Fara í efni

Byggðarráð Skagafjarðar

14. fundur 21. september 2022 kl. 13:30 - 16:25 að Sæmundargötu 7a
Nefndarmenn
  • Einar Eðvald Einarsson formaður
  • Gísli Sigurðsson varaform.
  • Álfhildur Leifsdóttir aðalm.
  • Jóhanna Ey Harðardóttir áheyrnarftr.
Starfsmenn
  • Friðrik Margeir Friðriksson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
  • Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri
Fundargerð ritaði: Margeir Friðriksson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
Dagskrá

1.Ráðning aðgengisfulltrúa

Málsnúmer 2209033Vakta málsnúmer

Álfhildur Leifsdóttir (Vg og óháð) leggur fram svohljóðandi tillögu:
Samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks erum við skuldbundin til að "gera fötluðu fólki kleift að lifa sjálfstæðu lífi og taka fullan þátt á öllum sviðum lífsins [...] og útrýma hindrunum og tálmum sem hefta aðgengi, skulu meðal annars ná til bygginga, vega, samgangna og annarrar aðstöðu innan dyra sem utan, þar með talið skóla, íbúðarhúsnæðis, heilbrigðisþjónustu og vinnustaða."
Gott aðgengi skiptir okkur öllu máli, en slæmt aðgengi getur beinlínis komið í veg fyrir þátttöku fólks í samfélaginu. Skagafjörður er leiðandi sveitarfélag í málefnum fatlaðs fólks og er því mikilvægt að sveitarfélagið sé til fyrirmyndar hvað málefnið varðar í hvívetna.
VG og óháð leggja til Skagafjörður ráði aðgengisfulltrúa sem sér til þess að gerðar séu úttektir á aðgengi, þ.e. á þjónustu og starfsemi sveitarfélagsins í víðum skilningi. Leiði úttekt í ljós að úrbóta sé þörf hlutast aðgengisfulltrúi til um að gerðar séu tímasettar áætlanir um úrbætur."
Steinn Leó Sveinsson sviðsstjóri veitu- og framkvæmdasviðs sat fundinn undir þessum dagskrárlið.

Einar E Einarsson (B) og Gísli Sigurðsson (D) leggja fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúar meirihlutans hafna tillögu VG og óháðra en benda á að starfandi er ráðgefandi hópur um aðgengismál innan sveitarfélagsins sem heyrir beint undir byggðarráð. Í honum eiga sæti 2 fulltrúar frá sveitarfélaginu, 1 fulltrúi frá Sjálfsbjörg í Skagafirði og 1 fulltrúi frá Þroskahjálp í Skagafirði. Núverandi fulltrúar í hópnum voru kjörnir á 857. fundi byggðarráðs Sveitarfélagsins Skagafjarðar 13. febrúar 2019 og kominn tími til að skipa að nýju í hópinn hjá sameinuðu sveitarfélagi. Með hópnum starfar sviðsstjóri veitu- og framkvæmdasviðs og er hann skráður aðgengisfulltrúi sveitarfélagsins Skagafjarðar gagnvart Öryrkjabandalaginu og Fasteignasjóði Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.

Á vegum ráðgefandi hóps um aðgengismál og aðgengisfulltrúa hefur verið fjallað um og veitt álit og ráðgjöf sem snertir helstu nýframkvæmdir og viðhaldsframkvæmdir á vegum sveitarfélagsins og annarra aðila undanfarin ár og má þar nefna aðgengi að Húsi frítímans, Aðalgötu 21, Gúttó, nýjum leikskóla á Hofsósi, félagsheimilinu Bifröst, Iðju, sundlaug Sauðárkróks, sundlauginni í Varmahlíð, íþróttahúsinu á Sauðárkróki, lóð leikskólans á Hólum, vatnspósti á Hofsósi, Safnaðarheimili Sauðárkrókskirkju, stígakerfi og gönguleiðum í sveitarfélaginu, o.s.frv. Aðgengishópurinn hefur einnig sótt um styrki í gegnum framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks til úttektar á aðgengi að nokkrum opinberum byggingum og fékk í gegnum slíka styrkveitingu utanaðkomandi aðila til að gera úttekt á nokkrum byggingum í eigu sveitarfélagsins árið 2015. Þá hefur aðgengisfulltrúi nýlega fengið inn á sitt borð og verið í samskiptum við forsvarsmenn hins ánægjulega verkefnis Römpum upp Ísland sem snýst um að koma upp 1000 römpum á Íslandi fyrir 11. mars 2026 í því skyni að auka aðgengi hreyfihamlaðra að þjónustu, verslun og veitingahúsum á Íslandi.

Brýnt er að ráðgefandi hópur um aðgengismál og aðgengisfulltrúi haldi sínum mikilvægu störfum áfram. Því er lagt til að meiri- og minnihluti tilnefni nýja fulltrúa í hópinn á fundi byggðarráðs ásamt því sem leitað verði eftir tilnefningum frá Sjálfsbjörgu og Þroskahjálp þannig að unnt sé að staðfesta nýja skipan í ráðgefandi hóp um aðgengismál á næsta fundi sveitarstjórnar.

Álfhildur Leifsdóttir (Vg og óháð) óskar bókað:
Það er miður að Skagafjörður sem er leiðandi sveitarfélag í málefnum fatlaðs fólks sjái sér ekki fært að uppfylla stöðu aðgengisfulltrúa sveitarfélagsins með þeim hætti sem Öryrkjabandalag Íslands leggur til. Þar er lögð áhersla á m.a. að aðgengisfulltrúi hafi frumkvæði af því að gera úttektir á aðgengi og til hans sé leitað áður en byggt er á vegum sveitarfélagsins. Að aðgengisfulltrúi skrái verkefni, geri verklýsingu og kostnaðaráætlun, komi verkefninu á réttan aðila til úrlausna og fylgist með stöðu þess. Mikilvægt er að aðgengisfulltrúi þekki vel til málaflokksins og sæki reglulega námskeið um málefnið sem haldið er í samvinnu Mannvirkjastofnunar, Sjálfsbjargar og ÖBÍ. Tryggja þyrfti ákveðið sjálfstæði aðgengisfulltrúans og að hann hafi greiðan aðgang að áætlunum auk þess að boðleiðir séu skýrar. Ekkert að þessu er tilgreint í starfslýsingu núverandi aðgengisfulltrúa sveitarfélagsins og raunar ekkert sem tengist aðgengismálum yfirleitt með þeim hætti sem Ríkið, ÖBÍ og Samband sveitarfélaga hafa lagt til og sjá má á vef ÖBÍ.

Jóhanna Ey Harðardóttir (Byggðalisti) óskar bókað:
Aðgengisfulltrúi hefur unnið gott starf með Ráðgefandi hóp um aðgengi í að meta aðgengi að eignum sveitarfélagsins. Greinagóður listi um aðgengi eigna sveitarfélagsins og mat á þörf til úrbóta. Mikilvægt að litið sé á aðgengi í víðum skilningi þegar vinna sem þessi er unnin og að allir hafi kost á að nýta sér húsnæði og útivistarsvæði sveitarfélagsins.

Byggðarráð hafnar tillögunni með tveimur atkvæðum.

2.Ráðgefandi hópur um aðgengismál

Málsnúmer 2209222Vakta málsnúmer

Lagt fram erindisbréf fyrir ráðgefandi hóp um aðgengismál. Hópurinn heyrir beint undir byggðarráð. Í ráðgjafahópnum eiga sæti fjórir fulltrúar sem skipaðir eru af byggðarráði og skiptast þannig að tveir fulltrúar eru frá sveitarfélaginu, einn fulltrúi frá Sjálfsbjörg í Skagafirði og einn fulltrúi frá Þroskahjálp í Skagafirði. Formaður hópsins skal vera frá Sveitarfélaginu Skagafirði. Markmiðið hópsins er að yfirfara fyrirhugaðar framkvæmdir hjá sveitarfélaginu með tilliti til aðgengis, koma með tillögur um endurbætur á aðgengi og forgangsröðun þeirra. Tillögurnar eru hafðar til skoðunar við gerð fjárhagsáætlana hvers árs.
Byggðarráð samþykkir að tilnefna í ráðgjafahópinn Sigurlaugu Vordísi Eysteinsdóttur og Eyrúnu Sævarsdóttur.

3.Jarðhitaréttindi á Steinsstöðum

Málsnúmer 2011045Vakta málsnúmer

Málið síðast á dagskrá 12. fundar byggðarráðs þann 7. september 2022. Lagt fram bréf dagsett 2. september 2022 frá Sunnu Axelsdóttur lögmanni hjá Lögmannsstofu Norðurlands fyrir hönd ábúenda Laugarmýrar, varðandi heitavatnsréttindi að Steinsstöðum hinum fornu. Óskað er meðal annars eftir upplýsingum um stöðu mála hjá sveitarfélaginu varðandi heitavatnsréttindin og fundi með byggðarráði og sveitarstjóra vegna málsins svo fljótt sem unnt er. Dagný Stefánsdóttir og Róbert Logi Jóhannesson sátu fundinn ásamt lögmanni sínum Sunnu Axelsdóttur sem tók þátt í gegnum fjarfundabúnað. Steinn Leó Sveinsson sviðsstjóri veitu- og framkvæmdasviðs sat einnig fundinn ásamt lögmanni sveitarfélagsins Hjörleifi Kvaran sem tók þátt með fjarfundabúnaði.
Farið yfir stöðu málsins.

4.Framtíðarstefnumörkun íþróttamála í Skagafirði

Málsnúmer 2203176Vakta málsnúmer

Málið áður á dagskrá 1008. og 1009. fundi byggðarráðs Sveitarfélagsins Skagafjarðar. Byggðarráð samþykkti að skipa starfshóp með UMSS um stefnumörkun í íþróttamálum í sveitarfélaginu að sveitarstjórnarkosningum loknum.
Byggðarráð samþykkir að fela sveitarstjóra að óska eftir að forsvarsmenn UMSS komi á fund byggðarráðs til viðræðu um málefnið.

5.Fyrirspurn vegna Kleifatún 2

Málsnúmer 2205007Vakta málsnúmer

Erindið áður á 1014. fundi byggðarráðs Sveitarfélagsins Skagafjarðar þann 11. maí 2022. Lagt fram bréf dagsett 4. apríl 2022 frá Hafsteini Loga Sigurðarsyni og Júlíu Ósk Gestsdóttur, íbúum í Kleifatúni 2, Sauðárkróki. Með tilvísun í fundarsamþykkt umhverfis- og samgöngunefndar frá 20. október 2021, óska bréfritarar eftir því að sveitarfélagið taki þátt í kostnaði þeirra við að reisa ákeyrsluvarnarvegg á mörkum lóðarinnar Kleifatún 2, við Túngötu. Lögð fram bókun 5. fundar umhverfis- og samgöngunefndar frá 8. september 2022: "Málið tekið fyrir og rætt á fundi byggðarráðs 11. maí síðastliðinn sem samþykkti þá að vísa erindinu til umhverfis- og samgöngunefndar vegna úttektar á umferðaröryggi við Túngötu og þeirra aðgerða sem ráðast á í að úttekt lokinni. Afstaða byggðarráðs til erindisins að öðru leyti verður tekin þegar úttekt og öryggisráðstafanir munu liggja fyrir. Fyrir liggja drög verkfræðistofunnar Eflu að bættu umferðaröryggi við Túngötu á Sauðárkróki. Tillagan miðar að því að hægja á umferð um götuna en leyfður hámarkshraði er 30 km á klukkustund. Reynslan er hinsvegar sú að virkur hraði í götunni er talsvert hærri sem leiðir af sér hættu fyrir íbúa og vegfarendur. Merking og málun gangbrauta hefur sýnt sig í að vera hraðatakmarkandi aðgerð og leggur Efla til að 7-8 þveranir verði merktar og upplýstar, þar af verði 2 uppbyggðar hraðahindranir. Umhverfis- og samgöngunefnd samþykkir tillögu Eflu og felur sviðsstjóra að láta hanna, teikna upp og kostnaðarmeta aðgerðapakkann. Umhverfis- og samgöngunefnd telur framangreind áform til bætts umferðaröryggis taka á yfirvofandi hættu aðliggjandi húsa við Túngötu á Sauðárkróki."
Lagt fram minnisblað frá Eflu verkfræðistofu m.a. vegna Túngötu m.t.t umferðaröryggis, gönguleiða, þverana og hámarkshraða (halda umferðarhraða í 30 km/klst. með aðgerðum). Steinn Leó Sveinsson sviðsstjóri veitu- og framkvæmdasviðs sat fundinn undir þessum dagskrárlið.
Byggðarráð vísar í bókun umhverfis- og samgöngunefndar frá 8. september s.l. og fyrirliggjandi minnisblað frá Eflu verkfræðistofu og vísar fyrirhuguðum framkvæmdum til að tryggja umferðaröryggi til gerðar fjárhagsáætlunar 2023. Jafnframt hafnar byggðarráð erindinu um þátttöku í að reisa ákeyrsluvarnarvegg á mörkum lóðarinnar Kleifatún 2 við Túngötu.

6.Samþykkt um byggðamerki Skagafjarðar

Málsnúmer 2208236Vakta málsnúmer

Lögð fram samþykkt um byggðamerki sveitarfélagsins Skagafjarðar.

7.Samráð; Drög að upplýsingastefnu stjórnvalda

Málsnúmer 2209188Vakta málsnúmer

Lagður fram til kynningar tölvupóstur dagsettur 13. september 2022 þar sem forsætisráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 164/2022, "Drög að upplýsingastefnu stjórnvalda". Umsagnarfrestur er til og með 09.10.2022.

8.Smráð; Frumvarp til laga um póstþjónustu

Málsnúmer 2209221Vakta málsnúmer

Lagður fram til kynningar tölvupóstur dagsettur 16. september 2022 þar sem innviðaráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 168/2022, "Frumvarp til laga um póstþjónustu (Leiðrétting, bréfakassasamstæður, innleiðing Evrópureglna.)". Umsagnarfrestur er til og með 02.10.2022.

9.Tillaga kjörnefndar að stjórn SÍS 2022-2026

Málsnúmer 2209220Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar tillaga kjörnefndar að stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga 2022-2026 sem verður lögð fram á landsþingi á Akureyri 28.-30. september 2022.

Fundi slitið - kl. 16:25.