuðningi vegna lagningar vatnsveitu að skotæfingasvæði félagsins við Blönduós.
Byggðarráð telur sér ekki fært að verða við erindinu.

5.Aðstaða á Sauðárkróksvelli

Málsnúmer 2303280Vakta málsnúmer

Tekið fyrir erindi frá framkvæmdastjóra knattspyrnudeildar Tindastóls og yfirmanni knattspyrnumála hjá félaginu þar sem óskað er eftir samstarfi við sveitarfélagið Skagafjörð um úrbætur á Sauðárkróksvelli, m.a. hvað varðar aðstöðu til sjónvarpsútsendinga, geymslu búnaðar og moksturs á vellinum.
Byggðarráð samþykkir að óska eftir að fá formann og framkvæmdastjóra knattspyrnudeildar Tindastóls til næsta fundar ráðsins.

6.Umsagnarbeiðni; Frumvarp til laga um Land og skóg

Málsnúmer 2303282Vakta málsnúmer

Lagður fram tölvupóstur frá Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis, dags. 28. mars 2023, þar sem sent er til umsagnar frumvarp til laga um Land og skóg, 858. mál. Óskað er eftir að undirrituð umsögn berist eigi síðar en 14. apríl.
Byggðarráð tekur jákvætt í fyrirhugaða sameiningu og samþykkir eftirfarandi umsögn:
Við sameiningu Landgræðslu og Skógræktar í eina stofnun má benda á tækifæri sem felast í uppbyggingu rannsókna og ráðgjafar í Skagafirði á sviðum nýrrar stofnunar. Fellur það vel að stefnu ríkisstjórnarinnar um að aukin skógrækt og landgræðsla eigi að leika veigamikið hlutverk í aðgerðum til að auka kolefnisbindingu hér á landi á næstu árum og áratugum. Báðar stofnanir hafa nú í dag starfstöðvar í Skagafirði.
Flest stöðugildi á vegum ríkisins eru staðsett á höfuðborgarsvæðinu, enda er meirihluti landsmanna búsettur þar. Hins vegar er hlutfall stöðugilda á höfuðborgarsvæðinu (72%) hærra en hlutfall landsmanna sem þar býr (64%). Þetta á ekki við um neinn annan landshluta. Íbúaþróun hefur verið óhagfelldust yfir landið undanfarin ár á Norðurlandi vestra og Vestfjörðum. Í ljósi framangreinds má sjá að bæði fagleg og byggðarleg sjónarmið mæla mjög með því að við sameiningu Landgræðslu og Skógræktar í eina stofnun verði horft til tækifæra sem þá gætu skapast við eflingu starfsemi stofnunarinnar í Skagafirði.

7.Umsagnarbeiðni; Þingsályktunartillaga um landbúnaðarstefnu til ársins 2040

Málsnúmer 2304009Vakta málsnúmer

Lagður fram tölvupóstur frá Atvinnuveganefnd Alþingis, dags. 31. mars 2023, þar sem send er til umsagnar tillaga til þingsályktunar um landbúnaðarstefnu til ársins 2040, 914. mál. Óskað er eftir að undirrituð umsögn berist eigi síðar en 17. apríl.
Byggðarráð Skagafjarðar fagnar að unnin hafi verið þingályktunartillaga um landbúnaðarstefnu til ársins 2040. Í framkominni tillögu eru lögð fram 10 megin viðfangsefni sem öll eru mikilvæg. Byggðarráð saknar þess þó að sjá ekki skýrari markmið og harðari kröfur til sem minnstrar lyfjanotkunar í matvælaframleiðslu en lyfjanotkun á Íslandi er ein sú minnsta í landbúnaði í allri Evrópu. Það er hins vegar ekki sjálfgefið að svo verði áfram og því þarf að vernda núverandi stöðu íslenskrar framleiðslu. Framleiðsla matvæla án lyfja er stór partur af fæðuöryggi þjóðarinnar. Jafnframt þarf að vera tryggt að annað fóður sem nýtt er til framleiðslunnar, hvort sem það er innflutt eða framleitt hér á landi, sé ekki hættulegt neytendum sem borða afurðirnar. Í lið nr. 6 er fjallað um alþjóðleg markaðsmál en þar ætti að kveða sterkara að orði um að öll innflutt matvæli eigi að lúta sömu uppruna- og aðbúnaðarkröfum og gerðar eru til innlendrar framleiðslu. Annað er ósanngjarnt gagnvart bæði innlendum framleiðendum og neytendum.
Í liðnum „Stefnan í framkvæmd“, þarf að liggja fyrir með skýrari hætti hver eigi að ábyrgð á að henni sé framfylgt, ásamt því að hver sé ábyrgðaraðili hvers markmiðs fyrir sig og hver kosti þá vinnu og framkvæmd sem fara þarf í svo markmiðin náist.

8.Umsagnarbeiðni; Þingsályktunartillaga um matvælastefnu til ársins 2040

Málsnúmer 2304010Vakta málsnúmer

Lagður fram tölvupóstur frá Atvinnuveganefnd Alþingis, dags. 31. mars 2023, þar sem send er til umsagnar tillaga til þingsályktunar um matvælastefnu til ársins 2040, 915. mál. Óskað er eftir að undirrituð umsögn berist eigi síðar en 17. apríl.
Byggðarráð Skagafjarðar fagnar að unnin hafi verið tillaga til þingsályktunar um matvælastefnu til ársins 2040 en leggur áherslu á að nokkur atriði verði skýrð betur. Tillagan byggir á 6 þáttum sem allir hafa mikilvægar fyrirsagnir. Í flestum þeirra eru samt útþynntar eða loðnar lýsingar á því sem ætlað er að gera. Sem dæmi má nefna lið nr. 4 en þar stendur „4.1. Stuðlað verði að því að matvæli sem framleidd eru hér á landi sem og aðflutt matvæli séu örugg og heilnæm“. Byggðarráð telur að hér eigi að kveða mun fastar að orði og segja að matvæli sem hér eru framleidd skuli vera örugg og heilnæm og það sama skal eiga við um öll innflutt matvæli. Öryggi og heilnæmi matvælanna snýr meðal annars að kröfum um aðbúnað dýra, lyfjanotkun í framleiðslu og staðfestum uppruna þeirrar vöru sem seld er. Sömu kröfur verða að vera til vara sem fluttar eru til landsins og þess sem framleitt er hér á landi.
Eins má nefna lið nr. 5 en í línu 5.1 stendur „Stuðlað verði að því að neytendur séu vel upplýstir um uppruna, innihald og kolefnisspor matvæla“. Byggðarráð telur þetta allt of veikt til orða tekið og krefst þess að neytendur verði upplýstir með skýrum og greinilegum hætti um uppruna, innihald og kolefnisspor allra þeirra matvæla sem boðin eru til sölu í verslunum á Íslandi, hvort sem þau eru innlend framleiðsla eða innflutt. Við útreikning á kolefnisspori matvælanna er einnig mikilvægt að stuðst sé við sömu forsendur og reikniaðferðir. Eins þurfa merkingar á matvælum sem flutt eru óunnin til landsins og síðan meðhöndluð lítillega og endurpökkuð að vera skýr um uppruna hrávörunnar og þá hvers vegna hún sé kominn í innlendar neytendaumbúðir.
Varðandi allar merkingar á vörum þá er eðlilegt í matvælastefnu til ársins 2040 að tekið sé fyrir að vörur sem eru innfluttar megi ekki pakka í umbúðir sem á einhvern hátt gefa til kynna að þær séu íslenskar að megin uppistöðu, samanber notkun fánalitanna á innfluttum landbúnaðarvörum í dag.
Undir lið nr. 6 er fjallað um rannsóknir, nýsköpun og menntun. Í lið 6.4 stendur „Hlúð verði að grunn rannsóknum og vöktun lifandi auðlinda og matvæla“. Byggðarráð telur að þessi liður og fleiri sambærilegir með álíka loðið orðalag í framlagðri stefnu þurfi að vera skýrari um að ætlunin sé að fara í raunverulegar aðgerðir til að tryggja örugga matvælaframleiðslu á Íslandi og sanngjarnar og eðlilegar kröfur til innfluttra matvæla með bæði hagsmuni neytenda og innlendra framleiðenda að leiðarljósi.
Byggðarráð er einnig sammála um að skýra þurfi betur markmið og meiningu nokkurra liða. Má þar nefna t.d. lið nr 2.4 en þar stendur: „Stuðlað verði að uppbyggingu innviða um allt land sem geri fyrirtækjum í matvælaframleiðslu og nýtingu náttúruauðlinda kleift að fjárfesta og þróast óháð staðsetningu“.
Einnig þarf umfjöllun um stefnuna í framkvæmd að vera skýrari. Það þarf að vera skýrt að þær áætlanir sem gerðar verða til 5 ára um framfylgd matvælastefnunnar hafi hver um sig bæði ábyrgðaraðila og fjármögnun svo hún nái markmiðum sínum.

9.Niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar

Málsnúmer 2303309Vakta málsnúmer

Lagður fram til kynningar tölvupóstur frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, dags. 29.3. 2023, þar sem upplýst er um möguleika á að ríkið taki þátt í stofnkostnaði við umhverfisvæna orkuöflun sem dregur úr rafhitun eða olíukyndingu, t.d. með varmadælum, viðarkyndingu o.s.frv. Íbúðareigendur sem njóta niðurgreiddrar rafhitunar og vilja taka upp umhverfisvæna orkuöflun hafa því möguleika á að sækja um styrk í því skyni í gegnum þjónustugátt á vef Orkustofnunar.

Fundi slitið - kl. 15:30.