Fara í efni

Umhverfis- og tækninefnd

30. fundur 11. maí 1999 kl. 20:30 Höfðaborg, Hofsósi

Umhverfis- og tækninefnd Skagafjarðar 

Fundur 30 – 11.05.1999

 

      Ár 1999, þriðjudaginn 11. maí kl. 2030 kom umhverfis- og tækninefnd saman til fundar í Höfðaborg Hofsósi.

Fundurinn var opinn fundur um skipulagsmál á Hofsósi.

      Eftirtaldir nefndarmenn í umhverfis- og tækninefnd voru mættir:  Stefán Guðmundsson, Sigrún Alda Sighvats, Árni Egilsson, Jóhann Svavarsson, Örn Þórarinsson, Árni Ragnarsson skipulagsarkitekt, Hallgrímur Ingólfsson tæknifræðingur, Ingvar Gýgjar Jónsson, Jón Örn Berndsen og Snorri Björn Sigurðsson.  Auk þeirra tuttugu og sex fundargestir aðrir sem rituðu nöfn sín á blað sem dreift var á fundinum.

 

Dagskrá fundarins var Hofsós – deiliskipulag og drög að þéttbýlisuppdrætti.  


Stefán Guðmundsson setti fund og bauð gesti velkomna.  Árni Ragnarsson tók þá til máls og fór yfir þær tillögur sem hann hefur verið að vinna.  Að lokinni yfirferð Árna gaf Stefán formaður orðið laust. 

Jón Magnússon tók til máls og lýsti ánægju sinni með að ráðist hefði verið í skipulagsvinnu í Hofsósi og þar tekið á málum í deiliskipulagi.  Sagðist ekki hafa neinar athugasemdir við meginlínur í skipulagstillögunum.

Hallgrímur Gunnarsson telur nauðsynlegt, áður en lengra verði haldið, að fram fari menningarsögulegt og byggingarsögulegt mat á kvosinni.  Telur umhverfisslys ef þessar tillögur verði unnar áfram án þess.  Telur rétt að fá “óháðan” aðila til að vinna slíkt mat. 

Björn Þór Haraldsson lýsti ánægju með vinnu umhverfis- og tækninefndar.  Benti hann á að hann telji að ekki eigi að byggja upp á lóð Árvers.  Í sama streng tók Guðný Jóhannsdóttir. 

Ólafur Halldórsson spyr um hvaða hugmyndir séu um byggingar á þeim nýju byggingarreitum sem fyrirhugaðir eru. 

Björk Björnsdóttir og Ragnheiður Jónsdóttir spurðu um sögulegt gildi Nafarhússins.

Árni Egilsson tók til máls – lýsti hann eftir nöfnum á nýjar götur.  Lýsti Árni þeirri skoðun sinni að fyrirhugaðar byggingar skv. skipulagi falli vel að umhverfinu.  Varðandi höfnina sagði Árni að í dag sé höfnin smábátahöfn og svo verði áfram. 

Ragnheiður Jónsdóttir benti á “nýji vegurinn” Norðurbraut yfir ána væri beinlínis hættulegur fyrir gangandi umferð.  Þá spyr hún hvort settir hafi verið byggingarskilmálar fyrir nýbyggingar á svæðinu.

Jóhann Svavarsson þakkaði fyrir þær undirtektir sem fram hefðu komið.  Spurðist fyrir um örnefni og óskaði eftir því að reynt yrði að halda þeim til haga.  Svandís Þóroddsdóttir benti á að öll gömul hús í Hofsós hefðu heiti.

Hallgrímur Gunnarsson spyr hvort þetta svæði sem hér er til umræðu verði formlega lýst hverfisverndarsvæði. 

Árni Ragnarsson svaraði hinum ýmsu spurningum sem að nefndinni var beint.  Gerði hann grein fyrir því að þessi fundur væri fyrst og fremst ætlaður sem vinnu- og kynningarfundur.  Ætlaður til að ná fram sjónarmiðum heimamanna vegna áframhaldandi vinnu við skipulagið.

Örn Þórarinsson velti fyrir sér hve stór hluti íbúanna í Hofsós hefði nú vinnu við ferðaþjónustu.  Jón Magnússon benti á að um 10.000 ferðamenn komi í Hofsós á ári.

Rætt var almennt um tré og trjárækt í Hofsós. 

Elinborg Hilmarsdóttir lýsti ánægju sinni með skipulagstillögurnar.  Jafnframt gerði hún grein fyrir því að fyrirhugað væri að planta töluverðu af trjám í Hofsós. 

Gunnlaugur Steingrímsson ræddi almennt um skipulagstillögurnar og lagði áherslu á að gætt yrði verndunarsjónarmiða við skipulagsvinnuna.  Ræddi aðkomuna í kvosina og taldi að núverandi aðkoma um sneiðinginn að sunnan heppilegri en tengingu austan frá sem tillagan gerir ráð fyrir.  Þá velti Gunnlaugur fyrir sér snjóalögum og hugsanlegum breytingum á þeim ef ný hús verða byggð á svæðinu. 

Stefán Guðmundsson tók að lokum til máls og þakkaði fundarmönnum góða fundarsetu og umræður.

 

Fleira ekki gert, fundi slitið.

 

Stefán Guðmundsson                                               Jón Örn Berndsen, ritari

Sigrún Alda Sighvats                                                 Ingvar Gýgjar Jónsson

Örn Þórarinsson                                                        Hallgrímur Ingólfsson

Árni Egilsson                                                              Árni Ragnarsson

Jóhann Svavarsson                                                   Snorri Björn Sigurðsson