Fara í efni

Ný heimasíða Sveitarfélagsins Skagafjarðar

06.07.2015
Ný vefsíða Skagafjarðar

Ný útgáfa heimasíðu Sveitarfélagsins Skagafjarðar lítur nú dagsins ljós en hún er afrakstur undirbúnings og yfirlegu stýrihóps sveitarfélagsins og starfsfólks Stefnu, sem sá um vefhönnun. Rétt eins og á fyrri vef sá Stefna um vefsíðugerð og tæknilega útfærslu vefsins.

Búið er að endurhanna veftré síðunnar með það að markmiði að gera hana aðgengilegri og einfaldari í notkun. Þá er síðan orðin snjöll sem þýðir að hún er hönnuð og sett upp til að aðlaga sig að skjástærðum, hvort sem þú notar síðuna í gegnum hefðbundna tölvu, spjaldtölvu eða snjallsíma. Aðgengi á að vera enn betra en á eldri heimasíðu en með þjónustu frá stillingar.is er komið til móts við fólk sem á erfitt með að lesa vegna t.d. lesblindu eða sjónskerðingar. Að auki er hægt að stækka og minnka letur síðunnar og hlusta á vefþulurnar Karl og Dóru frá iWebReader lesa upp texta sem bætir aðgengi að síðunni fyrir marga.

Á öllum síðum er hægt að gera athugasemd við efni. Með því móti er leitast við að gera vonandi góðan vef enn betri. Við hvetjum ykkur til að leggja okkur lið með notkun athugasemda því viðbúið er að við endurhönnun síðunnar séu enn einhver atriði sem mega betur fara eða hafa farið fram hjá okkur.

Við vonum að íbúar Sveitarfélagsins Skagafjarðar og aðrir velunnarar vítt og breytt um heiminn verði duglegir að heimsækja nýju síðuna og að hún eigi eftir að koma þeim að góðum notum.