Fara í efni

Ráðning aðgengisfulltrúa

Málsnúmer 2209033

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Skagafjarðar - 12. fundur - 07.09.2022

Álfhildur Leifsdóttir leggur fram eftirfarandi tillögu:
"Samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks erum við skuldbundin til að "gera fötluðu fólki kleift að lifa sjálfstæðu lífi og taka fullan þátt á öllum sviðum lífsins [...] og útrýma hindrunum og tálmum sem hefta aðgengi, skulu meðal annars ná til bygginga, vega, samgangna og annarrar aðstöðu innan dyra sem utan, þar með talið skóla, íbúðarhúsnæðis, heilbrigðisþjónustu og vinnustaða."
Gott aðgengi skiptir okkur öllu máli, en slæmt aðgengi getur beinlínis komið í veg fyrir þátttöku fólks í samfélaginu. Skagafjörður er leiðandi sveitarfélag í málefnum fatlaðs fólks og er því mikilvægt að sveitarfélagið sé til fyrirmyndar hvað málefnið varðar í hvívetna.
VG og óháð leggja til Skagafjörður ráði aðgengisfulltrúa sem sér til þess að gerðar séu úttektir á aðgengi, þ.e. á þjónustu og starfsemi sveitarfélagsins í víðum skilningi. Leiði úttekt í ljós að úrbóta sé þörf hlutast aðgengisfulltrúi til um að gerðar séu tímasettar áætlanir um úrbætur."
Byggðarráð samþykkir að fela sveitarstjóra að óska eftir að Steinn Leó Sveinsson sviðsstjóri framkvæmda- og veitusviðs og jafnframt aðgengisfulltrúi sveitarfélagsins komi á fund byggðarráðs við fyrsta tækifæri til að upplýsa um stöðu mála. Byggðarráð samþykkir að fela sveitarstjóra að undirbúa að skipa að nýju fulltrúa í ráðgefandi hóp um aðgengismál í sveitarfélaginu.

Byggðarráð Skagafjarðar - 14. fundur - 21.09.2022

Álfhildur Leifsdóttir (Vg og óháð) leggur fram svohljóðandi tillögu:
Samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks erum við skuldbundin til að "gera fötluðu fólki kleift að lifa sjálfstæðu lífi og taka fullan þátt á öllum sviðum lífsins [...] og útrýma hindrunum og tálmum sem hefta aðgengi, skulu meðal annars ná til bygginga, vega, samgangna og annarrar aðstöðu innan dyra sem utan, þar með talið skóla, íbúðarhúsnæðis, heilbrigðisþjónustu og vinnustaða."
Gott aðgengi skiptir okkur öllu máli, en slæmt aðgengi getur beinlínis komið í veg fyrir þátttöku fólks í samfélaginu. Skagafjörður er leiðandi sveitarfélag í málefnum fatlaðs fólks og er því mikilvægt að sveitarfélagið sé til fyrirmyndar hvað málefnið varðar í hvívetna.
VG og óháð leggja til Skagafjörður ráði aðgengisfulltrúa sem sér til þess að gerðar séu úttektir á aðgengi, þ.e. á þjónustu og starfsemi sveitarfélagsins í víðum skilningi. Leiði úttekt í ljós að úrbóta sé þörf hlutast aðgengisfulltrúi til um að gerðar séu tímasettar áætlanir um úrbætur."
Steinn Leó Sveinsson sviðsstjóri veitu- og framkvæmdasviðs sat fundinn undir þessum dagskrárlið.

Einar E Einarsson (B) og Gísli Sigurðsson (D) leggja fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúar meirihlutans hafna tillögu VG og óháðra en benda á að starfandi er ráðgefandi hópur um aðgengismál innan sveitarfélagsins sem heyrir beint undir byggðarráð. Í honum eiga sæti 2 fulltrúar frá sveitarfélaginu, 1 fulltrúi frá Sjálfsbjörg í Skagafirði og 1 fulltrúi frá Þroskahjálp í Skagafirði. Núverandi fulltrúar í hópnum voru kjörnir á 857. fundi byggðarráðs Sveitarfélagsins Skagafjarðar 13. febrúar 2019 og kominn tími til að skipa að nýju í hópinn hjá sameinuðu sveitarfélagi. Með hópnum starfar sviðsstjóri veitu- og framkvæmdasviðs og er hann skráður aðgengisfulltrúi sveitarfélagsins Skagafjarðar gagnvart Öryrkjabandalaginu og Fasteignasjóði Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.

Á vegum ráðgefandi hóps um aðgengismál og aðgengisfulltrúa hefur verið fjallað um og veitt álit og ráðgjöf sem snertir helstu nýframkvæmdir og viðhaldsframkvæmdir á vegum sveitarfélagsins og annarra aðila undanfarin ár og má þar nefna aðgengi að Húsi frítímans, Aðalgötu 21, Gúttó, nýjum leikskóla á Hofsósi, félagsheimilinu Bifröst, Iðju, sundlaug Sauðárkróks, sundlauginni í Varmahlíð, íþróttahúsinu á Sauðárkróki, lóð leikskólans á Hólum, vatnspósti á Hofsósi, Safnaðarheimili Sauðárkrókskirkju, stígakerfi og gönguleiðum í sveitarfélaginu, o.s.frv. Aðgengishópurinn hefur einnig sótt um styrki í gegnum framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks til úttektar á aðgengi að nokkrum opinberum byggingum og fékk í gegnum slíka styrkveitingu utanaðkomandi aðila til að gera úttekt á nokkrum byggingum í eigu sveitarfélagsins árið 2015. Þá hefur aðgengisfulltrúi nýlega fengið inn á sitt borð og verið í samskiptum við forsvarsmenn hins ánægjulega verkefnis Römpum upp Ísland sem snýst um að koma upp 1000 römpum á Íslandi fyrir 11. mars 2026 í því skyni að auka aðgengi hreyfihamlaðra að þjónustu, verslun og veitingahúsum á Íslandi.

Brýnt er að ráðgefandi hópur um aðgengismál og aðgengisfulltrúi haldi sínum mikilvægu störfum áfram. Því er lagt til að meiri- og minnihluti tilnefni nýja fulltrúa í hópinn á fundi byggðarráðs ásamt því sem leitað verði eftir tilnefningum frá Sjálfsbjörgu og Þroskahjálp þannig að unnt sé að staðfesta nýja skipan í ráðgefandi hóp um aðgengismál á næsta fundi sveitarstjórnar.

Álfhildur Leifsdóttir (Vg og óháð) óskar bókað:
Það er miður að Skagafjörður sem er leiðandi sveitarfélag í málefnum fatlaðs fólks sjái sér ekki fært að uppfylla stöðu aðgengisfulltrúa sveitarfélagsins með þeim hætti sem Öryrkjabandalag Íslands leggur til. Þar er lögð áhersla á m.a. að aðgengisfulltrúi hafi frumkvæði af því að gera úttektir á aðgengi og til hans sé leitað áður en byggt er á vegum sveitarfélagsins. Að aðgengisfulltrúi skrái verkefni, geri verklýsingu og kostnaðaráætlun, komi verkefninu á réttan aðila til úrlausna og fylgist með stöðu þess. Mikilvægt er að aðgengisfulltrúi þekki vel til málaflokksins og sæki reglulega námskeið um málefnið sem haldið er í samvinnu Mannvirkjastofnunar, Sjálfsbjargar og ÖBÍ. Tryggja þyrfti ákveðið sjálfstæði aðgengisfulltrúans og að hann hafi greiðan aðgang að áætlunum auk þess að boðleiðir séu skýrar. Ekkert að þessu er tilgreint í starfslýsingu núverandi aðgengisfulltrúa sveitarfélagsins og raunar ekkert sem tengist aðgengismálum yfirleitt með þeim hætti sem Ríkið, ÖBÍ og Samband sveitarfélaga hafa lagt til og sjá má á vef ÖBÍ.

Jóhanna Ey Harðardóttir (Byggðalisti) óskar bókað:
Aðgengisfulltrúi hefur unnið gott starf með Ráðgefandi hóp um aðgengi í að meta aðgengi að eignum sveitarfélagsins. Greinagóður listi um aðgengi eigna sveitarfélagsins og mat á þörf til úrbóta. Mikilvægt að litið sé á aðgengi í víðum skilningi þegar vinna sem þessi er unnin og að allir hafi kost á að nýta sér húsnæði og útivistarsvæði sveitarfélagsins.

Byggðarráð hafnar tillögunni með tveimur atkvæðum.