Fara í efni

Mælifellsrétt gengur í endurnýjun lífdaga

21.06.2017
Mælifellsrétt

Lengi hefur staðið til að lagfæra Mælifellsrétt sem stendur á leigulóð í landi Hvíteyra.  Ástand réttarinnar var orðið mjög lélegt, veggir dilkanna frostsprungnir, morknir og óviðgerðarhæfir með öllu.  Ætlunin hafði verið að halda í almenninginn sem talinn var í þokkalegu ástandi en þegar á reyndi voru veggir hans lausir ofan á sökklunum. Við þetta varð kostnaður við endurgerðina þónokkuð meiri en vænst hafði verið.

Á vormánuðum var unnið við að fjarlægja það sem ónýtt var og hefja uppbyggingu réttarinnar að nýju.  Gekk það vel enda góðir verkmenn að störfum.  Kostnaður við endurgerð réttarinnar, efni og vinna, nam 19 milljónum króna. Almenningurinn er steyptur, en dilkarnir eru úr galvaniseruðu grindarefni.

Þann 9. júní s.l. fór landbúnaðarnefnd í vettvangsferð til að skoða réttina eftir endurbæturnar. Í bókun nefndarinnar segir: Landbúnaðarnefnd telur að vel hafi til tekist. Lokafrágangur er eftir og er vonast til að honum ljúki sem fyrst.

 MælifellsréttLandbúnaðarnefnd í Mælifellsrétt