Fara í efni

Fjölgun íbúa Sveitarfélagsins Skagafjarðar og auglýsingar um laus störf

08.02.2016
Útsýni yfir hluta Skagafjarðar

Síðustu árin hefur íbúum Sveitarfélagsins Skagafjarðar fækkað nokkuð og var fjöldinn kominn niður í 3910 íbúa 1. janúar 2015 samkvæmt opinberum tölum Hagstofu Íslands.

Samkvæmt tölum úr þjóðskrá fór íbúafjöldinn lægst niður í 3884 íbúa í nóvember sl. en síðan hefur íbúum fjölgað talsvert á ný og eru þeir nú orðnir 3928.

Þetta eru að sjálfsögðu afar gleðileg tíðindi og vonandi að þessi jákvæða þróun haldi áfram.

Vakin er athygli á að finna má auglýsingar um opinber störf á starfatorg.is en þar er nú m.a. auglýst eftir yfirhjúkrunarfræðingi sjúkrasviðs, sálfræðingi og lífeindafræðingi á Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Sauðárkróki, og aðstoðarverslunarstjóra í vínbúð ÁTVR á Sauðárkróki.

Sveitarfélagið Skagafjörður auglýsir einnig á þessari síðu eftir karlmanni til starfa í sundlaug Sauðárkróks og aðilum sem eru reiðubúnir að taka að sér börn í daggæslu.

Í síðustu tölublöðum Sjónhorns, dagskrár- og auglýsingarits Skagfirðinga, má jafnframt frá áramótum sjá auglýsingar um laus störf í Versluninni Eyri, Bláfelli, aðstoðarmanneskju við heimilishald og þrif, starfsmann í slátrun og úrbeiningu hjá Kjötafurðastöð KS, starfsfólk á þjónustustöð N1 á Sauðárkróki og framtíðarstörf í sjávarútvegi hjá FISK Seafood.